Dagmál Þingmennirnir Jóhann Páll Jóhannsson og Teitur Björn Einarsson segja Landsbankamálið alvarlegt og að umgjörðin þarfnist skoðunar.
Dagmál Þingmennirnir Jóhann Páll Jóhannsson og Teitur Björn Einarsson segja Landsbankamálið alvarlegt og að umgjörðin þarfnist skoðunar. — Morgunblaðið/Hallur
Þingmenn úr stjórnarliði og stjórnarandstöðu eru á einu máli um alvarleika Landsbankamálsins, þar sem stjórnendur bankans gerðu bindandi kauptilboð í TM tryggingar fyrir 28,6 milljarða króna í blóra við vilja eigenda og fyrirliggjandi eigendastefnu

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Þingmenn úr stjórnarliði og stjórnarandstöðu eru á einu máli um alvarleika Landsbankamálsins, þar sem stjórnendur bankans gerðu bindandi kauptilboð í TM tryggingar fyrir 28,6 milljarða króna í blóra við vilja eigenda og fyrirliggjandi eigendastefnu.

Þetta kemur fram í viðtali Dagmála, streymis Morgunblaðsins, sem birt er í dag, við þingmennina Jóhann Pál Jóhannsson og Teit Björn Einarsson.

„Hvernig stóð á því að stjórnendur Landsbankans gera tilboð og fara í þessi kaup, að því er virðist umboðslausir?“ spyr Teitur, sem er formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.

„Þetta er ekki í samræmi við eigendastefnu ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Bankinn upplýsir ekki Bankasýsluna um þessa ráðstöfun fyrir fram, það er brot á samningi.“

Þeir segja ekki bæta úr skák að svo virðist sem Landsbankinn hafi farið á bak við Bankasýsluna, en taka fram að bíða þurfi greinargerðar bankaráðsins, sem því ber að skila í komandi viku, en aðalfundi bankans var jafnframt frestað um mánuð.

„Ég er mjög hissa á þessu,“ segir Jóhann Páll Jóhansson þingmaður Samfylkingar. „Ég hef ekki orðið var við að það hafi verið hávært ákall í samfélaginu eftir að ríkið hasli sér völl á tryggingamarkaði.“

Stjórnendur bankans ábyrgir

Jóhann Páll gagnrýnir fjármálaráðherra og Bankasýsluna fyrir að hafa ekki sýnt frumkvæði í málinu fyrr, rætt hafi verið um áhuga Landsbankans á TM mánuðum saman.

Teitur telur að með því sé verið að drepa málinu á dreif, ábyrgðin liggi ljóslega hjá bankaráði Landsbankans.

„Ráðherrann fær engar upplýsingar sem gefa tilefni til sérstakrar málsmeðferðar, hún fær engar upplýsingar frá Bankasýslunni enda kom í ljós að Bankasýslan fékk engar upplýsingar frá bankanum. Þar liggur hundurinn grafinn.“

Spurningu um stöðu bankastjóra Landsbankans vilja þeir ekki svara, stjórnendur bankans þurfi sjálfir að svara því og rétt að bíða greinargerðar bankaráðsins, en Teitur segir að miðað við alvöru málsins kæmi ekki á óvart ef málið hefði slíkar afleiðingar.

Báðir gagnrýna þeir að Lilja Björk Einarsdóttir bankastjóri hafi látið sem eiganda bankans kæmu kaupin ekki við og furða sig á ummælum hennar um að Landsbankinn sé ekki ríkisbanki.

Hins vegar telur Teitur Björn að málið geti einnig haft margvíslegar lagalegar afleiðingar, svo sem skaðabótakröfu á hendur bankanum gangi kaupin ekki í gegn.

„Þar er augljóst að stjórnendur bankans eru ábyrgir og bankinn getur átt endurkröfu á þá hafi þeir farið út fyrir umboð sitt,“ segir Teitur.