Guðrún Ólafsdóttir Thorarensen fæddist á Þorvaldseyri á Eyrarbakka 28. febrúar 1934. Hún lést 12. mars 2024.

Hún var dóttir hjónanna Ólafs E. Bjarnasonar og Jennýjar D. Jensdóttur.

Systkini hennar voru: Sigrún, Bjarni, Sigurður, Ólafur, Eggert, Sigurður Bjarnason, Guðbjörg, Margrét, Bryndís, Sigríður, Áslaug og uppeldissystir Margrét. Þau eru öll látin nema Sigríður.

Árið 1951 gekk hún í hjónaband með Herði Thorarensen, f. 1926, d. 2013, frá Kirkjubæ á Rangárvöllum.

Börn þeirra eru: 1) Ólöf Dagný, f. 1952. Maður hennar er Helgi Bergmann Sigurðsson. Börn þeirra eru Gunnar Björn og Sigrún. Maður Sigrúnar er Heimir Rafn Bjarkason og dætur þeirra eru Ólöf Vala og Elfa Rún. 2) Bogi Pétur, f. 1956. Unnusta hans var Sigrún Ágústsdóttir frá Birtingaholti. Þau Bogi og Sigrún fórust af slysförum í Ingólfsfjalli árið 1982. 3) Ari Björn, f. 1965. Kona hans er Ingunn Gunnarsdóttir. Börn þeirra eru Guðrún, Bogi Pétur og Margrét. Maður Guðrúnar er Ólafur Rafn Brynjólfsson. Börn þeirra eru Brynjólfur Kári, Skarphéðinn Ari og Hallgerður Anna.

Kona Boga er Erika Leue og börn hennar eru Mortimer Kári og Mara Rut. Maður Margrétar er Gauti Gunnar Halldórsson.

Guðrún ólst upp á Eyrarbakka hjá foreldrum sínum. Eldri systkini hennar voru sum hver farin að heiman er hún var að alast upp, en hún var alla tíð í góðu sambandi við þau öll.

Hún gekk í Barnaskólann á Eyrarbakka og lauk skyldunámi þaðan. Síðan fór hún að vinna ýmis störf. Eftir að þau Hörður giftust byggðu þau sér hús á Eyrarbakka sem heitir Túnprýði. Hörður var lengst af sjómaður og kom það því í hennar hlut að annast börnin og heimilið. Hún vann stundum hlutastörf í frystihúsinu á Eyrarbakka.

Þegar Hörður hætti sjómennsku ráku þau hjónin saman um tíma bensínafgreiðslu og sjoppu á Eyrarbakka. Þau réðu sig síðan bæði til Alpan á Eyrarbakka þar sem þau luku starfsævinni.

Guðrún var mikil félagsvera og lét sér annt um fólk. Hún sinnti félagsmálum alla tíð. Ung gekk hún í Kvenfélag Eyrarbakka og vann fyrir það alla tíð. Hún var um árabil formaður Verkalýðsfélagsins Bárunnar og sat um tíma í miðstjórn ASÍ. Þá sat hún í hreppsnefnd Eyrarbakka tvö kjörtímabil.

Þau Hörður fluttu til Selfoss árið 2007. Þar tók hún þátt í félagsstarfi, m.a. félagsstarfi aldraðra bæði á Eyrarbakka og á Selfossi. Einnig tók hún þátt í starfi Rauðakrossdeildarinnar á Selfossi. Hörður lést 2013 og bjó Guðrún ein eftir það.

Útför Guðrúnar fer fram frá Eyrarbakkakirkju í dag, 21. mars 2024, klukkan 14.

Elskuleg tengdamóðir mín hefur nú kvatt þessa jarðvist eftir stutt veikindi. Ekki átti ég nú von á því þegar við skruppum til læknis að hún kæmi ekki heim aftur. En Gunnu var mjög gjarnt að flýta sér, drífa hlutina af, og spennt að takast á við næstu verkefni. Þó hún hafi náð 90 árum var hún samt að flýta sér. Þvílíkur kraftur í einni konu. Þess naut ég svo sannarlega í gegnum árin, eins og við bakstur, sultugerð, pössun og fataviðgerðir. Já viðgerðir því hún var enn að gera við fötin hans Ara og var ekki lengi að því, daginn eftir hékk svo poki á útidyrunum því hún mátti ekki vera að því að bíða eftir að einhver kæmi heim. Hún var einstaklega hjálpsöm og ráðagóð og unni sínu fólki heitt. Hvað er Ari nú að vesenast átti hún til að segja þegar hún kíkti við ef sonurinn var ekki heima, en elskaði allt hestabrasið á honum. Frá því að hann fór að fara á fjall 1980 á Flóa- og Skeiðamannaafrétt tók hún upp hjá sjálfri sér að taka á móti fjallmönnum við Fossnes með skottið fullt af kaffi, kakói, smurðu og heimabökuðu. Þetta gerði hún af einstökum áhuga og ánægju í hátt í 40 ár og voru miklar skemmtiferðir fyrir mig.

