Litir Á veggjum, myndröð ívars Brynjólfssonar, „Gagnsæir litir“, frá 1996/2010. Á gólfi, hluti af innsetningu Ragnheiðar Gestsdóttur, „Habitus“ frá 2021.
Litir Á veggjum, myndröð ívars Brynjólfssonar, „Gagnsæir litir“, frá 1996/2010. Á gólfi, hluti af innsetningu Ragnheiðar Gestsdóttur, „Habitus“ frá 2021. — Ljósmyndir/Hlynur Helgason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Gerðarsafn Venjulegir staðir / Venjulegar myndir ★★★★· Listamenn: Emma Heiðarsdóttir, Haraldur Jónsson, Ívar Brynjólfsson, Joe Keys, Kristín Sigurðardóttir, Lukas Kindermann, Ragnheiður Gestsdóttir og Tine Bek. Sýningarstjórn: Brynja Sveinsdóttir og Hallgerður Hallgrímsdóttir. Sýningin stendur til 31. mars 2024. Opið alla daga milli kl. 12 og 18.

Myndlist

Hlynur

Helgason

Í Gerðarsafni í Kópavogi stendur nú yfir áhugaverð sýning á myndverkum sem beina athyglinni að því fábreytta og óáhugaverða í umhverfinu, hlutum og atburðum sem eru eins og í jaðarsjón okkar þegar við störum á það sem vekur athyglina. Listamenn sýningarinnar einbeita sér að því sem ósennilegt er að aðrir tækju eftir eða veittu eftirtekt.

Kveikja þessara hugmynda um hliðarveruleika hversdagsins eru ljósmyndir Ívars Brynjólfssonar. Hann hefur um árabil komið fram með skýra myndsýn þar sem myndefnið er laust við dramatík eða háleitar hugmyndir. Nokkrar myndraðir Ívars eru rauði þráðurinn í sýningunni. Hafa skipuleggjendur hennar kallað til aðra listamenn sem vinna verk sem eru í samhljómi við hugsýn Ívars um túlkun veruleikans.

Verk Ívars „Myndir af venjulegum stöðum“ er lykilverk sýningarinnar. Ívar gerði verkið 1990-1991. Þetta er hefðbundið ljósmyndaverk. Myndirnar eru teknar innandyra í stofnunum og stigagöngum, á stöðum þar sem fólk staldrar sjaldan við. Hver mynd er merkt með titli sem gefur til kynna staðsetninguna. Þótt umhverfið sé hversdagslegt er því sýnd virðing í myndunum, í framsetningu, myndbyggingu og efnistökum, í þeim er galdur, þrátt fyrir allt.

Myndröð Ívars „Gagnsæir litir“, upphaflega frá 1996, setur mark sitt á austursalinn. Myndirnar voru teknar innan í ferðatjöldum sem voru uppstillt við útivistarverslanir; fátt getur verið hversdagslegra. Abstrakt uppbygging verkanna, sterk einföld formheild og litadýrð gerviefnanna gerir það að verkum að það virkar eins og verk úr steindu gleri, nokkuð sem sómir sér vel í Gerðarsafni.

Í myndröð Ívars „Bláfjöll frá 2014-16“ er það grásvartur veruleiki skíðasvæðisins sem er fyrirmyndin, kaldranalegur iðnaðarveruleiki er eftir þegar snjóinn hefur leyst og mannvirkin sitja ónotuð eftir. Þetta okkur áminning um að allt okkar brölt og metnaður í framkvæmdum sé einfaldlega hjóm eitt.

Emma Heiðarsdóttir á skemmtilega innkomu á sýningunni með nokkrum verkum. Í vídeóverkinu „Strá“ frá 2018 leikur hún sér á bernskan hátt með hugmynd um teikningu, en verkið sýnir strá sem kastað er ofan í ósnortinn snjóinn þar sem þau teikna sig tifandi í yfirborðið. „Átta skrúfur“ frá 2023 vinnur með mikla naumhyggju. Verkið er einfaldlega fjögur tilbrigði af mögulegum útfærslum á því þegar ferningslaga flötur er festur á vegg. Hér er unnið með flöt híbýlanna, heimilisendurbætur, sem á kerfisbundinn hátt er gerður að listrænu viðfangsefni.

Myndheild Tine Bek „The vulgarity of being three-dimensional“ frá 2022 er skemmtileg andstaða við kerfisbundin verk Ívars. Í meðförum Tine er hversdagslegur veruleiki túlkaður í gegnum léttar myndhugmyndir þar sem hún teflir saman hugdettum. Hver mynd er eins konar vígnetta, þar sem ólíkir hlutir og líkamar spila saman og skapa heildarmynd seríunnar. Í austursalnum, í „Butter“ frá 2022, eru verkin einfaldar ljósmyndir þar sem myndefnið er látlausar formrænar myndtilraunir unnar í smjör. Myndirnar eru kyrralífsmyndir, létt-fáránlegar kyrralífsmyndir sem hafa margar skírskotun í sögu listarinnar.

Myndir Kristínar Sigurðardóttur, „Hringfari“, frá 2023, eru áberandi í austursalnum. Þetta eru óvenjulegar landslagsmyndir þar sem myndefnið leitast við að vera þekkjanlegt. Myndirnar byggjast á hugmyndum um naumhyggju, eru tjáning á möguleikum óskýrrar sýnar sem skapar hughrif og tilfinningar um draumkenndan veruleika.

„Langar ljósmyndir“ Haraldar Jónssonar, í vídeóverkaröðinni
„@haraldur2525“, eru áhugaverð hugmynd um hversdagslega upplifun. Það er því miður að þær njóta sín engan veginn á sýningunni vegna þess að skjávarparnir eru allt of veikir til að geta mótað myndina á veggnum sem henni er varpað á. Viðkvæmt efni þessara smámynda hefði þurft mun betri uppsetningu til að njóta sín.

Í Gerðarsafni er búið að setja saman skemmtilega sýningu á grundvelli myndhugmynda sem eru síður en svo auðveldar í framsetningu. Þótt vissulega séu gallar á framsetningunni er sýningin í heildina sterk. Myndir Ívars Brynjólfssonar koma vel út sem kjölfesta sýningarinnar og það er áhugavert að sjá hvernig aðrir listamenn, honum yngri, eru einnig að vinna með nálgun við hversdagsleikann á áhrifaríkan hátt.