Ólafur Siggeir Helgason fyrrverandi bílstjóri fæddist þann 17. mars árið 1947 í Reykjavík. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Skógarbæ þann 13. mars 2024.

Foreldrar hans voru Helgi S. Guðmundsson, vélstjóri og verslunarmaður, f. 7. apríl 1919, d. 6. mars 1975, og Fífa G. Ólafsdóttir húsmóðir, f. 16. nóvember 1925, d. 20. júlí 2009. Systir Ólafs er Ásdís Helgadóttir hjúkrunarfræðingur, f. 30. júní 1956. Hún er gift Gunnari Oddi Rósarssyni, líffræðingi og tannlækni, f. 15. janúar 1956. Dætur þeirra eru: 1) Sigrún Huld Ásdísar Gunnarsdóttir, hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir, f. 1983, gift Elmari Árnasyni sjóðsstjóra og eiga þau fjögur börn, Tómas Ían (faðir Tómasar er Friðrik Brendan B. Þorvaldsson, tónlistarmaður), Arnheiði Maju, Snæfríði Köru og Svanhildi Örnu. 2) Hildur Arna Gunnarsdóttir, líffræðingur og dýralæknir, f. 1988, gift Guðmundi Einarssyni, doktor í stærðfræði. Þau eiga tvo syni, Matthias Helga og Bergstein Thomas. 3) Bryndís Snæfríður Gunnarsdóttir hjúkrunarfræðingur, f. 1992, í sambúð með Grétari Áss Sigurðssyni rafmagnsverkfræðingi. Þau eiga tvö börn, Elínu Ásdísi og Atla Heiðar.

Ólafur var alinn upp í Reykjavík og gekk í Melaskóla, Miðbæjarskólann og Gaggó Vest. Síðan lá leiðin í Gagnfræðiskóla verknáms við Ármúla í smíðadeild. Næst í Iðnskólann í pípulagnir en fann hann að hvorugt átti við sig og vildi vinna við akstur enda mikill áhugamaður um bíla. Ólafur tók meiraprófið og rútubílapróf. Hann vann lengst af sína starfsævi hjá Eimskip á stórum gámaflutningabílum með tengivagna. Hann var einstaklega duglegur til vinnu og þegar hann lét af störfum vegna veikinda 52 ára gamall hafði hann unnið sér inn full réttindi til eftirlauna.

Ólafur bjó í foreldrahúsum og hélt síðan heimili með móður sinni eftir að faðir hans lést. Eftir að móðir hans fluttist á hjúkrunarheimili árið 2007 bjó hann einn á Hjarðarhaga 46 í Reykjavík, þar til hann fluttist á hjúkrunarheimilið Skógarbæ vorið 2021 þar sem hann síðar lést.

Ólafur hafði gaman af því að sinna bílunum sínum, fara á bílasölur og skipti oft um bíla í gegnum tíðina. Ólafur var einnig mikill fjölskyldumaður og naut þess að taka þátt í lífi systurdætra sinna. Ólafur var mjög félagslyndur, fór í sund í Vesturbæjarlaug á hverjum degi. Hann var sérstakur „sendiherra“ fyrir Tannlæknastofuna Vegmúla 2 eftir að hann lauk störfum hjá Eimskip.

Útför Ólafs fer fram frá Fríkirkjunni í Reykjavík í dag, 21. mars 2024, klukkan 15.

Elsku Óli bróðir, mikið var erfitt að kveðja þig. Þú kynntir mig alltaf sem litlu systur og sagðir „hún er einkasystir mín“. Þegar ég fæddist varst þú rúmlega níu ára gamall og varst staddur í Vatnaskógi. Þegar þú fréttir af fæðingu minni straukst þú til að koma og sjá litlu systur. Svo kom í ljós að vinur þinn í næsta húsi hafði eignast nokkrum dögum áður lítinn bróður. Hann langaði að eignast litla systur og þú hafðir óskað þér að eignast lítinn bróður, svo að þið ákváðuð að skipta á börnum í barnavögnunum. Þetta fannst mæðrum ykkar fyndið uppátæki.