Guðrún var fædd á Eyrarbakka og bjuggu þau Hörður þar en fluttu á Selfoss 2007. Þau urðu fyrir stóru áfalli þegar þau misstu son sinn og tengdadóttur af slysförum. Sorgin var stór en í sameiningu unnu þau úr henni með vinum og fjölskyldu og var þeim mikil gleði þegar Bogunum og Sigrúnunum fjölgaði. Vinátta og kærleikur er einstakur við fjölskyldu Sigrúnar, Birtingaholtsfólkið.

Þau hjón voru samhent og höfðu alla tíð mikið yndi af tjaldferðalögum og þá oft með litlum fyrirvara, bara lagt af stað og keyrt eftir veðurspánni, best var ef þau komust í ber, þá var hægt að gleyma sér. Það eru fáir staðir á Íslandi sem þau höfðu ekki heimsótt. Oftar en ekki var einhverju barnabarninu boðið með og sátu í pökkuðum bílnum og fengu kex að vild. Þetta eru dýrmætar minningar. Og þegar barnabarnabörnin fóru að koma eignuðust þau einstakt samband við langömmu.

Guðrún var einstaklega félagslynd og sóttist eftir að vera innan um fólk og kynnast nýju fólki og var virk í félagsstörfum. Hún var mjög frændrækin og forvitin um fólk og skráði inn í ættfræðiritið Espólín. Hún keyrði bíl nánast fram á síðasta dag, skrapp í stuttar heimsóknir hér og þar og rúntaði svo á Bakkann til að anda að sér sjávarloftinu. Lifði lífinu sannarlega lifandi.

Ég get ekki annað en minnst á einstakt vinasamband mömmu minnar og Guðrúnar. Það sem þær eru búnar að rúnta og upplifa ævintýri. Hennar verður sárt saknað.

Ég var svo heppin að hafa getað talið hana vinkonu mína og þegar komið er að kveðjustund vil ég þakka fyrir allt og allt.

Ingunn.

Fallin er frá tengdamóðir mín, hún Guðrún. Ég kynntist henni og Herði þegar við Ólöf fórum að draga okkur saman, en ég hafði þó hitt Guðrúnu áður. Ég hafði komið í Túnprýði með systursyni hennar, Kristjáni æskuvini mínum. Guðrún tók mér vel; hún var ekki vön að fara í manngreinarálit, en tók öllum, smáum sem stórum, af sömu einlægni. Þegar við Ólöf fluttum til Kaupmannahafnar til að hefja nám þar, þá var hún okkar stoð og stytta, sá um fjármálin, s.s. námslánin o.fl., eins og hún var vön að gera heima fyrir þar sem Hörður var oft í burtu við sjómennsku.

Guðrún og Hörður, sem og við öll, urðum fyrir miklum missi er Bogi Pétur sonur þeirra og unnusta hans Sigrún Ágústsdóttir frá Birtingaholti fórust af slysförum. Örfáum mánuðum eftir slysið fluttum við fjölskyldan heim eftir tíu ára dvöl í Danmörku. Við Ólöf höfum alltaf trúað því, að það hafi gert Guðrúnu og Herði gott að fá okkur heim. Að lifa með sorginni er langtímaúrvinnsla og er aðdáunarvert að upplifa það hvað fjölskyldurnar frá Birtingaholti og Túnprýði hafa stutt hvor aðra í þeirri úrvinnslu og myndað djúpa og innilega vináttu.

Eftir heimflutning fæddist Sigrún okkar og þegar við Ólöf vorum bæði komin í vinnu var gott að hafa stuðning Guðrúnar til að koma og vera hjá barnabörnum sínum áður en þau komust á leikskóla. Hún gerði það með gleði og við þessa samveru myndaðist djúpt og innilegt samband milli hennar og barnanna eins og hún hafði við öll sín barnabörn og síðar við langömmubörnin.

Guðrún var mjög félagslynd og tók þátt í margs konar samfélagsstörfum í sínu sveitarfélagi. Síðustu árin var hún þó mest virk í kvenfélaginu, með félagi eldri borgara og líka iðin að prjóna vettlinga og gefa Rauða krossinum.

Hún var komin á miðjan aldur er hún og Hörður tóku ökuréttindi, en það kom ekki að sök, því að þau voru mjög dugleg að fara í ferðir um landið og tjaldútilegur sem við Ólöf og börnin tókum oft þátt í.

Guðrún og Hörður fóru oft ferðir til útlanda og veit ég að þeim þótti gaman að fara til Barcelona og hitta vinafólk sitt þar, Óla og Elenu. Hún tengdamóðir mín var mikil kvenréttindakona. Sem dæmi má nefna að hún bauð kvenkyns afkomendum sínum, sem þá voru Ólöf, Sigrún dóttir okkar og Guðrún Álfheiður dóttir Ara og Ingunnar, til Turku í Finnlandi á kvennahátíð sem haldin var þar. Seinni árin fór Guðrún í fylgd með Ólöfu og Ingunni í ferðir með kvenfélagi Eyrarbakka til nokkurra borga í Evrópu og hafði hún mikla gleði af þessum ferðum.

