Systur „Uppfærslan í heild sinni er enn ein (frost)rósin í hnappagat leikstjórans Gísla,“ segir um Disney-söngleikinn Frost. Með hlutverk Önnu og Elsu fara Vala Kristín Eiríksdóttir og Hildur Vala Baldursdóttir.
Systur „Uppfærslan í heild sinni er enn ein (frost)rósin í hnappagat leikstjórans Gísla,“ segir um Disney-söngleikinn Frost. Með hlutverk Önnu og Elsu fara Vala Kristín Eiríksdóttir og Hildur Vala Baldursdóttir. — Ljósmynd/Jorri
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þjóðleikhúsið Frost ★★★★★ Eftir Jennifer Lee. Tónlist og söngtextar: Kristen Anderson-Lopez og Robert Lopez. Íslensk þýðing: Bragi Valdimar Skúlason. Leikstjórn: Gísli Örn Garðarsson. Leikmynd: Börkur Jónsson. Búningar: Christina Lovery. Lýsing: Torkel Skjærven. Tónlistarstjórn: Andri Ólafsson og Birgir Þórisson. Hljóðhönnun: Þóroddur Ingvarsson og Brett Smith. Dans og sviðshreyfingar: Chantelle Carey. Myndbandshönnun: Ásta Jónína Arnardóttir. Hljómsveit: Andri Ólafsson, Birgir Þórisson, Björg Brjánsdóttir, Haukur Gröndal, Rögnvaldur Borgþórsson, Sigrún Harðardóttir, Snorri Sigurðarson, Sólrún Mjöll Kjartansdóttir og Þórdís Gerður Jónsdóttir. Leikarar: Adriana Alba Pétursdóttir, Almar Blær Sigurjónsson, Andrea Ísold Jóhannsdóttir, Aron Gauti Kristinsson, Atli Rafn Sigurðarson, Árni Gunnar Magnússon, Bjarni Snæbjörnsson, Ebba Katrín Finnsdóttir, Edda Arnljótsdóttir, Embla María Jóhannsdóttir, Emma Máney Emilsdóttir, Ernesto Camilo Aldazábal Valdés, Garðar Sigur Gíslason, Guðjón Davíð Karlsson, Halla Björk Guðjónsdóttir, Hildur Vala Baldursdóttir, Iðunn Eldey Stefánsdóttir, Jósefína Dickow Helgadóttir, Kjartan Darri Kristjánsson, Kormákur Erlendsson, María Thelma Smáradóttir, Nína Sólrún Tamimi, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Sigurbjartur Sturla Atlason, Sindri Gunnarsson, Vala Kristín Eiríksdóttir, Viktoría Sigurðardóttir, Þuríður Blær Jóhannsdóttir og Örn Árnason. Frumsýning á Stóra sviði Þjóðleikhússins 2. mars 2024.

Leiklist

Silja Björk

Huldudóttir

Óhætt er að segja að skammt sé stórra högga á milli um þessar mundir í leikhúsheiminum. Með aðeins rúmlega viku millibili frumsýndu stóru atvinnuleikhúsin tvö í höfuðborginni sinn glæsilega söngleikinn hvort, en þetta eru Eitruð lítil pilla í Borgarleikhúsinu og Frost í Þjóðleikhúsinu. Þótt uppfærslurnar eigi það sammerkt að bera metnaði, hugmyndaauðgi og listfengi aðstandenda sinna fagurt vitni eru sýningarnar eins ólíkar og hugsast getur þegar kemur að fagurfræði og stíl. Meðan hráleikinn og glíman við aðkallandi málefni samtímans eru í forgrunni í Borgarleikhúsinu fær töfrandi sykursæt og tímalaus saga af systrakærleik og vináttu að blómstra í Þjóðleikhúsinu.

Söngleikurinn Frost eftir Jennifer Lee í frábærri leikstjórn Gísla Arnar Garðarssonar og vandaðri þýðingu Braga Valdimars Skúlasonar er byggður á Disney-metsölukvikmyndinni Frozen (2013) þar sem innblástur er sóttur í ævintýri danska sagnaskáldsins
H.C. Andersen um snædrottninguna frá 1844. Í forgrunni er þroskasaga þar sem aðalpersónur komast til manns eftir að hafa vaðið eld og brennistein – eða öllu heldur ís og snjó. Árstíðirnar eru nýttar með táknrænum hætti þar sem veturinn og kuldinn endurspegla ótta og andstreymi meðan sumarið og hlýjan er birtingarmynd betri og blómlegri tíma þar sem ástin, vináttan og hamingjan þrífst.

