Steina (1940) Of the North, 2001 Innsetning, stærð breytileg
Steina (1940) Of the North, 2001 Innsetning, stærð breytileg
Steina (Steinunn Bjarnadóttir Briem) hafði búið sig undir feril sem fiðluleikari þegar hún hlaut styrk til frekara hljóðfæranáms í Tékkóslóvakíu árið 1959. Árið 1962 kynntist hún þar verðandi eiginmanni sínum og starfsfélaga, Bohuslav [Woody]…

Steina (Steinunn Bjarnadóttir Briem) hafði búið sig undir feril sem fiðluleikari þegar hún hlaut styrk til frekara hljóðfæranáms í Tékkóslóvakíu árið 1959. Árið 1962 kynntist hún þar verðandi eiginmanni sínum og starfsfélaga, Bohuslav [Woody] Vasulka, verkfræðingi og kvikmyndagerðarmanni frá Brno í Móravíu, söðlaði um í listinni og fluttist með honum til New York. Þar stofnuðu þau The Kitchen árið 1971, þekktasta margmiðlunarleikhús heims, áður en þau þáðu saman kennarastöðu við margmiðlunardeild Ríkisháskóla New York-ríkis í Buffalo. Frá 1980 voru þau búsett í Santa Fe í Nýju-Mexíkó þar sem þau héldu áfram listsköpun sinni, sem mikilvægir frumkvöðlar á sviði vídeólistar. Woody lést árið 2019 en Steina starfar þar enn.

Árið 2001 lauk Steina við vídeóverk sitt Of the North (Af norðrinu), þar sem stórir hnettir hverfast um sjálfa sig með vélrænum hætti, spinnast fram og aftur með tilheyrandi málmkenndum hávaða eins og verið sé að saga járn. Hnettirnir voru upphaflega sýndir á 15 skjám í þremur röðum, en vorið 2008 var verkið sett upp með öðrum hætti í Tjarnarsal Listasafns Íslands, sem hluti af sýningunni List mót byggingarlist þar sem Steina var í hópi valinkunnra listamanna, íslenskra og erlendra. Hún sá að bogalaga gluggaumgjörð salarins, með fimm byrgðum gluggum, gat hýst jafnmarga hnetti Of the North, og með því að þekja gólf salarins með skínandi svörtum plastdúk spegluðust hnettirnir fimm í myrkvuðum salnum líkt og væru þeir tungl yfir lygnu vatni. Með þeirri staðbundnu umgjörð öðlaðist verkið nýja vídd í tengslum við formgerð hússins.

Kveikjur verksins eru margs konar og má meðal annars greina ýmsar hliðar náttúrunnar í spuna hnattanna, gróðurfar, hvera- og jarðeldagufur, farfugla og vatnsstreymi. Of the North er því að mörgu leyti óður til höfuðskepnanna um leið og verkið tekur mið af rómuðum útvarpsþætti kanadíska píanistans Glenns Goulds, The Idea of North (Hugmyndin um norðrið) frá 1967, fyrsta hluta Einveruþríleiks hans um áhrif norðursins á vitund hans sem Kanadamanns. Rétt eins og Gould nýtir Steina sér norðrið sem myndrænt viðmið, eins og margir Íslendingar hugsa sér óbyggðir landsins sem hugmyndalegan bakhjarl og vitundarlegan höfuðstól. Fæst höfum við kannað víðerni öræfanna að einhverju ráði en samt vitum við af þeim og þau blása okkur í brjóst anda sem við teljum mikilvægan fyrir sjálfsvitund okkar.