Kveð ég þessa sómakonu frá Eyrarbakka og þakka fyrir allar samverustundir með henni og Herði í gegnum áratugina.

Helgi Bergmann.

Elsku Guðrún amma er búin að kveðja. Það er sárt að missa ástvin og það er sárt að missa ömmu sína. En það er ekki sárt að hugsa til ömmu og allra þeirra minninga sem koma upp í hugann þegar sorgin læðist að. Minningarnar eru hlýjar og fallegar. Þeir sem þekktu ömmu vita þetta, hún var einmitt hlý og falleg amma.

Hjá ömmu og afa á Eyrarbakka var ég mikið sem barn. Mamma og pabbi ferðuðust mikið um landið á hestum og ég svo lánsöm að dvelja á Eyrarbakka á meðan. Ég var ákveðið barn sem vissi vel hvað það vildi. Amma kunni vel lagið á mér og kom okkur því alltaf vel saman. Amma var drífandi og lét ekki líða yfir hlutina, það hentaði mér vel. Á morgnana var passað að hafragrauturinn væri ekki kláraður og úr því bakaðir klattar. Síðan farið á flakk um sveitirnar með vel sykraða klatta í nesti og kókó.

Þegar heim var komið var sest við saumavélina og saumuð klæði á dúkkur. Ég réð ferðinni enda var verkstjórn það eina sem ég hafði tök á þegar kom að saumaskapnum. Svo ekki sé nefnd prjónakennslan, sem færðist alltaf yfir í sömu verkaskiptingu eftir stutta stund. Á kvöldin spiluðum við amma ólsen-ólsen. Stigin voru skráð niður samkvæmt reglum og niðurstaðan var alltaf sú að ég stóð uppi sem sigurvegari. Ótrúlegt, amma þurfti alltaf að draga spil úr bunkanum rétt fyrir lok spilsins og því endaði ég sem stoltur sigurvegari.

Ömmu þótti vænt um fólkið sitt og það sýndi hún ávallt í verki. Eitt símtal og hún amma var mætt að sækja unglinginn mig hingað og þangað. Ef eitthvað vantaði var hún mætt til aðstoðar með náungakærleik sinn og ósérhlífni.

Svona var amma. Á seinustu vikum hefur amma prjónað teppi fyrir nýjasta barnabarnabarnið. Amma talaði oft um það að erfitt væri að klára teppið en ég taldi henni trú um að það lægi nú ekkert á að klára það, Lilla litla kæmi ekki fyrr í en í apríl. Við vissum ekki að tíminn okkar saman myndi enda svo skyndilega en teppið kláraðist og er það fallegasta sem til er. Þegar Lilla litla kemur í heiminn verður hún vafin inn í teppið eins og vafin í hlýtt fang langömmu Guðrúnar.

Þín

Margrét.

Elsku amma mín er fallin frá. Þó svo að andlát konu á hennar aldri ætti ekki að koma manni alveg í opna skjöldu skilur það eftir sig tómarúm og söknuð. Farinn er fasti úr lífi mínu, lífið er breytt.

Að sakna er að elska og amma mín var elskuð af mörgum. Hún var félagslynd og hafði einlægan áhuga á fólki.

Ég var svo lánsöm sem barn að fá að ferðast með henni og afa um landið þvert og endilangt. Appelsínugulu fortjaldi, tveimur prímusum og nóg af smurðu nesti var skellt í troðfullan bílinn og svo var keyrt af stað. Áfangastaður í vestur eða austur, tímalengd ferðarinnar óviss. Á seinni árum keyrði amma því afi hélt því fram að hún væri hvort sem var við stýrið í hvoru sætinu sem hún væri. Amma bauð mér einnig í mína fyrstu utanlandsferð sem var auðvitað mjög spennandi. Eðlilega var förinni heitið á norræna kvennaráðstefnu, Nordisk Forum, enda var jafnrétti henni hjartans mál. Hún var algjörlega fordómalaus gagnvart öðru fólki og hvernig fólk kaus að haga lífi sínu en að sama skapi lá hún ekki á skoðunum sínum ef henni hugnuðust ekki nýjar klippingar eða klæðnaður afkomenda sinna.

Amma var sjálfstæð og ef hún fékk hugmynd, hvort sem það var að færa helluborðið eða stækka pallinn, var hún ekkert að velta hlutunum lengur fyrir sér heldur hringdi strax í viðeigandi fagfólk og gekk í málið. Oftast var hún á hraðferð, fór sjaldan úr úlpunni enda var hún „bara rétt að líta við“. Símtöl drógust heldur ekki á langinn hjá henni.