Þú hafðir oft gaman af því að stríða systur þinni og sagðir mér reglulega að ég væri glasabarn sem hefði verið búið til í tilraunaglasi á Keldum og því væri ég ekkert lík ykkur. Þú máttir stríða mér en það máttu aðrir strákar ekki. Ég var sjaldan lamin, því að strákarnir vissu að ég ætti stóran bróður.

Vegna aldursmunar varst þú að eignast bíl þegar ég fékk hjól. Þú bauðst mér oft í bíltúra og mér leið eins og prinsessu, þú varst með plötuspilara í bílnum og ég gat skipt um plöturnar. Þarna kynntist ég fyrst Bítlunum o.fl. Þú keyptir gjarnan ís eða nammipoka handa okkur og þar lærði ég að borða nammi hratt. Síðar var ég á tímakaupi hjá þér við að þrífa bílinn þinn, pressa buxur, strauja skyrtur og bursta skó fyrir þig, þegar þú varst á leið í Glaumbæ.

Frá því að þú fékkst bílpróf varst þú með mikla bíladellu. Þið pabbi deilduð þessum bílaáhuga saman. Þið fóruð oft á bílasölur og keyptuð ykkur nýja bíla. Síðar á ævinni varstu tekinn fyrir of hraðan akstur fyrir að keyra á 104 km/klst. upp Kambana. Þegar þú fékkst sektina fórstu beint inn á lögreglustöð og sagðist ætla að sitja af þér sektina því þú værir hættur á vinnumarkaðinum og yrðir á góðu tímakaupi við að sitja hjá þeim í þrjá daga á Hverfisgötunni. Þetta var mjög frjálsleg fangavist og var mjög skemmtileg lífsreynsla fyrir þig.

Þú varst mikill sögumaður og þér fannst gaman að segja ýmsar sögur úr lífi þínu. Eftir þig liggja margar skemmtisögur og frasar sem lifa áfram. Þú varst svo góður og hjálplegur maður, vildir endalaust aðstoða mig og aðra við allt sem þú gast gert. Þú leigðir okkur Gunna íbúðina þína fyrir mjög sanngjarnt verð og þegar mamma lést vildir þú eignast hennar íbúð og kaupa mig út, sem gerði mér svo kleift að eignast draumahúsið mitt.

Þú varst ekki bara frændi dætra minna heldur gekkst þeim hreinlega í afastað. Þær minnast þín með þakklæti. Þú varst mjög stoltur af minni fjölskyldu sem varð einnig þín. Þú heimsóttir okkur næstum daglega og varst alltaf með okkur á hátíðisdögum. Þú stólaðir á mig að aðstoða þig við það sem vafðist fyrir þér. Við sögðum oft bæði að við værum mjög góð systkini og vildum styðja hvort annað. En við gátum rifist. Eins og systkini gera stundum en alltaf var stutt í sættir.

Elsku stóri bróðir. Takk fyrir allt sem þú gerðir fyrir mig og fjölskyldu mína. Ég vil trúa því að þú sért núna búinn að hitta pabba og mömmu aftur og að þið vakið yfir mér áfram.

Þín systir,

Ásdís.

Það bar til, laust fyrir jól 1957. Fífa og Helgi, foreldrar ykkar Ásdísar minnar, tóku sig upp úr Sörlaskjólinu og flugu, með Sögu gömlu, til Oregon í BNA. Þar voru fyrir þrjú systkini Helga heitins og hafði búnast vel. Nú skyldi gæfunnar freistað í „Guðs eigin landi“.

En margt fór öðruvísi en ætlað var. Þessi átta mánaða dvöl litlu fjölskyldunnar fyrir vestan átti eftir að setja mark sitt á ykkur öll. Einkum þó þig. Þú fórst, eins og krökkum á þínu reki er tamt, „út að leika“ við nýjan heim með frændsystkinum þínum. Þið þvældust út um allt í náinni snertingu við gjöfula náttúruna. Þannig fór að þú smitaðist af vírus sem leiddi til þess að þú veiktist heiftarlega af heilabólgu. Lást milli heims og helju. Vart hugað líf. Þetta er afar sjaldgæfur en ekki óþekktur fylgikvilli landlægra vírusa í Ameríku. Engin var heilbrigðisþjónustan fyrir ykkur ótryggð, nýflutt. Í guðs eigin landi sér hver um sig.

