Guðmundur Björgvin Helgason ríkisendurskoðandi áritaði ársreikninga tveggja opinberra hlutafélaga, Íslandspósts og Isavia, án áritunar löggilts endurskoðanda. Ársreikningana áritaði hann með endurskoðunaráritun þar sem fram kemur að endurskoðað hafi verið í samræmi við alþjóðlega endurskoðunarstaðla

Andrea Sigurðardóttir

andrea@mbl.is

Guðmundur Björgvin Helgason ríkisendurskoðandi áritaði ársreikninga tveggja opinberra hlutafélaga, Íslandspósts og Isavia, án áritunar löggilts endurskoðanda. Ársreikningana áritaði hann með endurskoðunaráritun þar sem fram kemur að endurskoðað hafi verið í samræmi við alþjóðlega endurskoðunarstaðla. Þetta er breyting frá ársreikningi ársins á undan en í ársreikningi 2022 var að finna tvær áritanir.

Félag löggiltra endurskoðenda (FLE) hefur sent félagsmönnum sínum tölvupóst sem Morgunblaðið hefur undir höndum, þar sem stjórn félagsins segist telja að það fáist ekki staðist að ríkisendurskoðandi áriti ársreikninga Íslandspósts og Isavia með þeim hætti sem hann gerir, enda sé hann ekki löggiltur endurskoðandi.

Þá hefur Endurskoðendaráð málið til skoðunar, en hlutverk ráðsins er meðal annars að hafa eftirlit með því að endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki ræki störf sín í samræmi við ákvæði laga um endurskoðendur og endurskoðun.

Óvíst um samþykki ársreikningaskrár

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins eru áhöld uppi um hvort ársreikningarnir geti að óbreyttu hlotið samþykki ársreikningaskrár. Afleiðingarnar gætu orðið þær að Íslandspóstur og Isavia þurfi að samþykkja nýja ársreikninga með réttri áritun. Gæti þurft að boða til aukaaðalfunda vegna þessa.

Samkvæmt lögum um endurskoðendur og endurskoðun getur aðeins löggiltur endurskoðandi annast endurskoðun ársreikninga. Þótt lög um endurskoðendur taki ekki til ríkisendurskoðanda eða Ríkisendurskoðunar, taka ákvæði laganna til þeirra starfsmanna Ríkisendurskoðunar sem annast endurskoðun ársreikninga ríkisfyrirtækja og lög áskilja að endurskoðunin sé framkvæmd af endurskoðanda. Í greinargerð með frumvarpi laga um ríkisendurskoðanda kemur aukinheldur fram að ekki sé gert ráð fyrir því að ríkisendurskoðandi sinni sjálfur endurskoðun af því tagi.

Verklagi áður verið breytt

Mál þetta er ekki fordæmalaust. Árið 2019 varð Skúla Eggerti Þórðarsyni, þáv. ríkisendurskoðanda, það á að undirrita ársreikning Íslandspósts þrátt fyrir að hafa ekki löggildingu sem endurskoðandi. Í kjölfarið var verklagsreglum innan stofnunarinnar breytt þannig að ríkisendurskoðandi áriti aðeins eftirlitsþáttinn sem yfirmaður stofnunarinnar en fagendurskoðendur áriti reikningsskilin, að því er fram kom í umfjöllun Viðskiptablaðsins um málið á sínum tíma.

Eitthvað virðist hið breytta verklag hafa skolast til síðan handvömm Skúla Eggerts átti sér stað. Fram kemur í bréfi FLE að áritun ársreiknings Íslandspósts vegna ársins 2022 mátti finna tvær áritanir, annars vegar hefðbundna áritun löggilts endurskoðanda og hins vegar áritun frá ríkisendurskoðanda. Sú áritun var í samræmi við það verklag sem Skúli Eggert kom á.

Í svari við fyrirspurn blaðsins segir ríkisendurskoðandi að áritun hans sé til staðfestingar á vinnu endurskoðenda sem starfa á vegum embættisins. Komi til einhverra athugasemda á öðrum vettvangi verði brugðist við því með viðeigandi hætti en hann telur vangaveltur um slíkt ekki tímabærar.

Ekki náðist í forsvarsmenn FLE við vinnslu fréttarinnar og ekki hafa fengist svör um verklag frá Skattinum sem fer með ársreikningaskrá. Áslaug Árnadóttir, formaður Endurskoðendaráðs, vildi ekki tjá sig um málið en staðfesti að ráðið væri með það til athugunar.