Sigríður Guðmundsdóttir fæddist 28. júní 1937. Hún lést 1. mars 2024.

Útför Sigríðar var gerð 14. mars 2024.

Það sem kemur fyrst upp í hugann og er sterkt í minningunni hjá okkur systkinum þegar við hugsum til elsku Siggu frænku er aðfangadagskvöld. Það er búið að borða jólamatinn og opna pakkana, snjókornin svífa til jarðar og við að búa okkur til að fara til Siggu frænku og Gunna. Það voru einhverjir jólatöfrar að koma til þeirra í litlu íbúðina þeirra við Skólastíginn, drekka heita súkkulaðið og maula smákökurnar hennar Siggu og næla sér í konfektmola. Þetta var heilagur hluti af jólunum í okkar barnæsku.

Við minnumst líka ótal ferðalaga með þeim, veiðiferða og ekki síst árlegra ferða í berjamó.

Sigga var mikil hannyrðakona og jólapakkarnir seinni árin innihéldu yfirleitt fallegt heklað eða útsaumað skraut sem prýddi jólatréð. Hún lætur eftir sig ótal dúka, ýmist bróderaða í harðangur eða heklaða og fallegan útsaum.

Eftir að Sigga var orðin ein þá voru berjaferðir í nágrenninu henni ómissandi og það var aðdáunarvert hvað hún passaði vel upp á að fá sína hreyfingu. Þar til heilsan fór að gefa sig fyrir um tveim árum fór hún nær daglega í sinn göngutúr og sundferðin var einnig ómissandi.

Sigga frænka, eins og við köllum hana alltaf, var lágvaxin, grönn, hæglát og hlý kona sem lét ekki mikið fyrir sér fara en skilur eftir sig stórt pláss í minningum okkar og kveðjum við hana með söknuði og þakklæti.

Elísabet, Guðmundur Ágúst, Sigurður, Magnús Ingi og Eiríkur Arnar