Anna Friðrika Karlsdóttir fæddist 29. maí 1937 í Odda, Seyðisfirði. Hún lést á Hrafnistu Hafnarfirði 15. mars 2024.

Foreldrar Önnu voru hjónin Kristín Halldóra Halldórsdóttir frá Seyðisfirði, f. 27. mars 1911, d. 24. október 1970, og Karl Sveinsson frá Eskifirði, f. 14. október 1899, d. 25. mars 1980. Systkini Önnu eru Halldór Karlsson (látinn), Sveinn Karlsson (látinn), Guðrún Karlsdóttir (látin) og Stefanía Björk Karlsdóttir, maki Stefán Arnar Kárason.

Anna var gift Piergiorgio Segatta, veitingamanni frá Trento á Ítalíu, f. 20. febrúar 1937. Foreldrar hans voru hjónin Piera Nonnes Segatta og Tullio Segatta. Þau bjuggu í Trento á Ítalíu.

Börn Önnu og Piergiorgio eru: 1) Tullia Emma, f. 13. janúar 1961, gift Alan James Winrow, f. 15. október 1956, d. 23. júlí 2013. Tullia á Önnu Lydiu með Sigurði Árnasyni. Tullia og Alan eiga Patrick Karl, Söru Jane og Emmu Louise. Barnabörnin eru sex. 2) Sveinn Giovanni Segatta, f. 11. nóvember 1962. Sveinn á Vigdísi Björk með Regínu Berndsen og eru barnabörnin þrjú. 3) Piero Giuseppe Segatta, f. 26. apríl 1964. Piero á Ragnar Davíð, Viktor Smára og Róbert Karl með Bergþóru Ragnarsdóttur. Barnabörnin eru tvö. 4) Stefán Karl Segatta, f. 31. ágúst 1969. Giftur Steinunni Guðnýju Sveinsdóttur, f. 14. janúar 1973, og eiga þau Orra Svein, Heiðdísi Huld og Ævar Daða.

Anna ólst upp á Vesturgötu 17 á Seyðisfirði (inniá Bakka) og gekk í barnaskólann á Seyðisfirði. Árið 1952 fór Anna í vist hjá Guðnýju móðursystur sinni í Borgarnesi. Anna vann við ýmis störf þar til hún fór til Zürich árið 1958 og réð sig þar sem au-pair. Þar kynntist hún fyrrverandi eiginmanni sínum Piergiorgio Segatta og giftast þau á Ítalíu 5. nóvember 1959. Þegar ungu hjónin fluttust til Íslands leigðu þau fyrst íbúð hjá Gunnu og Bjarna í Garðsenda 15.

Árið 1968 keyptu þau íbúð í Hraunbæ 98. Þau slitu samvistum árið 1976. Anna vann við ýmis verslunar- og þjónustustörf, til að mynda hjá Blómastofu Friðfinns og á Dagblaðinu.

Árið 1988 giftist Anna seinni eiginmanni sínum Sigurði Haraldssyni, f. 17. janúar 1929. Þau skildu árið 1998.

Anna bjó börnum sínum gott heimili og helgaði sig fjölskyldu sinni og sinnti ávallt heimilishaldi og uppeldi af ósérhlífni og dugnaði. Anna var glæsileg og mikið snyrtimenni og lagði alla tíð mikinn metnað í að vera vel til höfð og eiga fallegt og snyrtilegt heimili. Það var ekki sjaldan sem hún tók upp snið úr erlendum tímaritum og saumaði eftir þeim.

Útför Önnu fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 21. mars 2024, klukkan 13.

Streymi á: www.mbl.is/andlat

Yndislega og glæsilega mamma mín. Hetjan mín, kraftmikla kjarnakona sem stóðst ávallt keik sama hvað dundi á. Settir þig aldrei í fyrsta sæti, kletturinn okkar systkinanna í lífsbaráttunni. Söknuður minn er mikill.

