Samið Ásmundur og Einar Oddur handsala samninginn aðfaranótt 2. febrúar. Á milli þeirra er Haukur Halldórsson, formaður Stéttarsambands bænda.
Samið Ásmundur og Einar Oddur handsala samninginn aðfaranótt 2. febrúar. Á milli þeirra er Haukur Halldórsson, formaður Stéttarsambands bænda. — Morgunblaðið/Sverrir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
1990 „Hafa unnið í einlægni að því að brjóta nýjar brautir í samskiptum verkalýðshreyfingar og vinnuveitenda.“ Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins

Baksvið

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Á dögunum var skrifað undir kjarasamninga milli fjölmennustu verkalýðsfélaga landsins og Samtaka atvinnulífsins. Við samningagerðina var gjarnan vitnað til hins svokallaða þjóðarsáttarsamnings sem undirritaður var 2. febrúar 1990. Hann markaði alger tímamót í sögu Íslands. Nýgerðir samningar eru á svipuðum nótum.

Með samningum 1990 tókst loksins að koma böndum á óðaverbólguna sem hafði geisað í landinu í tvo áratugi. Hún náði hámarki árið 1983. Hækkun verðlags milli ára mældist 84% og verðbólguhraðinn innan ársins fór í 130%. Laun höfðu árum saman hækkað samkvæmt vísitölu á þriggja mánaða fresti, um allt að 15% í hvert sinn. Og allt verðlag hækkaði jafnharðan. Þeir sem muna þessa tíma skilja ekki í dag hvernig þetta gat gengið svona árum saman.

„Á tímabilinu 1980-1989 hækkuðu laun að meðaltali (SA) um 1.300% en verðlag um tæp 1.500% þannig að kaupmáttur launa minnkaði um 11%. Vart þarf að taka fram að verðbólgan lék þá verst sem minnst höfðu milli handanna.“

Þetta sagði Halldór Benjamín Þorbergsson, þáverandi framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í grein sem birtist í Morgunblaðinu á 30 ára afmæli þjóðarsáttarsamningsins.

Í samfelldu uppnámi

Fyrir þjóðarsáttina sem svo hefur verið kölluð voru skammtímasamningar reglan og þjóðfélagið í samfelldu uppnámi vegna kjaradeilna, bætir Halldór Benjamín við. Íslendingar hafi verið heimsmeistarar í verkföllum á áttunda og níunda áratug síðustu aldar og tjón vegna verkfalla gífurlegt.

„Í aðdraganda þjóðarsáttarinnar voru fólk og fyrirtæki orðin örmagna í endalausu kapphlaupi við verðbólguna, stjórnvöld ráðalaus og aðgerðir þeirra gegn henni höfðu engu skilað. Fólk var þrúgað af sífelldum hækkunum verðtryggðra íbúðalána og þungri greiðslubyrði af himinháum skammtímavöxtum.“

Í viðræðum Vinnuveitendasambands Íslands (nú SA) og ASÍ síðla árs 1989 náðist samstaða um helstu markmið nýs kjarasamnings sem voru að kveða niður verðbólgu, sporna við atvinnuleysi, skapa skilyrði fyrir vaxtalækkun og verja kaupmátt.

Nýir kjarasamningar Alþýðusambands Íslands, Vinnuveitendasambands Íslands og Vinnumálasambands samvinnufélaganna voru undirritaðir klukkan eitt aðfaranótt 2. febrúar, en samningafundur hafði þá staðið yfir óslitið í 40 klukkustundir. Morgunblaðið var með frétt um samninginn og viðbrögð við honum ásamt mynd á baksíðunni strax sama daginn. Blaðið hefur því farið seint í prentun þessa nóttina!

Ásmundur Stefánsson forseti ASÍ sagði við Morgunblaðið um nóttina að það skipti höfuðmáli að ná stöðugleika og tryggja atvinnuöryggi.

„Með þessum samningi erum við að leitast við að ná verðbólgu niður. Við fáum fram stórlækkun nafnvaxta, tryggjum óbreytt búvöruverð, drögum úr hækkun á opinberri þjónustu og náum árangri í verðlagsmálum almennt. Auðvitað verður reynslan að skera úr um hver niðurstaðan verður, en ég held að við séum með samning í höndunum sem getur skilað okkur verulegum árangri,“ sagði Ásmundur.

Einar Oddur Kristjánsson formaður VSÍ sagðist líta svo á að undirskrift kjarasamninganna væri fyrsta skrefið á langri leið til að byggja upp farsælt þjóðfélag með von um efnahagslegar framfarir.

„Þetta verður erfið leið og þröng, það þarf geysimikla nákvæmni til að þetta geti gengið og allir þurfa að leggja hart að sér. En það er von, ef við förum þessa leið og það hvatti okkur, því annars hefði ekkert annað blasað við en vonleysi,“ sagði Einar Oddur.

Umsamin launahækkun 9,5%

Samningurinn gilti frá 1. febrúar 1990 til 15. september 1991, eða í tæplega 20 mánuði. Umsamin launahækkun á samningstímanum var 9,5% en hækkaði í tæplega 12% vegna rauðra strika sem miðuðu við hækkun verðlags umfram verðbólguspár samningsaðila. BSRB og ríkið gengu frá nýjum kjarasamningi á sömu nótum daginn eftir.

Ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar gaf út yfirlýsingu í 12 liðum til að greiða fyrir samningum. Meðal annars var dregið úr sköttum og gjaldskárhækkunum opinberra fyrirtækja og tryggt óbreytt verð á landbúnaðarvörum.

Gert var ráð fyrir 6-7% verðbólgu á fyrra ári samningsins, sem varð raunin, og var það í fyrsta sinn í áratugi að verðbólga mældist ekki í tveggja stafa tölu. Einar Oddur var spurður að því í sjónvarpi hvort þetta væri sögulegur samningur. Hann svaraði því til að samningur yrði ekki sögulegur nema markmiðum hans væri náð. Það tókst og samningurinn telst vera einn sá sögulegasti í Íslandssögunni og oft til hans vitnað.

í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins laugardaginn 3. febrúar var samningunum fagnað. Þar stóð m.a:

„Þetta breytta og jákvæða andrúm í samskiptum verkalýðs og vinnuveitenda er fyrst og fremst verk þriggja manna, þeirra Einars Odds Kristjánssonar, formanns Vinnuveitendasambands Íslands, Guðmundar J. Guðmundssonar, formanns Dagsbrúnar og Verkamannasambands Íslands, og Ásmundar Stefánssonar, forseta Alþýðusambands Íslands. Að baki þeim kjarasamningum, sem nú hafa verið gerðir, liggja margra mánaða persónuleg samtöl á milli þessara þremenninga, sem hafa talað saman, kynnzt lífsviðhorfum og sjónarmiðum hver annars, myndað trúnaðarsamband sín í milli og unnið í einlægni að því að brjóta nýjar brautir í samskiptum verkalýðshreyfingar og vinnuveitenda.“

Hér hélt Styrmir Gunnarsson ritstjóri á penna.

Viðbrögð fólks um land allt voru á sömu lund. Samningnum var fagnað. Nýlega fór verðbólgan í 10% og olli miklum áhyggjum. Ungt fólk í dag skilur ekki hvernig fólki tókst „að lifa“ á tímum 100% verðbólgu.