Ég mun sakna þín, amma, þú hefur verið svo stór hluti af lífi mínu alla tíð. Í hverju herbergi heimilisins eru hlutir sem þú gafst mér, búsáhöld, teppi, vettlingar og nytjahlutir, allt valið af kostgæfni. Gjafir handa langömmubörnunum valdar með tilliti til aldurs þeirra og áhugasviðs enda lagðir þú þig fram um að tengjast þeim. Í hjarta mínu geymi ég allar gjafirnar sem þú gafst af þér og kenndir mér, mest í verki, með því að vera góð manneskja.

Guðrún Álfheiður Thorarensen.

Elsku amma, þá ertu farin í sumarlandið. Ég vissi að það kæmi að þessum degi en fannst alltaf að það væri svo langt í hann, þar sem þú varst alltaf svo vel á þig komin miðað við aldur og varst alltaf svo full af krafti. Svo þegar þú veiktist þá grunaði mig að þú ættir stutt eftir, því að við náðum góðu samtali eftir að þú lagðist inn á kvennadeild Landspítalans og þú tjáðir mér að þú værir ekkert of spennt fyrir því að lifa í veikindum. Ég er svo þakklátur fyrir að þú hafir ekki fundið til og þú fékkst yndislega umönnun á kvennadeild Landspítalans. Það var nánast það eina sem þú vildir tala um þegar maður kíkti á þig, hve þakklát þú værir þessu yndislega starfsfólki á kvennadeildinni og hve góð þau voru við þig.

Þegar ég horfi til baka og rifja upp allt það sem maður gerði með ömmu og afa þá ber hæst þá ást og það öryggi sem þau veittu okkur barnabörnunum og svo seinna barnabarnabörnunum. Margt stendur upp úr. Amma var orðin fullorðin þegar hún og afi tóku bílpróf. Amma keyrði oftar, ekki veit ég af hverju, en mig grunar að það hafi verið vegna þess að hún hafi verið betri bílstjóri. Eftir að þau eignuðust bíl þá ferðuðust þau mikið um landið. Ein mín fyrsta minning er þegar ég fór með þeim á bindindismótið í Galtalæk og gisti í tjaldi með þeim. Líklegast hef ég verið á þriðja eða fjórða ári. Margar útilegurnar átti ég eftir að fara með þeim.

Amma var mikil hannyrðakona, það eru ófá fötin sem ég hef gengið í sem hún annaðhvort prjónaði eða saumaði.

Ég hugsa að amma hafi aldrei komið of seint á neitt mannamót sem hún fór á. Þegar ég var yngri furðaði ég mig oft á því hve hrikalega snemma amma og afi voru mætt. Hún átti það til að vera komin tveimur tímum fyrir þann tíma sem átti að hittast á. Æ oftar stend ég mig að því að vera kominn langt fyrir þann tíma sem ég á að vera mættur á og hugsa þá, að ég líkist ömmu meir og meir í þessum efnum. Þrátt fyrir allar þær minningar sem ég á af ömmu, þá er minning frá því síðastliðið sumar mér einna kærust. Amma og afi urðu fyrir miklu áfalli þegar þau misstu son sinn og tengdadóttur í slysi. Ég var nýfæddur þegar þetta gerðist og varð fyrir áfalli sem hafði ekkert verið unnið með fyrr en ég hóf göngu hjá þerapista fyrir nokkrum mánuðum. Eitt af því fyrst sem mér var sett fyrir var að fara og tala við ömmu um dagana örlagaríku. Við amma mæltum okkur mót heima hjá henni, hún var jú meira en til í að styðja dótturson sinn. Þegar ég kem til hennar þá stendur ekki á minni, 89 ára gamalli konunni. Ég er drifinn upp í bíl og við keyrum upp í Hreppahólakirkjugarð og á leiðinni ræðum við þennan hræðilega atburð. Þetta lýsir henni svo vel, ekkert hangs. Bara af stað. Eftir heimsóknina í kirkjugarðinn heimsóttum við svo ættmenni tengdadóttur hennar á Flúðum og þar í kring. Á leiðinni heim komum við svo við hjá Sigrúnu systur minni. Þetta var yndislegur dagur sem ég átti með ömmu og hún skildi svo vel að ég þurfti á þessu að halda.

Elsku amma, takk fyrir allt. Hvíldu í friði.

Gunnar Björn.