Frost fjallar um systurnar Elsu (Hildur Vala Baldursdóttir) og Önnu (Vala Kristín Eiríksdóttir), prinsessur af Arnardal, sem aðskildar eru innan konungshallarinnar í æsku í veikri von foreldra þeirra um að vernda Önnu fyrir galdramætti Elsu, sem hún er hvött til að hylja og dylja. Anna man ekki eftir fjölkynngi Elsu og skilur því ekki hvers vegna systirin útilokar hana. Á krýningardegi Elsu fellur hin einmana Anna fyrir fyrsta manninum utan hirðarinnar sem hún hittir, Hans prins af Suðurey (Almar Blær Sigurjónsson). Þegar Elsa neitar að veita þeim blessun sína svo þau megi giftast fer allt í háaloft með þeim afleiðingum að Elsa nær ekki lengur að bæla kynngikraftinn og dylja fyrir þegnum sínum. Fyrir vikið leggur hún á flótta upp í Norðurfell. Anna heldur á eftir systur sinni og kynnist í þeim leiðangri náttúrubarninu og klakasölumanninum Kristjáni (Kjartan Darri Kristjánsson) og hreindýrinu Sveini (Ernesto Camilo Aldazábal Valdés) ásamt því að endurnýja kynnin af snjókallinum Ólafi (Guðjón Davíð Karlsson) sem Elsa skapaði þeim systrum til skemmtunar þegar þær voru börn. Síðast en ekki síst kynnist hún sjálfri sér og systur sinni betur. Líkt og vera ber fer allt vel að lokum og persónur sögunnar hafa öðlast aukna sjálfsþekkingu og þroska eftir að hafa horfst í augu við bæði vankanta sína og hæfileika.

Uppfærslan á Frosti í Þjóðleikhúsinu er önnur sviðsetning Gísla á söngleiknum á Norðurlöndunum, en sú fyrsta var í samstarfi við Det Norske Teatret í Osló í Noregi síðasta haust og fram undan eru uppfærslur hans hjá Borgarleikhúsunum í Stokkhólmi og Helsinki. Fyrir hönd Vesturports fékk Gísli leyfi til að sviðsetja norræna uppfærslu á Disney-söngleiknum með nýju útliti og sviðsetningarhugmyndum, en uppfærslan er unnin upp úr handritinu og tónlistinni eins og hún var þegar söngleikurinn var frumsýndur á Broadway 2017. Báðar útgáfur sækja auðvitað sjónræna fyrirmynd í teiknimyndina sem er mörgum svo kær, en fara ólíkar leiðir í útfærslu.

Leikmynd Barkar Jónssonar er göldrum líkust þar sem kastala- og húsveggir víkja fyrir himinháum glitrandi bláhvítum snæviþöktum fjöllum sem geyma bæði tröppur og rennibraut sem nýtist vel í leik, snjórinn þyrlast um sviðið og ástfangið fólk svífur í loftinu – líkt og Gísli hefur leikið sér með í sýningum á borð við Rómeó og Júlíu (2002) og Í hjarta Hróa hattar (2015). Á sama tíma vísar Börkur í umgjörð sinni með skemmtilegum hætti til klippimyndanna sem Andersen var frægur fyrir á sínum tíma. Búningar Christinu Lovery eru litríkir og þjóna persónum vel, ekki síst til að tengja saman yngri og eldri útgáfur prinsessanna. Skemmtileg var einnig sjónræn útfærsla hennar á hópi snjókalla í lagi Ólafs sem vöktu mikla kátínu leikhúsgesta. Góð hljóðhönnun Þórodds Ingvarssonar og Bretts Smith gegnir lykilhlutverki í að skapa trúverðugan kulda. Lýsing Torkels Skjærven er mikið sjónarspil þar sem heitir og kaldir litir á víxl magna kynngi framvindunnar, ekki síst í góðu samspili við myndbandshönnun Ástu Jónínu Arnardóttur sem fær berar trjágreinar til að laufgast á augabragði. Dans- og sviðshreyfingar Chantelle Carey þjóna vel því hlutverki að miðla tilfinningum persóna og framvindu sögunnar.

Í söngleiknum hljóma sjö kunnugleg og yndisleg lög úr upprunalegu kvikmyndinni, en við það bætist um tylft nýrra laga sem þjóna sögunni vel þótt þau séu í fæstum tilvikum jafnmiklir eyrnaormar og upprunalegu lögin. Vel fór á því að staðsetja hljómsveitina í stúkunum sitt hvorum megin við sviðið og gaman að gjóa augunum að hljóðfæraleikurunum í hita leiksins.

