[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Íslensku hljóðbókaverðlaunin, Storytel Awards, voru veitt í gærkvöldi en þau eru í fimm flokkum auk þess sem veitt eru sérstök heiðursverðlaun. Dómnefndir höfðu það að leiðarljósi að líta heildstætt á hvert verk þar sem vandaður lestur og jafnvel hljóðskreyting getur bætt miklu við upplifunina

Íslensku hljóðbókaverðlaunin, Storytel Awards, voru veitt í gærkvöldi en þau eru í fimm flokkum auk þess sem veitt eru sérstök heiðursverðlaun. Dómnefndir höfðu það að leiðarljósi að líta heildstætt á hvert verk þar sem vandaður lestur og jafnvel hljóðskreyting getur bætt miklu við upplifunina. Því voru ekki aðeins rithöfundar verðlaunaðir heldur einnig lesarar hljóðbókanna.

Minningarskrínið eftir Kathryn Hughes, í þýðingu Ingunnar Snædal, var valin besta skáldsagan en Katla Njálsdóttir, Álfrún Helga Örnólfsdóttir og Helga E. Jónsdóttir sáu um lestur. Óbragð eftir Guðrúnu Brjánsdóttur var valin besta ljúflestrarsagan. Hana les Arnmundur Ernst Backman. Hanni granni dansari eftir Gunnar Helgason, í lestri höfundar, var valin best í flokki barna- og ungmennabóka.

Hungur eftir Stefán Mána, í lestri Rúnars Freys Gíslasonar, var valin besta glæpasagan. Sigursteinn Másson var verðlaunaður fyrir besta óskáldaða efnið fyrir þáttaröð sína Réttarmorð sem hann les sjálfur. Þá hlaut Eliza Reid forsetafrú heiðursverðlaun fyrir ómetanlegt framlag í þágu íslenskra bókmennta og ritlistar.

Að undangenginni almenningskosningu í janúar fóru tilnefndar bækur fyrir fagdómnefndir. Elva Ósk Ólafsdóttir, leikkona og lesari hjá Storytel, var formaður dómnefnda.

Dómnefndir voru eftirfarandi: Í flokki skáldsagna og óskáldaðs efnis: Elva Ósk Ólafsdóttir, Jóhannes Ólafsson og Brynja Hjálmsdóttir. Í flokki glæpasagna og ljúflesturs: Björn Halldórsson, Ingibjörg Iða Auðunardóttir og Einar Aðalsteinsson. Í flokki barna- og ungmennabóka: Örn Árnason, Rebekka Sif Stefánsdóttir og Sævar Helgi Bragason.