Höllin Anðela Strize úr Njarðvík með boltann í Laugardalshöllinni í gær. Íslenska landsliðskonan Birna Valgerður Benónýsdóttir sækir að henni.
Höllin Anðela Strize úr Njarðvík með boltann í Laugardalshöllinni í gær. Íslenska landsliðskonan Birna Valgerður Benónýsdóttir sækir að henni. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Keflavík tryggði sér í gærkvöldi sæti í úrslitaleik bikarkeppni kvenna í körfubolta með sannfærandi 86:72-sigri á grönnum sínum í Njarðvík í fyrri leik undanúrslitanna í Laugardalshöllinni. Keflvíkingar mæta annaðhvort öðrum grönnum í Grindavík eða…

Keflavík tryggði sér í gærkvöldi sæti í úrslitaleik bikarkeppni kvenna í körfubolta með sannfærandi 86:72-sigri á grönnum sínum í Njarðvík í fyrri leik undanúrslitanna í Laugardalshöllinni.

Keflvíkingar mæta annaðhvort öðrum grönnum í Grindavík eða Þór frá Akureyri í úrslitum á laugardaginn kemur en leikur þeirra var að hefjast þegar blaðið fór í prentun í gærkvöldi.

Keflavík hefur borið höfuð og herðar yfir önnur lið á tímabilinu og hefur liðið þegar tryggt sér deildarmeistaratitilinn, enda með tíu stigum meira en Njarðvík og Grindavík sem eru í öðru og þriðja sæti.

Keflavík er sigursælasta lið bikarkeppninnar frá upphafi með 15 bikartitla, en sá síðasti kom árið 2018, er liðið varði bikartitilinn.

Birna Valgerður Benónýsdóttir og Daniela Wallen voru stigahæstar hjá Keflavík með 17 stig hvor.

Hjá Njarðvík skoraði Selena Lott mest, eða 29 stig. Jana Falsdóttir kom þar á eftir með 10 stig.