Elsku amma. Nú hefur þú lokið lífsgöngu þinni eftir 90 góð ár, fyrir utan síðustu þrjár vikurnar þar sem þú lást veik á Kvennadeild Landspítalans. Allt fram á síðustu stundu varstu söm við þig, þú hrósaðir starfsfólkinu þar í hástert, fannst þau hugsa svo vel um þig og fannst allir svo yndislegir. Þetta var alveg í þínum anda, hrós til annarra manneskja voru þér alltaf svo eðlislæg. Man að þú sagðir svo oft við mig þegar þú varst að lýsa fólki „þetta er bara svo góð manneskja“. Þú varst einstaklega mikill mannvinur og hafðir svo mikinn áhuga á öðru fólki og sérstaklega fólki þér tengdu, enda var ættfræði mikið áhugamál hjá þér. Þú varst líka einstaklega ánægð með okkur afkomendur þína og þú varst svo dugleg að láta okkur bæði finna það og segja okkur það. Þrátt fyrir að þú hafir sagt við mig þegar í ljós kom hversu veik þú varst orðin undir lokin að það væri nú ekki það versta að gömul kona myndi deyja þá er sannleikurinn sá að það er ótrúlega sárt að þurfa að kveðja þig. Þú varst svo stór partur af hversdeginum, að kíkja við hjá þér í smá kaffi og spjall eftir vinnu er eitthvað sem hefur verið partur af minni viku nánast öll mín fullorðinsár og þess á ég eftir að sakna. Enda hef ég alla tíð verið mikil ömmustelpa sem er kannski ekkert skrítið því þegar ég var aðeins tveggja mánaða gömul annaðist þú mig daglega til eins árs aldurs á meðan foreldrar mínir sinntu vinnu. Sem barn fór ég svo mjög reglulega til ykkar afa á Eyrarbakka og oft fengum við frænkur að gista. Hjá ykkur afa var alltaf öryggi, ró og friður. Þú varst alltaf þolinmóð við okkur og gafst okkur frelsi til að framkvæma flestar þær hugmyndir sem við fengum. Þið voruð einnig dugleg við að bjóða okkur barnabörnunum með ykkur í ferðalag í hústjaldinu um landið og þaðan á ég dýrmætar minningar. Þegar við Heimir eignuðumst stelpurnar okkar fyrir tæpum 18 og 13 árum varstu að sjálfsögðu til staðar fyrir okkur líkt og alltaf. Þú hjálpaðir okkur svo oft með þær, passaðir þær, sóttir á æfingar og varst alltaf boðin og búin að sinna langömmustelpunum þínum. Að hafa átt þig að síðastliðið 41 ár hefur verið mér ómetanleg gæfa og ég er fyrst og fremst þakklát fyrir að hafa átt þig sem ömmu.

Elsku amma, takk fyrir allt.

Sigrún.

Það eru ekki allir sem fá þau forréttindi að eiga langömmu og hvað þá langömmu eins og langamma var, alltaf svo góð. Við systur eigum margar minningar um elsku langömmu, hvort sem við vorum í pössun eða heimsókn hjá henni. Það var alltaf bókað að hún hugsaði vel um okkur og aldrei fór maður svangur frá henni enda var alltaf til kex í skúffunni sem við máttum ganga í. Langamma passaði líka alltaf að við ættum nýja prjónaða vettlinga þegar við vorum yngri.

Elsku langamma, við kveðjum þig með söknuði.

Ólöf Vala og Elfa Rún.

Elsku Gunna frænka mín er fallin frá 90 ára gömul. Hún var næstyngsta systir ömmu Sigrúnar. Minningarnar um Gunnu frænku eru samofnar bernskuminningum mínum sem mér þykir afar vænt um.

Gunna frænka var frá Þorvaldseyri á Eyrarbakka þar sem pabbi ólst upp til ellefu ára aldurs. Systkinin á Þorvaldseyri voru 12 talsins. Amma Sigrún var þeirra elst fædd 1917 og yngst var Áslaug fædd 1941. Pabbi og Áslaug voru fædd sama ár. Þótt systkinin væru mörg þá munaði ekki um að hafa aukabörn í pínulitlu húsinu á Þorvaldseyri.

Ég á dásamlegar minningar um Eyrarbakkaferðirnar sem farnar voru ávallt á sunnudögum. Þá lagði fimm manna fjölskyldan af stað á vörubílnum, sem var eini bíllinn á heimilinu, til að heimsækja langafa Ólaf sem hafði búsetu á þeim tíma í Túnprýði hjá Gunnu frænku. Magga systir ömmu og Gunnu bjó á móti í Silfurtúni og man ég að í þessum heimsóknum fórum við á milli því það þurfti að heimsækja báðar frænkurnar. Hús þeirra systra eru í minningunni mjög stór og svo voru stigar sem mér fannst frekar flott, þar sem við krakkarnir sem vorum í heimsókn kepptumst um hver gæti stokkið úr efstu tröppu. Einnig var fastur punktur í tilverunni að fara ávallt á nýársdag í kaffi til Gunnu og Harðar, ekki endilega af því að það væri nýársdagur heldur af því að alltaf var boðið í afmæliskaffi hjá Ara frænda, jafnaldra mínum. Gunna frænka hélt upp á þennan dag alla tíð og það eru ekki svo mörg ár síðan ég fór með foreldrum mínum til hennar í afmæliskaffi á nýársdag, þó Ari væri fluttur að heiman fyrir 35 árum.

