Góðar saman Katrín og Helga með hunda Helgu heima hjá henni á Laugarvatni, mæðgurnar Sunnu og Elju.
Góðar saman Katrín og Helga með hunda Helgu heima hjá henni á Laugarvatni, mæðgurnar Sunnu og Elju.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Við kynntumst þegar við unnum saman í tvö ár eftir að við lukum dýralæknanámi. Við fundum strax hversu vel við unnum saman, við vegum hvor aðra upp,“ segja þær Katrín Wagner og Helga Björt Bjarnadóttir sem eiga og reka fyrirtæki saman undir nafninu Dýralæknar Katrin & Helga ehf

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Við kynntumst þegar við unnum saman í tvö ár eftir að við lukum dýralæknanámi. Við fundum strax hversu vel við unnum saman, við vegum hvor aðra upp,“ segja þær Katrín Wagner og Helga Björt Bjarnadóttir sem eiga og reka fyrirtæki saman undir nafninu Dýralæknar Katrin & Helga ehf.

„Ég stofnaði dýralæknastofuna fyrir tveimur árum heima hjá mér rétt utan við Hvolsvöll, en þá var Helga í fæðingarorlofi. Hún gekk svo til samstarfs við mig og kom inn í reksturinn í fyrravor,“ segir Katrín og bætir við að þær þjónusti allt Suðurland og því skipti ekki máli að Helga býr á Laugarvatni en hún í Rangárvallasýslu.

„Við lítum á það sem kost, við sinnum þá hvor þeim verkefnum sem nær okkur eru hverju sinni, og sinnum öllum reglulegum vitjunum og aðgerðum sem hægt er að gera á staðnum, til dæmis keisaraskurði. Við erum með vel útbúna bíla með apótekum og bjóðum því upp á þjónustu heim til fólks, bæði fyrir stór og smá dýr. Einnig tökum við á móti smádýrum í reglulegar heilbrigðisskoðanir, bólusetningar og fleira á stofunum okkar, sem eru heima hjá okkur. Stærsti hluti vinnu okkar er með stórgripi, kýr og hesta, en við sinnum auðvitað líka hundum og köttum og svo kindum, sérstaklega um sauðburð. Sumrin fara mikið í sæðingar á hryssum og önnur frjósemistengd verkefni og vandamál. Þá eigum við sérstök tæki og búum yfir þekkingu til að meta gæði sæðis. Við eigum röntgentæki til að taka röngtenmyndir og gera greiningu á þeim myndum, og tvö sónartæki. Einnig bjóðum við upp á ræktun og greiningu á mjólkursýnum, hvort sem það er hluti af júgurbólgu- eða geldstöðumeðhöndlun, en auk þess greinum við legstrokssýni úr hryssum. Þetta er skemmtileg og krefjandi vinna, með löngum dögum, engir eins.“

Katrín segist elska að keyra á milli bæja og takast á við ólíkustu verkefni.

„Þótt ég hafi menntað mig með áherslu á nautgripi þá leitar fólk auðvitað til mín með ýmis önnur dýr,“ segir Katrín og bætir við að sér hafi fyrst fundist yfirþyrmandi að byrja að starfa sjálfstætt.

„Ég þurfti að keyra út um allar sveitir og finna fólkið sem hafði hringt eftir hjálp minni, skoða dýrið og finna út hvað væri að, finna réttu meðulin og réttu skammtana áður en ég fór á næsta stað. Núna er ég orðin sjóuð í þessu og kann virkilega vel við mig í starfinu.“

Ástríða fyrir ólíkum dýrum

Helga er fædd og uppalin í Reykjavík og segist hafa ákveðið að verða læknir þegar hún var þriggja ára.

„Ég ákvað að fara frekar í dýralæknanám af því að mig langaði að vera mikið með dýrunum mínum, en ég var mikið í hestum með fjölskyldu minni. Nú er ég með dýrum alla daga, en ekki mínum eigin,“ segir Helga og hlær en hún fór í tamninganám á Hólum áður en hún fór í dýralæknanámið til Noregs.