Þetta varð til þess að af þér voru tekin ýmis tækifæri sem hefðu annars boðist þér frá náttúrunnar hendi. Jafndreifður frumudauði í heila hjá 10 ára barni skilur eftir sig tóm. Líkt og spánska veikin gerði í Reykjavík.

Þó varstu enginn aukvisi. Vannst fulla vinnu, og meira til, frá unglingsaldri til 52 ára aldurs. Þá var þér sagt upp störfum hjá Eimskip. Kom í ljós að þú hafðir verið það duglegur að vinna að þú hafðir lagt af mörkum til þjóðfélagsins jafn mikið og meðalmaðurinn sem fer á eftirlaun 67 ára. En nú var ljóst að þú þjáðist af heilabilun vegna háþrýstings í heila- og mænuvökva. Síðbúin eftirköst.

Eftir mikið umstang systur þinnar, sem skildi hve veikur þú varst, komst þú í „heilaskurðsaðgerðina“ sem þú vitnaðir í iðulega. Þú dáðir sérfræðinginn sem framkvæmdi hana af öryggi og bjargaði vissulega lífi þínu þar. Við hin kunnum honum okkar bestu þakkir.

Þú áttir 24 góð ár eftir þetta. Öll voru þau alveg á þínum forsendum. Það var meitlað.

Enginn veit hvað hefði orðið ef þið hefðuð haldið ykkur í Sörlaskjólinu. En minnugur þess hversu oft þú gladdir okkur með skondnum uppákomum, þrátt fyrir allt, þá er sennilegt að þú hefðir markað þér mikilvægan sess. Minni menni verða orðið mikilmenni. Þar vorum við á sama máli.

Þú markaðir þér þó sannarlega sess hjá okkur. Stundum gekk á … Geri maður allt á eigin forsendum án vinnslurýmis til að skilja sjónarhorn annarra er það óhjákvæmilegt. Svo er það.

En upp úr stendur hjálpsemi þín og velviljinn í okkar garð. Það hefur munað um framlag þitt í ævistarfi okkar systur þinnar í gegnum tíðina. Það hefur birst með ýmsum og oft óvæntum hætti. Samband þitt við dætur okkar og hve þú hafðir þær í hávegum. Húmorinn. Hlóst að fimmaurunum mínum, sem eru æ á vafa gengi.

Þið systkinin voruð samstiga með fasteignamál foreldra ykkar og sáuð um þau með þeim hætti að það kom öllum vel. Þar bar aldrei skugga á.

Hafðu mínar hjartans þakkir fyrir allt þetta Óli minn. Það þroskaði mig og bætti að kynnast þér. Sýnist að við höfum báðir skánað við kynnin. Far vel. Bið að heilsa öllum.

Gunnar Oddur Rósarsson.

Elsku Óli frændi. Mér finnst mjög sárt að þú sért búinn að kveðja þennan heim en eftir sit ég með fullt hjarta af þakklæti. Þakklæti fyrir að þú fékkst að vera svo langlífur þrátt fyrir lífshættuleg veikindi oftar en einu sinni á ævi þinni. Þakklæti fyrir hjálpsemi þína. Þakklæti fyrir gjafmildi þína. Þakklæti fyrir góðmennsku þína og dugnað. Þegar ég horfi til baka, nú komin á fullorðinsár, er auðséð hve mikið þú hefur gert fyrir mig og okkur fjölskylduna í gegnum tíðina og erum við öll full þakklætis. Ég fékk aldrei að kynnast móðurafa mínum því hann lést fyrir aldur fram en þú gekkst mér og okkur systrum algjörlega í afastað, þú sinntir okkur svo vel og af mikilli væntumþykju.