Á unglingsárum vann ég í frystihúsinu í humri og það stóð auðvitað ekki á því að ég færi og borðaði hádegismat hjá Gunnu, Herði og Ara frænda. Stundum þegar ekki var humar þá voru unglingarnir settir á borð og þá átti að snyrta fisk sem undirrituð var ekki mjög góð í, en þá komu ráðin hennar Gunnu sér vel. Ég yrði að passa hreinsa vel flökin, að sama skapi yrði nýtingin að vera góð og afskurðurinn lítill því þá fengist nefnilega bónus og það hljómaði ekki illa í eyrum unglingsins.

Ég er mjög stolt af því að eiga ættir að rekja til Eyrarbakka og stolt af því að vera alnafna langömmu minnar frá Þorvaldseyri. Þegar ég keyri um Eyrarbakka í dag koma upp minningar þegar ég fór með ömmu Sigrúnu að heimsækja systurnar og þá keyrðum við rólega í gegnum Bakkann og hún sagði mér frá nöfnunum á öllum húsunum, sum þeirra man ég ennþá.

Gunna frænka var einstök fyrir hvað hún fylgdist vel með öllum afkomendunum frá Þorvaldseyri og þrátt fyrir mikinn fjölda þá vissi Gunna deili á öllum. Alltaf þegar við hittumst þá spurði hún um krakkana mína þau Gunnar og Sigrúnu, eitthvað sem mér þótti afar vænt um. Foreldrar mínir voru alltaf í miklum samskiptum við Gunnu og Hörð, sérstaklega eftir að þau fluttu á Selfoss og svo eftir að Hörður lést árið 2013 var mikill samgangur þeirra í milli.

Elsku Gunna frænka, ég mun ávallt hugsa til þín með hlýju og þakklæti.

Ég votta Ólöfu, Ara og fjölskyldum mína innilegustu samúð.

Jenný Dagbjört Gunnarsdóttir.

Við gosið í Eyjum hafði Gunna Thor., sem við kveðjum í dag, boðið Sissu frænku herbergi hjá sér ef á þyrfti að halda fyrir Eyjafólk. Ég var ákveðinn í að fara á Bakkann til Sissu og Eiríks, þannig atvikaðist að ég fékk herbergið og kom með pabba að Túnprýði 4. febrúar 1973, síðdegis á sunnudegi. Gunna var þá að bera inn í hús sitt öll sín eldhúsáhöld sem hún hafði verið með í eldhúsinu á fyrsta þorrablóti sem haldið var á gamla Stað. Þarna tók Gunna á móti mér opnum örmum, sýndi mér herbergið mitt og húsið sem ég mátti fara um að vild. Ég bjó hjá Gunnu fram á mitt sumar ásamt þeim Boga heitnum, en okkur varð vel til vina, og Ara, en við áttum eftir að vinna á sama vinnustað um áratugaskeið. Gunna var rausnarleg og mér leið mjög vel í Túnprýði, hafði hjá henni morgunmat og var í húsinu eins og heimilismaður en ekki leigjandi og aldrei kom til greina að Gunna tæki við greiðslu frá mér allan tímann. Gunna gaf okkur gjafir og bauð okkur í fjölskylduþorrablót hjá sér og fleira sem hún gerði af eðlislægum rausnarskap.

Gunna var ötul í félagsstörfum hér á Eyrarbakka, við unnum saman í félagsstarfi eldri borgara, Opnu húsi, um margra ára skeið eftir 1975 ásamt Ingu Stínu, Sigurjóni Bjarnasyni og fleirum. Þar var hún fyrir verkalýðsfélagið Báruna en Gunna var mikill verkalýðssinni, blátt áfram og talaði hispurslaust og varð enda síðar formaður Bárunnar. Hún sat í hreppsnefnd Eyrarbakkahrepps fyrir Sjálfstæðisfélag Eyrarbakka og var ötull stuðningsmaður Sjálfstæðisflokksins alla tíð ásamt eiginmanni sínum Herði Thorarensen heitnum. Í Kvenfélagi Eyrarbakka starfaði hún alla tíð, nánast til hinstu stundar. Gunna var Eyrbekkingur og eftir að þau Hörður fluttu á Selfoss fyrir 17 árum lá ökuferðin iðulega á Bakkann, stundum nokkrum sinnum í viku, þar sem Gunna heimsótti vini og kom á flestar samkomur.

Gunna reyndist mér alla tíð góð vinkona.

Sigurlína og ég þökkum henni langa og góða samfylgd og vottum Ólöfu, Ara og fjölskyldum þeirra innilega samúð.

Sigurður Steindórsson.