Þú varst svo stolt af uppruna þínum, ljómaðir þegar þú sagðist vera frá Seyðisfirði, virðing fyrir foreldrum þínum var sterk og fjölskylda þín var þér kær. Það var gaman að hlusta á þig segja frá uppvaxtarárunum á Seyðisfirði, þar sem snemma kom í ljós að þér var ekki tamt að fara troðnar slóðir, montin af því að standa uppi í hárinu á móðurbræðrum þínum og stolt af fyrstu launuðu vinnunni 12 ára gömul við að breiða út saltfisk, enda handfljót og stór eftir aldri, náðir vel upp á síldarbrettin.

Snemma kom fram löngun þín til að ferðast, að fara tvisvar með Esjunni hringinn í kringum landið í skemmtiferðir bar vott um það. Snemma fluttistu suður og eftir fá ár á suðvesturhorninu lá leiðin til Sviss, þar sem þú réðst þig sem au-pair. Þér fannst lítið mál að skjótast af tannlæknastofunni hjá Halli yngri til heimsborgarinnar Zürich í ævintýraleit. Og þar bankaði ástin upp á.

Þrátt fyrir útþrána varstu ávallt áfram um að eiga heimili á Íslandi, ala hér þína fjölskyldu og það gerðirðu svo sannarlega takmarkalaust. Eftir að pabbi fór var ekkert annað að gera í þínum huga en bíta á jaxlinn og sýna æðruleysi. Ósérhlífnin einkenndi fas þitt og eina markmiðið var að halda fjölskyldunni saman, takast á við áskoranirnar með lausnum. Það skyldi koma gríslingunum á legg og ef ekki dugðu tvær vinnur var bætt við aukavöktum. Alltaf hélstu reisn og sjálfsvirðingin var sterk, glæsileikinn gaf lítið eftir í öldurótinu. Þú kvartaðir aldrei, sagðir þínar skoðanir umbúðalaust og kenndir okkur svo sannarlega að standa í lappirnar, elsku besta mamma mín. Við systkinin eigum þér mikið að þakka.

Þegar þú komst með okkur Piero til Ítalíu á áttræðisafmælinu var alzheimersjúkdómurinn að ná tökum á þér og fyrir mér var það eiginleg kveðjustund, dýrmæt kveðjustund. Eftir það fjaraði sterka konan Anna Karls út.

Sárt var að sakna raddar þinnar þegar ég hélt í þreytta hönd þína á banalegunni og fann þig svo nálægt hjarta mínu og það er sem hjartasár að þurfa að kveðja þig að lokum, hvílíkt mikið hef ég elskað þig, mamma mín. Samt gleðst ég yfir því að vita af þér í bjartri blómabrekkunni hjá góðum gengnum. Takk fyrir allt og allt.

Sveinn Segatta.

Amma mín, ef leitað væri í orðabók að þýðingu orðsins „lekker“, nú eða „elegant“, þá ætti að mínu mati að standa stórum stöfum Anna Friðrika Karlsdóttir.

Amma Karls eins og ég kallaði hana alltaf var stórglæsileg kona, ávallt svo fögur og fín. Hún var svo elegant, hávaxin með fallegt rautt hár, og aldrei langt frá var rauðleitur varalitur. Hún hafði gaman af tísku og tónlist. Við áttum nokkrar góðar stundir saman þar sem við skoðuðum tískutímarit og hlustuðum á Tony Bennett.

Þegar ég var yngri þótti mér fátt skemmtilegra en að fá að leika mér að skartinu hennar eða prófa eldrauðan Chanel-varalit. þá sagði hún við mig: Svakalega ertu lekker Annsapannsa mín. Amma Karls var ákveðin kona og oft heyrði maður þessi orð: Annsapannsa mín, mundu að maður er aldrei fínn nema maður sé í pússuðum skóm.

Amma ég er sammála þér!

Amma Karls var hörkudugleg, sterk, úrræðagóð og með fallegt hjartalag. Litla fjölskyldan þín, eins og þú kallaðir okkur, við kveðjum þig með söknuð í hjarta og þökkum þér fyrir allar þær dýrmætu stundir sem við áttum með þér.

Þín Annsapannsa og litla fjölskyldan,

Anna L. Sigurðardóttir.