Skemmtun Stórsveitin ásamt Theodóri Smára Þorsteinssyni trommara og Stefáni Skafta Steinólfssyni söngvara til vinstri og Grétari Jónssyni aðstoðarmanni lengst til hægri. Gömlu, góðu gildin eru í heiðri höfð.
Skemmtun Stórsveitin ásamt Theodóri Smára Þorsteinssyni trommara og Stefáni Skafta Steinólfssyni söngvara til vinstri og Grétari Jónssyni aðstoðarmanni lengst til hægri. Gömlu, góðu gildin eru í heiðri höfð.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mikill gangur er í Félagi harmonikuvina á Vesturlandi, FHVV, sem stofnað var sl. haust, og eru nú 32 meðlimir. Æfingar eru í Tónlistarskólanum á Akranesi annan hvern miðvikudag, félagsmenn hafa spilað í smærri hópum á ýmsum viðburðum og stórsveit…

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Mikill gangur er í Félagi harmonikuvina á Vesturlandi, FHVV, sem stofnað var sl. haust, og eru nú 32 meðlimir. Æfingar eru í Tónlistarskólanum á Akranesi annan hvern miðvikudag, félagsmenn hafa spilað í smærri hópum á ýmsum viðburðum og stórsveit FHVV lék fyrir dansi á gömludansaballi fyrir allar kynslóðir sl. föstudag. „Það er mikið líf í félaginu, þetta var fyrsta ball félagsins og það verður væntanlega fastur liður í Vetrarhátíð Akraness,“ segir Gísli S. Einarsson, formaður FHVV.

Harmonika hefur lengi loðað við fjölskyldu Gísla. „Afi minn og afabræður spiluðu á harmoniku og líka móðurbræður mínir. Ég byrjaði að spila á nikku 10 ára gamall.“ Námið varði ekki lengi. „Magnús Jónsson söngkennari spilaði fyrir mig lögin „Nú blikar við sólarlag“ og „Eyjan hvíta“ og eftir hálftíma fór ég heim og byrjaði að æfa mig.“ Áður hafi hann spilað á gítar og það hafi komið sér vel. „Ég var á níunda ári þegar ég byrjaði að spila á gítar systur minnar. Þegar hún hætti að nota hann tók hún strengina úr honum, en ég setti þá aftur í og lærði að stilla þá án tilsagnar. Ég kunni þegar mörg lög og það að geta spilað á gítar fer mjög vel saman við harmonikuspileríið.“

Með nikkuna í 70 ár

Nikkan hefur fylgt Gísla í tæplega 70 ár og hann var helsti hvatamaðurinn að stofnun FHVV ásamt nafna sínum Gíslasyni, fyrrverandi hafnarstjóra Faxaflóahafna og áður bæjarstjóra á Akranesi. „Okkur bættist góður liðsauki frá Hornafirði, Zophonías Torfason, fyrrverandi skólastjóri á Höfn og ágætur harmonikumaður.“

Í FHVV er fólk á öllum aldri og lögð er áhersla á að kynna nemendum í Tónlistarskóla Akraness gömul lög. „Hjá okkur er fólk alveg niður úr og upp úr, allt frá því það fer að standa í fæturna og á meðan það stendur á fótunum,“ segir Gísli. Undanfarin tvö ár hafi þeir Gísli staðið fyrir balli í Tónlistarskólanum og lagt upp úr því að fá krakkana til að spila með, en trommarinn með stórsveitinni á gömludansaballinu fyrir helgi var Theodór Smári Þorsteinsson, 14 ára nemandi í TA. „Með þessu viljum við kynna þeim gömlu lögin og gömlu dansana.“

Gísli hefur sinnt ýmsum störfum, var til dæmis bæjarfulltrúi, alþingismaður og bæjarstjóri Akraness. Spilaði þá á nikkuna í hjáverkum en eftir að hann hætti formlegri vinnu hefur spileríið tekið mestan tíma hans. Þremenningarnir hafi til dæmis spilað fyrir heimilisfólk á Dvalarheimilnu Höfða, fyrir Félag eldri borgara á Akranesi og nágrenni og á árlegri skötuveislu Hins íslenska skötufélags, þar sem Gísli Gíslason er formaður.

„Stíf dagskrá er fram undan hjá tríóinu,“ heldur Gísli áfram. Danshópurinn Sporið verði með 28 sýningar fyrir útlendinga á Hótel Borgarnesi í sumar. Þeir spili að minnsta kosti á 14 þeirra á móti harnonikuljóninu Hilmari Hjartarsyni, Lindu Guðmundsdóttur og Rósu Jóhannesdóttur fiðluleikara, en fyrsta sýningin verði í lok apríl. „Það verða allt að fjórar sýningar vikulega fram í september. Við dettum því ekki úr æfingu á næstunni.“

Höf.: Steinþór Guðbjartsson