Í dag kveð ég hinstu kveðju kæra vinkonu mína Gunnu Thor. Henni kynntist ég fyrst í gegnum börn hennar og barnabörn. Ég fann fljótt að þessari konu vildi ég kynnast nánar. Hún var glettin og hafði einstaklega þægilega nærveru. Um árabil kom hún við í Glóru hjá okkur mömmu, ásamt Ingunni og Unni eftir að hafa fært fjallmönnum úr Flóanum kaffiveitingar síðasta dag fyrir réttir. Þá var nú gaman, mikið hlegið, rifjaðar upp sögur og kjötsúpunni gerð góð skil. Í seinni tíð höfum við hist um jól ásamt fleiri góðum vinkonum og átt góða stund með jólaívafi. Í starfi Félags eldri borgara á Selfossi var Gunna virkur félagi. Hún tók þátt í sögulestrum og fór í flestar sumarferðir sem félagið hefur boðið upp á. Hún var hrókur alls fagnaðar og naut þess að ferðast.

Elsku Gunna, ég veit að þér hefur verið tekið opnum örmum og þú sátt að hitta loksins fólkið þitt sem kvaddi þetta líf allt of snemma. Ég mun hins vegar sakna þín og minnast þín með þakklæti fyrir góðvild í minn garð og minna nánustu. Minningin lifir.

Hver minning dýrmæt perla að liðnum lífsins degi,

hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér.

Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem gleymist eigi,

og gæfa var það öllum, er fengu að kynnast þér.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Ingibjörg Stefánsdóttir.

Látin er fyrrverandi nágranni minn, Guðrún Thorarensen, níræð að aldri.

Heimili Guðrúnar og Harðar var fyrsta heimilið á Eyrarbakka sem ég kom á, utan heimilis fjölskyldu konunnar minnar. Augljóslega var erindi Þórunnar minnar að sýna æskuvinkonu sinni kærastann sinn. Þannig hófust kynni okkar Guðrúnar. Þá vissum við ekki að við áttum eftir að vera nágrannar um áratuga skeið. Þau Hörður byggðu sér hús sem þau nefndu Túnprýði, síðar Túngata 48, en við Þórunn höfðum nokkru áður byggt okkur hús sem við nefndum Hjallatún, síðar Túngata 50. Atvikin höguðu svo til að í hverfinu okkar byggði sér heimili fólk á svipuðum aldri og því varð mikill samgangur milli heimila. Þegar börnin komu til urðu þau leikfélagar og undu sér saman að leikjum. Á þessum árum var almenn bílaeign ekki eins og nú er og það varð að föstum sið að fólkið í þessu nágrenni fór saman í ferðalag einu sinni á ári, leigði sér rútu og fór víða um land og gisti í tjöldum. Minningar um ferðirnar urðu dýrmætar.

Vinátta þeirra Guðrúnar og Þórunnar entist ævina alla. Guðrún var mikil félagsvera og tók þátt í félagslífi hvarvetna og var mjög virk á því sviði. Hún unni æskuslóðunum og fylgdist vel með þeim eftir að þau Hörður fluttust á Selfoss. Ég held að hún hafi notað hvert tækifæri til að skjótast niður á Bakka að hitta vini eða bara anda að sér sjávarloftinu. Ég og fjölskyldan mín færum Ara og Ólöfu og þeirra fjölskyldum okkar innilegustu samúðarkveðjur. Við viljum þakka Guðrúnu samfylgdina og vináttu alla tíð og óska henni góðrar ferðar í Sumarlandið.

Óskar Magnússon og fjölskylda.

Guðrún Ólafsdóttir Thorarensen, eða Gunna eins og hún var alltaf kölluð hér á Eyrarbakka, hefur alltaf verið í lífi mínu. Þegar ég var yngri var hún fyrirmynd okkar ungra kvenna í verkalýðsbaráttunni. Þegar ég varð eldri var hún fyrirmynd mín sem kvenfélagskona og núna á seinni árum var hún fyrirmynd mín í því hvernig maður nýtur lífsins á efri árum, eða í seinni hálfleik eins og við sögðum.

Alltaf sterk, alltaf vinnusöm, alltaf heiðarleg, alltaf hlý, alltaf mannvinur og umfram allt, alltaf áhugasöm um lífið og tilveruna. Gunna hafði áhuga á umhverfi sínu og fólki. Hún hafði góðan húmor og gat hlegið og gantast í góðum félagskap.

Gunna var kvenfélagskona í rúm 70 ár eða tæpt 71 ár. Byrjaði í kvenfélaginu 19 ára, í apríl, og starfaði ótrauð öll árin. Alltaf boðin og búin til verka. Ef þurfti dygga fundarstjórn sá hún um fundarstjórn, ef þurfti að baka gerði hún það. Fyrir árlegan jólabasar Kvenfélagsins kom hún með fullt af prjónuðum vettlingum og sokkum, hvort sem hún var í nefndinni það árið eða ekki. Ef einhvers þurfti við var alltaf hægt að biðja Gunnu. Hún var alltaf tilbúin til þess að vinna sjálfboðavinnu í kvenfélaginu. Gunna tók vel á móti nýliðum og leiðbeindi þeim af mikilli natni og hlýju, þannig að þeir eignuðust vin í henni. Ég gat auðveldlega leitað til hennar um ráð og aðstoð eða speglað einhver álitamál hjá henni, gat alltaf verið viss um að fá heiðarleg svör og smá glens, sem tók alvöruna af málinu.