Það var þó enginn eins og þú og þú varst sko enginn venjulegur frændi. Þú gafst þig á tal við hvern sem var og það var oft ævintýralegt að vera fylgifiskur þinn á almannafæri. Það fengu til að mynda allir sem þig hittu að heyra af heilaskurðaðgerðinni sem Garðar heilaskurðlæknir framkvæmdi til að bjarga lífi þínu um aldamótin síðustu. Þú áttir einnig marga góða frasa, sögur og brandara sem þú hafðir gaman af því að segja aftur og aftur, mér sem barni til mismikillar skemmtunar en ég kunni alltaf betur og betur að meta þann eiginleika þinn með tíð og tíma.

Hjálpsemi þín var ótvíræð og bauðst þú látlaust fram hjálp þína. Þú hefur til að mynda sennilega skutlað mér og okkur systrum samanlagt mörg þúsund kílómetra í gegnum ævina, jafnvel meira en nokkur annar. Þú fórst iðulega með mig í bíltúr og í Kringluna sem barn og gerðir þá vel við mig, gaukaðir að mér gullpeningum og ís við hvert tækifæri. Mömmu fannst þú jafnvel oft of gjafmildur við okkur systur og bað þig þá vinsamlegast að eyða ekki svona miklum peningum í okkur en mér þótti svo vænt um að vera dekruð af þér. Takk Óli frændi.

Þar til við sjáumst aftur í sumarlandinu.

Þín

Bryndís Snæfríður.

Elsku Óli frændi.

Þú varst mér alltaf svo góður, þú varst alltaf boðinn og búinn að hjálpa vinum og vandamönnum. Þegar ég var lítil man ég eftir að fara með þér í Kringluna og borða ís, ég man eftir öllum jólunum þar sem við öll kepptumst við að borða jólaísinn (Ólaís) og við að opna fallegu góðu gjafirnar frá þér. Er þér ævinlega þakklát fyrir að þú skutlaðir mér oftar en ekki, meira að segja nokkrum sinnum út á flugvöll þegar ég var að fara í utanlandsferðir og man líka eftir að hlusta með þér á Elvis Presley í bílnum og hafa gaman saman.

Þú hefur alltaf verið sterkur og við höfum alltaf átt það sameiginlegt að elska að fara í sund. Þú varst líka mjög mannglöggur og mannblendinn og þekktir til allra, hikaðir ekki við að heilsa neinum og alltaf til í spjall. Vinir mínir voru oft að segja mér frá ef þau hittu þig á förnum vegi.

Þú varst líka mikill húmoristi og sagðir manni alls konar brandara og hafðir líka gaman af að leggja fyrir mann gátur. Það gladdi þig ótrúlega mikið þegar ég eignaðist fyrsta son minn að hann skyldi vera nefndur í höfuðið á afa Helga.

Takk fyrir allt elsku Óli minn. Ég sakna þín og þykir svo vænt um þig. Ég veit að amma og afi tóku vel á móti þér þegar þú kvaddir þennan heim og ert væntanlega að njóta þín í botn í sumarlandinu, sólbrúnn og sæll eins og þú átt að þér að vera.

Þín frænka,

Hildur Arna.

Elsku Óli móðurbróðir minn er farinn í sumarlandið. Við vissum að sökum veikinda, sem hrjáðu hann frá því að hann fékk sýkingu í heilann sem barn, yrði hann ekki langlífur. Það hafði títtnefndur Garðar heilaskurðlæknir sagt okkur eftir aðgerðina sem Óli fór í árið 2000. Þar munaði litlu að við hefðum misst Óla alltof snemma. Þökk sé árvekni mömmu og hæfni Garðars fór Óli í lífsbjargandi aðgerð á elleftu stundu. Óli fékk þá 24 ár til viðbótar sem hann gerði svo vel úr. Hann kvaddi okkur nokkrum dögum fyrir 77 ára afmælið og fyrir það að hann hafi náði þeim aldri erum við mjög þakklát.

