Ferjuflugmennirnir Félagarnir Micke Lang og Aron Luis Gilbertsson sigri hrósandi í flugstjórnarklefanum.
Ferjuflugmennirnir Félagarnir Micke Lang og Aron Luis Gilbertsson sigri hrósandi í flugstjórnarklefanum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Atli Steinn Guðmundsson atlisteinn@mbl.is „Verkefnið var að fljúga Diamond DA62 frá Wiener Neustadt í Austurríki til Suður-Afríku,“ segir Aron Luis Gilbertsson flugmaður í samtali við Morgunblaðið og bjóði einhverjum í grun að slíkt ferðalag sé einhver lautartúr má benda á að þar eru farnir 9.260 kílómetrar um loftin blá.

Viðtal

Atli Steinn Guðmundsson

atlisteinn@mbl.is

„Verkefnið var að fljúga Diamond DA62 frá Wiener Neustadt í Austurríki til Suður-Afríku,“ segir Aron Luis Gilbertsson flugmaður í samtali við Morgunblaðið og bjóði einhverjum í grun að slíkt ferðalag sé einhver lautartúr má benda á að þar eru farnir 9.260 kílómetrar um loftin blá.

Diamond-vélin var á leið til Wonderboom í Suður-Afríku þar sem hún var sýningargripur á AERO South Africa-flugsýningunni í júlí í fyrrasumar en nú er komin út þáttaröð á YouTube um þetta ævintýri þeirra félaga. Morgunblaðið greindi frá því í nóvember að Ísland væri vinsæll viðkomustaður ferjuflugmanna, það er flugmanna sem flytja vélar milli staða í ýmsum tilgangi – til dæmis þegar til stendur að sýna þær á flugsýningum.

Þar sem Aron, sem er nýorðinn 26 ára gamall og hefur tiltölulega nýlega lokið flugnámi, var á þessum tíma glænýr starfsmaður Diamond Aircraft í Austurríki var flugið í raun eitt langt kennsluflug þar sem hann flaug DA62-vélinni undir handleiðslu samstarfsmanns síns Micke Lang.

„Hann er búinn að starfa hjá fyrirtækinu í fjögur ár og var í raun að kenna mér hvernig maður ferjar flugvél frá A til B,“ segir Aron en ferðalagið var að hans sögn hreint ævintýri sem tók sex daga, þar af samtals 32 klukkustundir á flugi.

Gjörsamlega orðlaus

„Þetta var mín fyrsta ferð til Afríku og við þurftum að halda okkur austan megin vegna stríðsins í Súdan og nokkurra annarra svæða sem við getum ekki flogið yfir,“ útskýrir Aron en Diamond-vélarnar segir hann Íslendingum að góðu kunnar þar sem þær séu mikið nýttar sem kennsluvélar hérlendis.

Fyrsta næturgisting þeirra Micke var á Kýpur en sú næsta í hinni fögru borg Hurghada við Rauðahafsströnd Egyptalands. „Á þeim legg ferðarinnar fengum við að fljúga yfir píramídana og flugumferðarstjórinn í Kaíró leyfði okkur að taka einn hring um þá. Ég var gjörsamlega orðlaus yfir að ég væri að horfa niður á píramídana,“ segir Aron frá og fær ekki dulið hrifningu sína.

Því næst flugu þeir yfir Rauðahafið og til Jeddah í Sádi-Arabíu sem var næsti áningarstaður. „Hitinn var milli 30 og 40 gráður en þegar flogið er á svæðinu í námunda við Rauðahafið að sumarlagi getur maður lent í alls konar veðri og við fengum það einmitt beint framan í okkur
eins og sést í einum YouTube-þáttanna okkar. Þá lentum við í þrumuveðri á leiðinni frá Jeddah niður eftir til Eþíópíu. Ég hefði aldrei trúað því að maður gæti lent í því að fá ísingu á vélina í Afríku en það gerðist nú samt,“ segir Aron af Rauðahafsævintýrinu.

