Veiðar Túnfiskurinn er værðmætur.
Veiðar Túnfiskurinn er værðmætur. — Morgunblaðið/Golli
Fátt bendir til að nokkur sjái sér fært að leggja í veiðar á bláuggatúnfiski í ár og verður 224 tonna kvóti Íslendinga því ekki nýttur. Breytingar sem gerðar voru á lögum 2022 sem áttu að hvetja íslenskar útgerðir til að hefja túnfiskveiðar eru…

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Fátt bendir til að nokkur sjái sér fært að leggja í veiðar á bláuggatúnfiski í ár og verður 224 tonna kvóti Íslendinga því ekki nýttur. Breytingar sem gerðar voru á lögum 2022 sem áttu að hvetja íslenskar útgerðir til að hefja túnfiskveiðar eru andstæðar alþjóðaskuldbindingum Íslands og hafa ekki haft nein áhrif.

Fiskistofa auglýsti 8. mars síðastliðinn að opnað hefði verið fyrir umsóknir um leyfi til veiða á bláuggatúnfiski árið 2024 og eru í boði allt að þrjú leyfi. „Veiðiheimild Íslands í Austur-Atlantshafsbláuggatúnfiski er nú 0,55% af leyfilegum heildarafla sem gefinn er út af Atlantshafstúnfiskveiðiráðinu (ICCAT). Það er í ár 224 tonn. Auglýst hefur verið eftir umsóknum um veiðiheimildir fyrir íslensk skip en ekki hafa borist umsóknir,“ segir í svari matvælaráðuneytisins við fyrirspurn Morgunblaðsins.

Bláuggatúnfiskurinn er eftirsótt afurð og var meðalverð á mörkuðum 13. mars 40,47 bandaríkjadalir samkvæmt Tridge. Er það jafnvirði 5.579 íslenskra króna á kíló sem þýðir að aflaverðmæti 224 tonna af tegundinni gæti verið 1.249 milljónir króna.

Krefjast sérstakra skipa

Túnfiskveiðar krefjast hins vegar sérútbúinna línuskipa með mikla frystigetu, en engin útgerð á Íslandi býr yfir slíku skipi. Ákveðið var 2022 að breyta lögum þannig að útgerðum yrði heimilt að taka á leigu erlend skip til að hefja túnfiskveiðar. Við spurningu um hvort stefnt verði að frekari breytingum á umgjörð veiðanna til að hvetja Íslendinga til veiða á túnfiski svarar matvælaráðuneytið: „Það liggja ekki fyrir áform um breytingar á regluverki um túnfiskveiðar, en reglurnar mótast í raun á vettvangi ICCAT. Þar er t.a.m. bannað að nota erlend leiguskip við veiðar á bláuggatúnfiski (no chartering).“

Þá segir í svari ráðuneytisins að „stjórnvöld hafa hvatt samtök fyrirtækja í sjávarútvegi til að beita sér fyrir því að útgerðir nýti þessar veiðiheimildir, en þörf er á sérhæfðu skipi til þess með mikla frystigetu. Ekki verður þó um ríkisstyrki að ræða í þeim efnum.“

Túnfiskkvóti Íslendinga hefur ekki verið nýttur undanfarin fimm ár að undanteknum túnfiski sem skráður hefur verið sem meðafli annarra veiða, en sá afli er óverulegur.

Höf.: Gunnlaugur Snær Ólafsson