Óli hafði mjög gaman af að segja frá því að þegar hann vaknaði á Borgarspítalanum eftir heilaskurðinn talaði hann bara ensku fyrst um sinn. Garðar læknir var í guðatölu og þar sem Óli átti til að skila séráliti á hlutunum þurfti maður ekki að rökræða við hann þegar leiðbeiningarnar komu frá Garðari. Garðari heilaskurðlækni var hlýtt möglunarlaust.

Þrátt fyrir þær takmarkanir sem Óla voru settar vegna þessara veikinda er ekki hægt að segja annað en að hann hafi spilað frækilega vel úr þeim spilum sem hann fékk á hendi í þessu lífi. Eljan og dugnaðurinn sem hann sýndi í öllum þeim verkefnum sem hann tók sér fyrir hendur voru aðdáunarverð. Hann var ótrúlega seigur og sterkbyggður sem sýndi sig ekki síst á síðustu dögum hans hér í þessari jarðvist. Maður spyr sig hverju hann hefði komið í verk ef hann hefði aldrei fengið þessa sýkingu. Ég hefði jafnvel getað séð hann fyrir mér í ráðherrastól.

Óli var einstaklega góður við mig þegar ég var barn, betri afastaðgengil gæti ég ekki hafa beðið um. Það var mikið sport að fara með Óla í stóra MAN-vörubílinn sem hann geymdi úti á Fornhaga. Þá fékk ég að sitja frammi í í belti að sjálfsögðu og með eyrnahlífar vegna látanna í vélinni. Óli frændi var líka duglegur að bjóða mér í Tívolíið í Hveragerði. Einu sinni sótti Óli mig til að fara þangað en ég gat verið þver krakki og hafði neitað að setja á mig sætisbeltið. Óli var að pexa við mig en gafst svo upp og fór inn að tala við mömmu. Þegar hann kom til baka var ég búin að festa mig og Óli sagði „ég vissi að þú myndir festa þig, þú ert svo góð stelpa“. Ég á líka minningu þar sem við Óli hjóluðum saman til ömmu Fífu og mamma sá okkur hjóla meðfram Hjarðarhaganum en ekki á gangstéttinni. Mamma skammaði Óla fyrir að nota ekki gangstéttina og ég skammaði mömmu fyrir að skamma Óla.

Vísur og sögur Óla mun ég geyma í hjartanu. Má þar helst nefna vísuna góðu sem enginn veit hvað þýðir en er víst austurevrópskt drykkjukvæði fyrir utan lokalínuna sem Óli bjó til sjálfur.

Nastrovia den staveste

Mimiska braska

Nadaska gaska

Gasama gusuma

World championship gravy.

Elsku besti Óli, takk fyrir að vera alltaf svona góður við mig og skutla mér út um allan bæ. Hjálpsemi þín var einstök. Takk fyrir að vera svona góður við börnin mín. Ég vona innilega að þú sért kominn undir stýri í góðu veðri að kaupa þér ís eftir góða sundferð.

Elsku Óli frændi, það var enginn eins og þú!

Þín frænka,

Sigrún Huld.

Um árabil var Ólafur Helgason, hann Óli, næstum daglegur gestur á tannlæknastofunni okkar í Vegmúla 2. Hann Óli kom samt ekki endilega til að láta skoða tennurnar sínar. Nei, hann var kominn til að spjalla, hann var kominn til að bjóða fram starfskrafta sína, fara í snúninga og hann var kominn til að sýna sig og sjá aðra.

Hann var óþreytandi að segja okkur frá ævintýrum sem hann hafði lent í á lífsleiðinni og fiskaði gjarnan eftir skoðanaskiptum um hin ýmsu málefni. Óli var gamansamur og jafnan með bros á vör þó reyndar gæti nú fokið í hann líka.

Hin síðari ár urðu heimsóknirnar reyndar strjálli og svo tók alveg fyrir þær þegar heilsan bilaði.

Við minnumst Óla með mestu hlýju og vottum aðstandendum okkar dýpstu samúð.

Fyrir hönd starfsfólks Tannlæknastofunnar Vegmúla 2,

Ingólfur Eldjárn.