Þetta sem er komið hér á blað er bara yfirborðið af félagsskapnum við Gunnu. Þá er ekki minnst á alla umhyggjuna og hlýjuna sem hún sýndi í allri umgengni og samveru dags daglega og það hvað hún var traustur vinur sem sagði til vamms ef þess þurfti.

Með þessum orðum vil ég þakka Gunnu fyrir samfylgdina í gegnum lífið. Þakka henni hve góð fyrirmynd hún var og þakka henni hve vel hún reyndist mér, alltaf.

Við kveðjum kvenfélagskonu og konu sem naut þess að lifa.

F.h. Kvenfélags Eyrarbakka,

Kristín Eiríksdóttir.

Mig langar að minnast elsku Gunnu frænku, ömmusystur minnar, í fáeinum orðum.

Frá því að ég man eftir mér fór fjölskyldan alla sunnudaga á Eyrarbakka. Fyrst var langafi heimsóttur á Þorvaldseyri þar sem beðið var með eftirvæntingu eftir því að hann opnaði stóra nestisboxið sem innihélt allar heimsins tegundir af brjóstsykri og mikið af honum, þannig að erfitt reyndist að velja einn mola. Eftir heimsókn á Þorvaldseyri var haldið í Túnprýði til Gunnu og Harðar og Silfurtún þar sem Magga og Raggi bjuggu, en langafi bjó á þeim tíma hjá Gunnu og Herði. Húsin hjá systrunum á Eyrarbakka voru þau flottustu sem ég hafði nokkru sinni séð, með stiga bæði upp á efri pall og niður í kjallara, smartara gat það nú ekki orðið. Í Eyrarbakkaheimsóknunum á sunnudögum hittust iðulega margir úr stórfjölskyldunni en mikill samgangur var á milli systranna frá Þorvaldseyri.

Ég á margar einstaklega góðar og hlýjar minningar um Gunnu frænku. Það var alltaf jafn notalegt að heimsækja hana. Hún lét manni ávallt líða eins og hún ætti í manni hvert bein og frá henni streymdi einhver umvefjandi hlýja. Við systkinin vorum svo heppin að fá að dvelja stundum hjá þeim Gunnu og Herði þegar foreldrarnir voru vant við látnir og það þótti okkur sko ekki leiðinlegt. Við sóttum líka í að fá að verða eftir þegar komið var að því að halda heim á leið eftir heimsóknir á Bakkann.

Gunna og Hörður voru dugleg að ferðast um landið og fórum við fjölskyldan í mörg eftirminnileg ferðalög með þeim. Mikið var lagt upp úr því að fara í langar ferðir og skoða svæði sem síst verða talin fjölfarin. Í svo löngum bílferðum gat nú reynt á systkinasambandið í fjölskyldubílnum og gott að vera alltaf velkomin í bílinn hjá Gunnu og Herði til að fá smá hvíld frá aftursætisdeilunum. Mér eru sérstaklega minnisstæð sumarkvöldin á ferðalögunum en þá sat Gunna frænka með Íslensku flóru-bókina í kjöltunni og við krakkarnir hlupum um og tíndum plöntur sem hún hjálpaði okkur að finna í bókinni og kenndi okkur nöfnin á.

Þegar við Hemmi voru nýbúin að eignast yngsta drenginn okkar kom Gunna einu sinni sem oftar í heimsókn. Henni þótti ganga eitthvað seint hjá okkur að finna nafn á pilt og spurði því; hvað með nafnið Björgvin? Svo hóf hún að segja mér sögur, með blik í auga, af gamla tímanum á Eyrarbakka. Hún sagði mér m.a. frá því að amma Sigrún hefði alltaf átt skjól og leitað mikið til ömmu Guðrúnar sem bjó í Björgvin. Amma Sigrún var gjarnan send þangað þegar börnin á Þorvaldseyri voru að fæðast eitt af öðru og þar hefði hún getað átt rólegar stundir fyrir sig, sem var erfitt í barnaskaranum heima. „Ömmu Sigrúnu var sérstaklega hlýtt til ömmu Guðrúnar í Björgvin og þess vegna heitir pabbi þinn Gunnar Björgvin,“ sagði Gunna. Eftir þessa frásögn var nafnið á drenginn komið, Björgvin skyldi það verða.

Ég mun ávallt minnast elsku Gunnu frænku af mikilli hlýju og þakklæti.

Ég votta Ólöfu, Ara og fjölskyldum þeirra mína innilegustu samúð.

Arna Ír Gunnarsdóttir.