Forsetaframboð Baldur tilkynnti ákvörðun sína fyrir framan þéttsetinn sal.
Forsetaframboð Baldur tilkynnti ákvörðun sína fyrir framan þéttsetinn sal. — Morgunblaðið/Eggert
Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði, hefur ákveðið að „taka slaginn“ og bjóða sig fram í embætti forseta Íslands. Hávær orðrómur hefur verið uppi um hugsanlegt framboð hans og kom því ákvörðunin ekki mörgum á óvart þegar hann …

Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði, hefur ákveðið að „taka slaginn“ og bjóða sig fram í embætti forseta Íslands. Hávær orðrómur hefur verið uppi um hugsanlegt framboð hans og kom því ákvörðunin ekki mörgum á óvart þegar hann tilkynnti hana í Bæjarbíói í Hafnarfirði í gær fyrir framan þéttsetinn sal af stuðningsfólki og fjölmiðlum.

Er hann ávarpaði salinn lagði hann mikla áherslu á að forsetinn myndi standa vörð um samfélagssáttmálann og mannréttindi, nýta dagskrárvaldið sem hann hefur til fulls og passa að Alþingi gangi ekki fram af þjóðinni á neinn hátt.

Þú hefur talað fyrir því að forseti tali máli þjóðarinnar á erlendri grundu, felst það m.a. í því að taka afstöðu?

„Forseti á að leggjast á árarnar með stjórnvöldum. Forseti á að sjálfsögðu að mínu mati ekki að reka sjálfstæða utanríkisstefnu. Ég held að hann megi nýta forsetaembættið til þess að tala fyrir þeim málum sem stjórnvöld forgangsraða á hverjum tíma fyrir sig. Og ég er tilbúinn í það verkefni. Í rannsóknum mínum í yfir þrjátíu ár hef ég verið að skoða hvaða aðferðum lítil ríki eigi að beita til þess að verja hagsmuni sína og hafa áhrif og vonandi nýtist þessi þekking í þessu starfi ef þjóðin treystir okkur til þess,“ segir Baldur í samtali við Morgunblaðið.

En til að nýta þessa þekkingu í þessu starfi, þyrftir þú þá ekki að verða smá pólitískur?

„Ekki nema að því leytinu til að forseti vinni með stjórnvöldum að þeim málum sem þau eru að vinna hverju sinni. Mannréttindamál eru pólitík. Málefni barna og ungmenna eru pólitík. Forseti gerir þetta í samvinnu við stjórnvöld. Þá er hann að sjálfsögðu pólitískur. Þetta er samvinnuverkefni.“
hmr@mbl.is