Ingvar Jakobsson
Ingvar Jakobsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðvaranir gilda nú um versnandi veður á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra. Spáð er stífum vindi af NA, sums staðar 18-25 m/sek. norðanlands. Þessu fylgir snjókoma eða slydda og sums staðar snjókoma, en annars staðar rigning

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Viðvaranir gilda nú um versnandi veður á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra. Spáð er stífum vindi af NA, sums staðar 18-25 m/sek. norðanlands. Þessu fylgir snjókoma eða slydda og sums staðar snjókoma, en annars staðar rigning. Hiti verður frá frostmarki að sex stigum en svo fer að kólna, að minnsta kosti sums staðar. Veðurstofan segir að á Vestfjörðum verði skafrenningur með mjög lélegu skyggni, jafnvel stórhríð, og ekkert ferðaveður. Þeirri spá fylgir appelsínugul viðvörun, sem taka átti gildi klukkan tvö í nótt. Veðurspár gera raunar ráð fyrir að óveður þetta haldist alveg fram á föstudaginn.

„Ef veðurspáin gengur eftir má reikna með að samgöngur hér raskist,“ sagði Ingvar Jakobsson, lögregluvarðstjóri á Ísafirði, í samtali við Morgunblaðið. „Í svona aðstæðum er alltaf hætta á snjóflóðahættu og þar verður sérstaklega fylgst með Súðavíkurhlíð, Hvilftarströnd við Önundarfjörð og Raknadalshlíð við Patreksfjörð. Fólk verður í viðbragðsstöðu, einnig áhöfnin á varðskipinu Þór sem hefur verið hér vestra síðustu daga og verður eitthvað áfram. Þetta verður leiðinlegt veður en nokkuð sem íbúar hér þekkja vel.“

Veigar A. Sigurðsson, sem keyrir Ísafjarðartrukkinn fyrir Eimskip, greip til þess ráðs í gær að fara með fyrri skipunum vestur og vera á undan óveðrinu. „Ef næst yfir Steingrímsfjarðarheiðina áður en veður versnar er ég sloppinn. Vegurinn um Djúpið verður ekkert mál. Vegna veðurspár dettur suðurferð á fimmtudegi út; þá bíð ég bara vestra uns veðurofsanum slotar og fer síðan suður á föstudag,“ sagði Veigar.