Hrísey Ferjan Sævar á leið til Hríseyjar. Ferðamönnum þar og í Grímsey hefur fjölgað mikið á síðustu árum og áhersla á ferðaþjónustu vaxið.
Hrísey Ferjan Sævar á leið til Hríseyjar. Ferðamönnum þar og í Grímsey hefur fjölgað mikið á síðustu árum og áhersla á ferðaþjónustu vaxið. — Morgunblaðið/Hafþór Hreiðarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ferðamönnum hefur fjölgað mikið yfir sumartímann í eyjunum Grímsey og Hrísey síðustu ár og hefur það valdið auknu álagi á náttúru eyjanna, að því er kemur fram í nýrri skýrslu sem Ása Marta Sveinsdóttir og Laufey Haraldsdóttir gerðu á vegum…

Sviðsljós

Guðm. Sv. Hermannsson

gummi@mbl.is

Ferðamönnum hefur fjölgað mikið yfir sumartímann í eyjunum Grímsey og Hrísey síðustu ár og hefur það valdið auknu álagi á náttúru eyjanna, að því er kemur fram í nýrri skýrslu sem Ása Marta Sveinsdóttir og Laufey Haraldsdóttir gerðu á vegum Rannsóknarmiðstöðvar ferðamála og ferðamáladeildar Háskólans á Hólum þar sem fjallað er um sjálfbæra uppbyggingu ferðaþjónustu í eyjunum tveimur.

Þannig komu 29 skemmtiferðaskip til Grímseyjar sumarið 2022 og 48 skip sumarið 2023. Á þessum 48 skipum voru tæplega 19 þúsund manns, farþegar og áhöfn, en ekki komu þó allir í land af skipunum.

Færri skip koma til Hríseyjar eða átta sumarið 2023. En þangað koma einnig hópar af skemmtiskipaferðamönnum frá Akureyri og fara með ferjunni Sævari frá Árskógssandi út í eyju. Segir í skýrslunni að samfélag og náttúra þessara eyja sé viðkvæm og ljóst að í óefni stefni verði ekki gripið í taumana sem fyrst að stýra þróun ferðamála þar.

Hrísey í Eyjafirði er næststærsta eyja Íslands, 8 ferkílómetrar að stærð. Eyjan heyrir undir Akureyrarbæ síðan 2004 og í byrjun árs 2023 voru 160 manns skráðir þar með lögheimili. Grímsey í Eyjafirði er fjórða stærsta eyja Íslands, 5,3 ferkílómetrar að stærð. Norðurheimskautsbaugurinn liggur þvert í gegnum norðurhluta eyjarinnar sem er gríðarlegt aðdráttarafl fyrir ferðamenn. Eyjan heyrir undir Akureyrarbæ síðan 2009 og í byrjun árs 2023 voru skráðir íbúar með lögheimili þar 55 talsins. Í báðum eyjunum hefur skipulögð ferðaþjónusta farið vaxandi undanfarin ár.

Halda sig á sömu svæðunum

Í rannsókninni var í báðum eyjum gerð könnun á viðhorfi íbúa til ferðamála og spurningakönnun lögð fyrir ferðamenn, ásamt GPS-mælingum á ferðahegðun þeirra til að mæla hvar þarf að byggja upp innviði og hvar mesta álag ferðamanna er. Mælingarnar sýndu þó að langflestir ferðamenn virðast halda sig á sömu svæðunum á vesturhluta eyjanna.

Mikill meirihluti íbúa í Grímsey og Hrísey telur að ferðamennskan í eyjunum hafi þróast á ábyrgan hátt, en meirihlutinn í báðum eyjunum vill þó að ferðaþjónustan þar leggi meiri áherslu á sjálfbæra þróun greinarinnar. Einnig leiddi rannsóknin í ljós, að mikill meirihluti íbúa í Grímsey telur ferðamennsku og ferðaþjónustu mikilvæga fyrir samfélagið í eyjunni. Þannig sögðust 83% íbúa telja að ferðamenn auki lífsgæði íbúanna. Í Hrísey dreifist viðhorfið meira þótt meirihlutinn telji ferðaþjónustuna mikilvæga. 53% íbúanna sögðust telja að ferðamenn og ferðaþjónusta auki eigin lífsgæði en 47% eða nærri helmingur svarenda segja hana hvorki auka eða draga úr eigin lífsgæðum. Þessi munur skýrist e.t.v. af því að 52% svarenda í Grímsey sögðust hafa tekjur af atvinnugreininni en 24% í Hrísey.

Íslendingar mikilvægir

Helstu niðurstöður spurningakönnunarinnar meðal ferðamanna benda til að ferðamenn búsettir á Íslandi séu mikilvægur markhópur ferðaþjónustu í Hrísey þar sem þeir eru langstærsti hópur svarenda í þessari könnun. Þjóðverjar eru næststærsti hópur svarenda í Hrísey. Í Grímsey eru Bandaríkjamenn fjölmennasti hópurinn, en Íslendingar næststærsti hópurinn. Langflestir voru afar ánægðir með heimsóknina til eyjanna beggja og flestir töldu einnig líklegt að þeir myndu koma þangað aftur.

Ferðaþjónusta

Mörg tækifæri

Laufey Haraldsdóttir, lektor hjá Háskólanum á Hólum og annar höfundur skýrslunnar, segir að ferðaþjónustan sé mjög vaxandi á báðum eyjunum enda bjóði þær upp á mikil tækifæri á því sviði. Það sem einkum laði ferðamenn til eyjanna sé náttúran og fuglalífið. „En það þarf að fara varlega. Þetta eru lítil samfélög og það verður að taka tillit til þess og einnig til náttúrunnar þar, sem er að mörgu leyti einstök,“ segir hún.

Laufey segir að íbúar eyjanna tveggja séu almennt jákvæðir í garð ferðamanna og finnist þeir yfirhöfuð haga sér vel. Íbúarnir vilji markaðssetja eyjarnar áfram sem áfangastað ferðamanna en þeir leggi jafnframt ríka áherslu á að vera með í ráðum í öllu skipulagi varðandi ferðamálin í eyjunum.