„Við Arnar Gunnarsson maðurinn minn eigum tvo hesta en líka tvö börn á leikskólaaldri og nú snýst hestamennskan meira um að leyfa þeim að fara á bak.“

Katrín er fædd og uppalin í borginni Linz í Austurríki og segist hafa viljað vera í nálægð við dýr frá því hún var barn.

„Amma mín og afi voru kúabændur og þar átti ég góðar stundir, en heima í borginni var ekki í boði að hafa gæludýr, þótt ég hafi suðað mikið um það. Ég er mikill dýravinur og ákvað því að læra dýralækningar,“ segir Katrín sem kom fyrst til Íslands sem ferðamaður árið 2010.

„Þegar kom að því að fara í starfsnám í dýrlæknanáminu ákvað ég að fara til Íslands, því mig langaði að kynnast íslenska hestinum í hans heimalandi. Að námi loknu fór ég strax aftur til Íslands til að vinna sem dýralæknir og eftir að ég kynntist kærastanum mínum, Trausta Þór Eiðssyni, ákvað ég að setjast hér að. Við eigum fimm hesta, tvo hunda og tvo ketti. Ég elska að ríða út, það hreinsar hugann.“

Þær Katrín og Helga segjast hafa ástríðu fyrir ólíkum dýrum og líta á það sem kost í starfi sínu sem dýralæknar.

„Hestar og hundar eru í uppáhaldi hjá mér,“ segir Helga og bætir við að kettir og kýr séu í uppáhaldi hjá Katrínu. „Ég veit ekki um neinn sem elskar dýr jafn mikið og Katrín, henni þykir vænt um hvert einasta dýr. Ef Katrín gæti verið með klaufir, horn og júgur, þá væri hún kýr,“ segir Helga og hlær. Katrín segir að eigendur dýranna sem hún meðhöndli séu stundum hissa á hversu mikið hún tali við dýrin.

„Þetta eru sjúklingar mínir, ég get ekki annað en talað við þau, því mér finnst það róa þau og veita þeim öryggi,“ segir Katrín.

Krefst mikillar þrautseigju

Í ljósi þess hversu fjölbreytt verkefni þeirra í dýrlæknastarfinu eru segjast þær hringja mikið hvor í aðra í vitjunum til að fá ráð.

„Við reynum líka að vera í góðu samstarfi við aðra dýralækna sem eru sérfræðingar á sínu sviði. Ég hringi stundum í vinkonur mínar í Austurríki sem eru dýralæknar til að fá ráð, önnur er sérfræðingur í smádýrum en hin í kúm.“

Vandasamast segja þær vera að eiga við langtímaveikindi, t.d. dýr sem nærast ekki, langtímaniðurgang og fleira í þeim dúr.

„Slíkt getur verið erfitt að laga og það krefst þess að við notum allt sem við höfum lært. Það krefst mikillar þrautseigju bæði af okkar hálfu, eigenda og dýranna. Starf okkar felst líka í samskiptum við eigendur dýranna sem þurfa að taka ákvarðanir fyrir dýrin sín. Þá skiptir máli að geta átt gott samtal, útskýra vel og gera grein fyrir valmöguleikum, vega og meta saman.“

Dýralæknastarfið getur verið annasamt, því dýr veikjast ekki aðeins á þjónustutíma dýralæknastofunnar.

„Dýraeigendur geta hringt í okkur á öðrum tímum vegna neyðartilfella, en Matvælastofnun sér til þess að alltaf sé dýralæknir á vakt utan venjulegs afgreiðslutíma,“ segir Helga.

Fyrir þá sem vilja fylgjast með Katrínu og Helgu er hægt að skoða facebooksíðu þeirra: Dýralæknar Katrin & Helga eða vefsíðuna: katrinwagner.is