Í kvöld er komið að því. Ísland mætir Ísrael í undanúrslitum umspilsins um sæti í lokakeppni EM karla sem fer fram í Þýskalandi í sumar. Þessi leikur í Búdapest er upp á allt eða ekkert. Sigur, og við eigum spennandi úrslitaleik fyrir höndum á þriðjudaginn gegn Úkraínu eða Bosníu

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Í kvöld er komið að því. Ísland mætir Ísrael í undanúrslitum umspilsins um sæti í lokakeppni EM karla sem fer fram í Þýskalandi í sumar.

Þessi leikur í Búdapest er upp á allt eða ekkert. Sigur, og við eigum spennandi úrslitaleik fyrir höndum á þriðjudaginn gegn Úkraínu eða Bosníu.

Annaðhvort á heimavelli Úkraínumanna í Wroclaw í Póllandi eða í Zenica í Bosníu.

Tap í kvöld og þá er EM úr sögunni. Þá lýkur minni vinnuferð þó íslenska liðið fari í vináttuleik gegn hinu tapliðinu.

Sigur – og þá magnast spennan heldur betur.

Það er ekki búist við mörgum áhorfendum á Szouza Ferenc-leikvanginn í kvöld, enda eru bæði lið langt frá heimaslóðum.

Kannski verður þetta svipað og í fyrstu heimsókn minni til Búdapest, fyrir 36 árum, þegar Ísland lék hér vináttuleik frammi fyrir 3.000 áhorfendum á gamla 80 þúsund áhorfenda Nep-leikvanginum.

Þeir sátu hér og þar og þetta var eins og að vera með 50 áhorfendur á Laugardalsvellinum.

En heimavöllur Újpest sem spilað er á í kvöld rúmar aðeins 13.500 áhorfendur svo hann verður ekki jafn hrikalega tómlegur og Nep heitinn var árið 1988.

Hvað sem því líður, þá er þetta leikur upp á allt eða ekkert milli tveggja liða sem eiga sér þann stóra draum að leika á EM í sumar.

Ráðast úrslitin á 90 mínútum, í framlengingu eða í vítaspyrnukeppni? Þetta er uppskrift að spennuleik.