Meðal upprunalegu laganna eru „Viltu koma að gera snjókall?“ sem systurnar Elsa og Anna syngja fyrst sem börn þegar Elsa skapar snjókallinn Ólaf; „Ég hef beðið nógu lengi“ þar sem Anna tjáir óþreyju sína eftir að fá að lifa lífinu lifandi; „Ástin er lokasvar“ sem fangar ástarbríma Önnu og Hans í upphafi kynna þeirra á krýningardegi Elsu; „Hreindýr eru betri en mannfólk“ sem kynnir Kristján til sögunnar; „Sumar“ þar sem Ólafur syngur um allt það sem snjókallar gera á sumrin og stjörnunúmerið „Ég er frjáls“ þar sem Elsa hafnar leyndarhyggjunni og gengst loks við kröftum sínum. Lagið er staðsett seinna í framvindu söngleiksins en í kvikmyndinni og er því það síðasta fyrir hlé. Framúrskarandi flutningur Hildar Völu í bland við töfralausnir í leikmynd og búningum framkallaði gæsahúð í þessum sönglega hápunkti verksins. Hildur Vala hefur verið vaxandi leikkona frá því undirrituð sá hana fyrst í Mutter Courage, útskriftarverkefni leikarabrautar Listaháskóla Íslands, vorið 2019 en hún hefur starfað við Þjóðleikhúsið síðan og þenur vængi sína til fulls í Frosti með glæsilegum árangri.

Vala Kristín Eiríksdóttir smellpassar í hlutverk Önnu, sem þarf að vera allt í senn sjarmerandi klaufi með hjartað á réttum stað, hafa blik í auga og hæfilegt magn af þrjósku ásamt ákveðinni trúverðugri blindu á aðstæður og fólkið í kringum hana. Vala Kristín hefur á síðustu árum sýnt að hún hefur einstakt vald á kómískum tímasetningum. Nægir í því samhengi að nefna hlutverk hennar í sjónvarpsþáttunum Venjulegu fólki (2018-2023) sem og túlkun hennar á móður Matthildar í samnefndum söngleik sem Borgarleikhúsið setti upp 2019 þar sem Vala Kristín fór á miklum kostum og uppskar verðskuldaða Grímu. Þar sýndi hún einnig hversu flinkur dansari og söngvari hún er, sem kemur að góðum notum í hlutverki Önnu.

Guðjón Davíð Karlsson er yndislegur Ólafur sem heillar salinn með jákvæðni sinni og einlægni og ekki spillir fyrir hversu góðri söngrödd hann býr yfir. Kjartan Darri Kristjánsson fer afar vel með hlutverk Kristjáns, sem ávallt er til staðar fyrir Önnu án þess þó að reyna að yfirtaka leiðangur hennar. Ernesto Camilo Aldazábal Valdés nýtur sín vel í líkamlega krefjandi hlutverkinu sem hreindýrið Sveinn og hrósa verður flottu gervinu. Almar Blær Sigurjónsson er trúverðugur elskhugi og fangar afar vel þau umskipti sem verða á Hans í leiknum.

Aðrir í leikhópnum standa sig með prýði, enda vel skipaður. Hins vegar verður sérstaklega að nefna og hrósa börnunum í hópnum enda gegna þau mikilvægu hlutverki í stemningu verksins og framvindu. Á frumsýningunni voru Andrea Ísold Jóhannsdóttir, Garðar Sigur Gíslason, Halla Björk Guðjónsdóttir, Iðunn Eldey Stefánsdóttir, Nína Sólrún Tamimi og Sindri Gunnarsson á sviðinu. Þar mæddi eðli málsins samkvæmt mest á Iðunni í hlutverki Önnu og Nínu sem Elsu. Þær fá það vandasama hlutverk að setja tóninn strax í upphafi verks og tókst það með miklum ágætum nestaðar fínum söngröddum og sprúðlandi leikgleði.

Uppfærslan í heild sinni er enn ein (frost)rósin í hnappagat leikstjórans Gísla. Sem leikhúslistamaður hefur hann einstakt lag á að laða til samstarfs við sig framúrskarandi listafólk og býr yfir hæfileikanum til að skapa töfrandi sýningar sem snerta hjartað. Ef draga ætti einhvern lærdóm af Frosti er það kannski fyrst og fremst að óttinn er vondur förunautur sem leiðir okkur yfirleitt í ógöngur hvort heldur er í samskiptum við aðra eða lífinu almennt. Í stað þess að sitja með hendur í skauti og bíða eftir bjargvætti, hvort sem hann kemur á hvítum hesti eða ekki, er yfirleitt betra að láta reyna á eigið hugrekki, atgervi og styrk þegar kemur að áskorunum lífsins.