Byggingar Sumarhús Einars: fjær er Slotið, sem var reist árið 1923, og nær er Kotið, sem ber nafn með rentu. Friðaðar byggingar, en þarfnast viðgerða.
Byggingar Sumarhús Einars: fjær er Slotið, sem var reist árið 1923, og nær er Kotið, sem ber nafn með rentu. Friðaðar byggingar, en þarfnast viðgerða.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Áhugi er fyrir því í Hrunamannahreppi að sumarhús Einars Jónssonar myndhöggvara (1874-1954) sem er á fæðingarstað hans að bænum Galtafelli verði gert upp og fái veglegan sess í sveitarfélaginu. Fyrir liggur að húsið, sem er í eigu Þjóðminjasafns Íslans, þarfnast viðgerða

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Áhugi er fyrir því í Hrunamannahreppi að sumarhús Einars Jónssonar myndhöggvara (1874-1954), sem er á fæðingarstað hans á bænum Galtafelli, verði gert upp og fái veglegan sess í sveitarfélaginu. Fyrir liggur að húsið, sem er í eigu Þjóðminjasafns Íslands, þarfnast viðgerða. Eins er aðkoma að því snúin og fellur illa að þeim búrekstri sem á bænum er nú. Stjórnendur sveitarfélagsins vilja gjarnan að skoðað verði með hvaða hætti sumarhúsinu verði gerður sem mestur sómi, hvort sem það yrði á núverandi stað í Galtafelli eða jafnvel með flutningi þess innan sveitarfélagsins og þá jafnvel að Flúðum samhliða endurbótum á því.

Goðsöguleg minni

Einar Jónsson var brautryðjandi í höggmyndalist á Íslandi. Hann stundaði nám við Konunglega listaháskólann í Kaupmannahöfn á árunum 1896 til 1899. Sneri svo heim og árið 1923 voru Hnitbjörg á Skólavörðuholti tekin í notkun; fyrsta listasafnið á Íslandi sem opið var almenningi. Þar var jafnframt vinnustofa og heimili listamannsins og Önnu Jörgensen eiginkonu hans. Einar vann mikið með þjóð- og goðsöguleg minni. Fjöldi verka hans er til sýnis í Listasafni Einars Jónssonar og mörg önnur eru þekkt kennileiti svo sem styttan af Ingólfi Arnarsyni á Arnarhóli í Reykjavík. Þau verk og fleiri gera Einar að stóru nafni í íslenskri listasögu.

Einar fæddist á Galtafelli í Hrunamannahreppi 11. maí 1874 og verða senn liðin 150 ár frá fæðingu þessa mikla listamanns. Hann lést 18. október 1954 og því er í ár 70 ára ártíð hans en Einar er jarðsettur ásamt konu sinni í kirkjugarðinum við Hrepphóla í Hrunamannahreppi. Einar reisti sér 20 fermetra sumarhús á Galtafelli sem hann kallaði Slotið og er það eitt elsta hús sinnar tegundar á landinu. Þau Einar og Anna dvöldu langdvölum á Galtafelli í sumarhúsi sínu, sem enn stendur í upprunalegri mynd. Í raun eru hús Einars í Galtafelli tvö; annað er Slotið frá 1923 og er hið eiginlega sumarhús, hitt er Kotið, lítið hús á baklóð þar sem eru eldhús, svefnloft og lítið herbergi.

Ein og hálf öld

Slotið var friðað árið 2014 og þykir athyglisvert fyrir óvenjulegan og listrænan arkitektúr. Þá er þetta eitt fyrsta sumarhúsið, sem svo er kallað, sem reist var hér á landi. Húsið er að flestu leyti í góðu ásigkomulagi; til að mynda eru allir máttarviðir þess heilir. Þá er innandyra allt með sama sniði og á þeim tímum þegar Einar og Anna kona hans dvöldu þar.

„Innan dyra sem utan endurspeglar Slotið í Galtafelli hugarheim listamannsins enda er húsið að mestu leyti hans sköpunarverk,“ segir í gögnum frá Þjóðminjasafni Íslands þar sem fjallað er um staðinn.

Ein og hálf öld er langur tími. Aldís Hafsteinsdóttir, sveitarstjóri í Hrunamannahreppi, hefur lagt til að Hrunamenn minnist þess hinn 11. maí nk. að 150 ár eru liðin frá fæðingu Einars.

Hugmyndir að dagskrá liggja fyrir, sem hæfist með athöfn í Hrepphólakirkjugarði. Að henni lokinni yrði haldið að Öldu aldanna, afsteypu þess verks sem hefur verið í miðbæ Flúða í áratugi. Í framhaldinu yrði kynning á verkum Einars í félagsheimilinu á Flúðum.

„Þá má greina frá því að nú er í undirbúningi að koma upp skiltum á tveimur stöðum í Hrunamannahreppi sem gera grein fyrir listamanninum og tengingu hans við sveitina. Það á ekki að vera vel falið leyndarmál að Einar Jónsson unni sveitinni sinni og sótti hingað innblástur að mörgum sinna frægustu verka,“ segir Aldís Hafsteinsdóttir.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson