Tónsmíðar „Ég spinn við píanóið og leyfi innsæinu að ráða för,“ segir píanóleikarinn Ingi Bjarni Skúlason.
Tónsmíðar „Ég spinn við píanóið og leyfi innsæinu að ráða för,“ segir píanóleikarinn Ingi Bjarni Skúlason. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Uppspretta tónlistar er dularfull. Hún er eins konar dulið tungumál sem tónskáld leitast við að afhjúpa. Verkefni þeirra er að afkóða þessar glefsur af tónbrotum og umbreyta þeim í eitthvað skiljanlegt – í tónlist

Ragnheiður Birgisdóttir

ragnheidurb@mbl.is

„Uppspretta tónlistar er dularfull. Hún er eins konar dulið tungumál sem tónskáld leitast við að afhjúpa. Verkefni þeirra er að afkóða þessar glefsur af tónbrotum og umbreyta þeim í eitthvað skiljanlegt – í tónlist. En til að skilja og vinna úr þessari uppsprettu er þörf á göldrum. Þegar best lætur, þá er tónlistarfólk galdrafólk sem vinnur með þennan efnivið, sem er oft brothættur,“ skrifar Ingi Bjarni Skúlason í kynningartexta um sjöttu plötu sína Fragile Magic, sem kemur út í dag.

„Þetta er hálfgerð myndlíking. Að tónlist sé dulið tungumál sem við, sem semjum tónlist, erum að reyna að kryfja. Það er kannski meira til gamans gert að setja upp þessa myndlíkingu en mér finnst skemmtilegt að hugsa um þetta svona, að við séum í rannsóknarvinnu þegar við erum að spinna tónlist og semja,“ segir tónskáldið í samtali við Morgunblaðið.

Um þá hugmynd að tónlist sé brothættur efniviður segir hann: „Ég held því fram að maður þurfi ákveðið næmi þegar maður er að semja og hlusta á músík. Ef maður hlustar ekki nógu vel er maður ekki nógu næmur.“

Tríóinu fylgir frelsi

Tónlistin á plötunni er samin fyrir tríó og með Inga Bjarna, sem leikur á píanó, spila þeir Magnús Trygvason Eliassen á trommur og Færeyingurinn Bárður Reinert Poulsen á kontrabassa.

„Við tókum upp plötu árið 2017 og spiluðum í Færeyjum en svo hefur kannski ekki mikið verið í gangi hjá akkúrat þessari hljómsveit þar til nú. Ég á við það vandamál að stríða að semja of mikið af músík. Þess vegna er ég líka með kvintett og kvartett. Ég þarf að hafa margar hljómsveitir til þess að geta komið öllu frá mér,“ segir Ingi Bjarni. Þess má geta að platan Farfuglar, sem hann samdi fyrir kvintett, hlaut nýlega tilnefningu til Íslensku tónlistarverðlaunanna sem djassplata ársins 2023.

„Á vissan hátt gefur tríóið meira frelsi í spuna og tjáningu því það eru færri hljóðfæri. Bara það gefur strax meira rými. Samt held ég að það sé einhver rauður þráður í minni tónlist, ákveðið hugarfar, sama með hvaða hljómsveit ég vinn.“

Hann segist helst vilja vinna með fólki sem er gætt fyrrnefndu næmi. „Ef ég heyri eða sé að einhver er gjörsamlega á skjön við hvernig ég hugsa eða nálgast tónlist þá sé ég það ekki ganga upp. En þeir í tríóinu og þau í kvintettnum eru öll mjög næm á tónlist og það er það sem ég vil, að allir séu næmir og hlusti vel.“

Spurður hvort Fragile Magic sé ólík fyrri plötu hans með tríóinu segir hann: „Það hefur náttúrlega alls konar gerst síðan 2017 í lífinu og í tónlistinni. Sú plata sem var tekin upp þá var kannski meira í ætt við að spinna yfir hljómaganga, sem er týpískt í djassinum, en þessi nýja plata er meira byggð á frjálsum spuna og spuna yfir „vömp“ í staðinn fyrir hljómaganga. Þá eru sömu hljómarnir endurteknir.“

Kjarni tónlistararfsins

Tónlistina á Fragile Magic segir Ingi Bjarni vera undir áhrifum frá norrænum þjóðlögum og djassi með miklu spunaívafi.

„Ég bjó í Svíþjóð sem krakki. Ég veit ekki hvort það hafði eitthvað með það að gera að ég fór að hlusta á sænsk þjóðlög þegar ég flutti til Íslands og þá sérstaklega sænsku þjóðlagaplötuna Jazz på svenska. Ég varð fyrir miklum áhrifum af henni. Svo hef ég áhuga á alls konar þjóðlagatónlist, hvort sem hún er norræn eða ekki. Öll þjóðlagatónlist tengist fyrir mér. Á vissan hátt held ég að þjóðlagatónlist sé tímalaus tónlist, hún geti átt við á hvaða tímabili sem er og fólk geti tengt við hana, að hún sé kjarninn í tónlistararfi heimsins.“

Spurður út í tónsmíðaferlið segist hann ekki setjast niður gagngert til þess að semja. „Ég spinn við píanóið og leyfi innsæinu að ráða för. Ef ég heyri eitthvað flott sem ég hugsa að ég gæti unnið með síðar þá tek ég það upp á símann minn. Það er mikið hægt að velta fyrir sér hvernig og af hverju ég sem músík. Þetta er dálítill spegill á það sem er að gerast í lífi mínu, á fólk sem ég þekki, minningar eða langanir eða hvað sem það er. Þetta er leið fyrir sjálfan mig til að tjá mig bæði meðvitað og ómeðvitað. Það er einhver prósess sem gerist hjá mér í spuna, ýmist einn heima hjá mér eða með öðrum.“

Ingi Bjarni og félagar halda útgáfutónleika hinn 17. júlí í Hörpu. Frekari upplýsingar um tónskáldið og plötuna Fragile Magic má finna á ingibjarni.com.