Óttar Felix Hauksson skrifaði mér á þriðjudag með skákkveðju: Á morgun eru vorjafndægur. Af því tilefni sendi ég þér vísu í sléttuböndum sem ég setti saman: Doði hverfur bráðum blær, blíður sunnan andar

Óttar Felix Hauksson skrifaði mér á þriðjudag með skákkveðju: Á morgun eru vorjafndægur. Af því tilefni sendi ég þér vísu í sléttuböndum sem ég setti saman:

Doði hverfur bráðum blær,

blíður sunnan andar.

Roði sólar skírir skær

skrúða minnar strandar.

… og aftur á bak:

Strandar minnar skrúða skær

skírir sólar roði.

Andar sunnan blíður blær,

bráðum hverfur doði.

Eyjólfur Ó. Eyjólfsson segist hafa lesið furðulegan pistil á netmiðlinum Vísi um væntanlegar forsetakosningar. Þar var langur listi yfir alla þá sem langar á Bessastaði og annar styttri yfir þá sem ekki leggja í slaginn:

Ég íslensku þjóðina þekki

hún þolir ei smán eða hlekki

og svo hrifin af sér

í framboð hún fer,

en 11 gera það ekki.

Halldór Halldórsson skrifar: Eftir því sem fjölgar frambjóðendum til embættis forseta Íslands fer maður auðvitað að líta í kringum sig!

Þegar lít ég flóru frambjóðenda

og frægðar- sem þau telja mestu stig,

finnst mér þyrfti einhver á að benda;

að enginn sjónum beinir hvasst á MIG!

Á Boðnarmiði yrkir Einar Jónsson:

Sumir elska Sovét-Rússland sem er
dautt.

Gömlum siðum geta ei breytt,

greiða hár sem ei er neitt.

Hallmundur Guðmundsson yrkir Kanaríljóð. Dagur 35:

Hjá stelpunum „fittaði“ flott inn

er fór ég og sótti þvottinn.

Þó læk' af mér svitinn

og lýst á mér vitinn,

– þá langur var þvottahússpottinn.

Limra eftir Rúnar Thorsteinsson:

Þótt ég í móinn maldi

að myrkur sé veturinn kaldi.

Treysti ég því

að hann tapi á ný.

Nú er hann á undanhaldi.

Ingólfur Ómar Ármannsson bætti við:

Vetur sjóli virðist senn

vera á undanhaldi.

Þó að blási úti enn

austan strekkingskaldi.