Kilimanjaro var upplifun

Hann segir ferðalagið hafa leitt þeim Micke vel fyrir sjónir hve Afríka skiptist milli norðurs og suðurs. „Í miðjunni er svæði þar sem fátæktin er mest áberandi. Við lentum í Malaví og gistum þar. Flugvöllurinn þar er alþjóðaflugvöllur og hann var bara galtómur, þar var enginn,“ segir Aron frá.

Þeir Micke voru sóttir þangað og þurftu að láta stimpla vegabréf sín sem var ekkert áhlaupaverk. „Það er reyndar margt sem ég má ekki segja frá en þegar maður heimsækir þetta svæði sér maður hvað hlutir sem eru einfaldir annars staðar eru ótrúlega flóknir í þessum vanþróuðu samfélögum,“ segir Aron hugsi og á við gang mála í Malaví sem er allt annað en einfaldur.

Hann kveður margar aðrar upplifanir hafa verið lyginni líkastar á fluginu, svo sem að fljúga yfir fjallið Kilimanjaro í Norðaustur-Tansaníu, vinsæla áskorun fjallaklifrara heimsbyggðarinnar með sínum hæsta tindi, Uhuru, sem rís 5.985 metra yfir sjávarmál.

„Það er mikið tækifæri sem
felst í því að fljúga Diamond-vélunum af því að við fljúgum í minni hæð en þotur og fáum því að sjá mun meira,“ segir Aron en ferðalaginu lauk giftusamlega í Wonderboom þar sem þeir félagarnir dvöldu í viku og fylgdust með því sem bar fyrir augu á flugsýningunni. Önnur áhöfn flaug vélinni svo heim að sýningu lokinni.

Atlantshafið draumurinn

„Ég sá um að kynna flugvélina fyrir fólki, í raun gekk þetta út á að kynna Diamond í Suður-Afríku og kosti vélarinnar. Þessar vélar ganga fyrir þotubensíni en ekki gamla eldsneytinu, afgasi, og á þotubensíninu er mun auðveldara að komast um allan heiminn þar sem það er á langflestum flugvöllum. Við sýndum það í raun best með því að komast á vélinni alla leið til Suður-Afríku,“ bendir Aron á.

Fram undan hjá honum um þessar mundir er flug til Sádi-Arabíu auk þess sem hann er að takast á hendur það stóra verkefni að ferja vélar til Kanada einn síns liðs, yfir Atlantsála eins og þeir leggja sig frá austri til vesturs.

„Þá lendir maður á Íslandi og ég fæ að gista þar og hitta vini og fjölskyldu áður en ég held áfram til Grænlands og svo þaðan til Kanada. Það hefur alltaf verið draumur minn að fljúga yfir Atlantshafið með millilendingu á Íslandi,“ lýsir hann þessu mörg þúsund kílómetra ferðalagi þar sem hann situr einn í flugstjórnarklefanum langt yfir yfirborði jarðar og játar fúslega að það geti tekið á taugarnar.

Sjötíu gráða hitamunur

„Núna er mjög margt fram undan, flug til Asíu, flugsýningar og mánaðarlegt flug yfir Atlantshafið,“ segir Aron og kveðst aðspurður verða áfram starfandi hjá Diamond Aircraft í Austurríki „á meðan það er gaman“ eins og hann orðar það.

Áðurnefnd YouTube-þáttaröð sýnir Afríkuflugið glöggt og flest markvert sem þar bar fyrir augu og geta áhugasamir fundið þættina á YouTube-rás Diamond Aircraft undir leitarorðunum „DA62 ferry to South Africa: Passage to Pretoria“.

Aron segir býsna ólíkt að fljúga yfir Atlantshafið annars vegar og til Afríku hins vegar. „Á öðrum staðnum er maður í plús 35 gráðum og á hinum í mínus 35 gráðum, þetta er 70 gráða munur sem maður upplifir,“ segir Aron og játar fúslega undir lokin að hafa himin höndum tekið – bókstaflega – í flugmannsstarfinu.

„Það er það sem ég elska við þetta, áskoranir og alltaf eitthvað nýtt og lærdómurinn er endalaus í þessu starfi,“ segir Aron Luis Gilbertsson ferjuflugmaður.