Skúlptúr Frá opnun sýningar á verkum Hreins Friðfinnssonar í Listasafni Reykjavíkur 2007 með sömu verkum og voru sýnd í Serpentine Gallery í London. Í forgrunni er skúlptúrverkið „Án titils (swimmer)“.
Skúlptúr Frá opnun sýningar á verkum Hreins Friðfinnssonar í Listasafni Reykjavíkur 2007 með sömu verkum og voru sýnd í Serpentine Gallery í London. Í forgrunni er skúlptúrverkið „Án titils (swimmer)“. — Morgunblaðið/G.Rúnar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hreinn lagði líka áherslu á að hann vildi ekki vera með neinar skýringar eða kenningar um eigin verk. Hann setti þau bara fram fyrir okkur að upplifa og skynja.

Af myndlist

Einar Falur Ingólfsson

einarfalur@gmail.com

Þrátt fyrir að hafa verið búsettur á meginlandi Evrópu í meira en hálfa öld, í Amsterdam, þá var Hreinn Friðfinnsson í hjarta sínu alltaf strákur úr Dölunum. Foreldrar hans voru bændur á Bæ í Miðdölum og áhrif og upplifanir úr æsku leituðu alla tíð með einhverjum og vissulega misaugljósum hætti í verk hans. Þegar við Hreinn ræddum saman í Reykjavík fyrir rúmlega tuttugu árum, þegar verið var að opna tvær sýningar með verkum hans í borginni, á splunkunýjum verkum í galleríi hans, i8, og yfirlitssýningu í hinni merku samtímalistastofnun Safni, þá sagði hann einhvern hluta af sér aldrei hafa yfirgefið Dalina.

„Ég ólst upp við sögur um umhverfið, eins og álfasögurnar,“ sagði hann. „Þegar ég fór að gerast þátttakandi í listalífinu og hugsa um hvað var að gerast í listinni og umhverfinu á þeim tíma fór ég fljótlega að tengja mig við þennan sagnaheim. Á fyrstu einkasýningu minni, árið 1971, voru eingöngu álagablettir; tólf ljósmynda- og textaverk.

Mér fannst þetta alveg eiga heima í því andrúmslofti sem var í myndlistinni á þeim tíma. Það var verið að tala um konseptúalisma, land-art og annað slíkt, en mér fannst þetta bara upplagt efni í verk og það stóð mér nærri. Það var rótin og um leið samtíminn sem ég andaði að mér.“

Hreinn lést í Amsterdam 6. mars síðastliðinn, 81 árs að aldri. Hann hafði árum saman glímt við heilsubrest, fór ferða sinna í hjólastól og átti því illa heimangengt, en vann samt af sinni leiftrandi hugkvæmni til síðustu stundar að myndlistinni og naut við það aðstoðar fólks heima fyrir en einnig hvar sem verk hans voru sett upp. Síðustu einkasýningu Hreins var nýlokið í Ásmundarsal þegar hann lést. Á henni var áhrifamikil innsetning, „Klettur“ (2014-2024), verk sem í fólust allrahanda vísanir í myndlistarferil hans. Til að mynda var það sett upp á sama stað og fyrsta verkið sem Hreinn sýndi á fyrstu sýningu nýstofnaðs SÚM-hópsins árið 1965 og svo voru í „klettinum“ allskyns myndrænar hugleiðingar um tímann, sem var eitt meginviðfangsefni verka Hreins, og tilvísanir í nokkur eldri verk hans.

Nokkrum dögum eftir lát Hreins var tilkynnt við afhendingu Íslensku myndlistarverðlaunanna að hann hlyti heiðursviðurkenningu Myndlistarráðs fyrir ævistarfið, verðlaun sem veitt hafa verið listamönnum sem hafa auðgað íslenskt myndlistarlíf. Hreini hafði verið tilkynnt að hann hlyti viðurkenninguna en í umsögn valnefndar segir að allt frá 1965 hafi hann verið mikilvægur þátttakandi í íslensku listalífi og „einn af virtustu listamönnum íslenskrar listasögu.“

Gleymdi SÚM-tímanum

Hreinn yfirgaf Dalina þegar hann hélt til náms við Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1958. Hann var, eins og áður segir, einn stofnenda SÚM 1965 og kom einnig að stofnun Gallerís SÚM fjórum árum síðar. Hann lagði stund á listnám í Róm og í Limoges í Frakklandi. Þrátt fyrir að hafa sest að í Amsterdam 1971 var Hreinn sínálægur í íslensku myndlistarlífi, var einn merkasti listamaður þjóðarinnar undanfarna áratugi, setti upp fjölda einkasýninga á mörgum sýningarstöðum gegnum árin og átti verk á enn fleiri samsýningum. Yfirlitssýningar á verkum Hreins hafa líka verið settar upp í helstu söfnum hér en hann naut líka mikillar virðingar erlendis og settar voru upp sýningar á verkum hans víða um lönd. Meðal annars fékk sýning Hreins í Serpentine Gallery í London árið 2007 mikið lof, eins og sýningar í Kyoto-listasafninu í Japan, KW-samtímalistastofnuninni í Berlín og Samtímalistasafninu í Miami. Meðal viðurkenninga sem Hreinn hlaut má nefna hin virtu Ars Fennica-verðlaun árið 2000, Carnegie Art Award sama ár og heiðursverðlaun Myndstefs hlaut hann 2007.

Ljósmyndir og textar voru mikilvægur efniviður verka Hreins framan af, svo urðu þau iðulega skúlptúrtengdari og í formi lágmynda, kristallar og gler áberandi, svo vídeó jafnvel og hólogram, en alltaf einkenndi þau jarðtengd ljóðræna og fallegar sammannlegar vísanir. Í einu samtali okkar talaði Hreinn um að afgreiða í verkum sínum ýmislegt úr fortíðinni. „Ég kem þessum minningum og gamla veruleika frá mér og á þennan myndlistarvettvang,“ sagði hann. Og bætti við að hann leitaði oft eftir umbreytingu og mætti kalla það áráttu; að færa hluti úr sínu venjubundna samhengi í eitthvað annað. Og sú breyting var iðulega ljóðræn, falleg og óvænt. En Hreinn lagði líka áherslu á að hann vildi ekki vera með neinar skýringar eða kenningar um eigin verk. Hann setti þau bara fram fyrir okkur að upplifa og skynja.

Hreins er iðulega minnst sem eins stofnenda SÚM-hópsins, sem kom á miðjum sjöunda áratug umtalsverðri ólgu í íslensku listalífi og ögraði mörgum. En Hreinn hafði engan áhuga á að dvelja í þeim gamla tíma, til þess var hugur hans allt of frjór og framsýnn.

„Veistu, ég er búinn að gleyma SÚM. Ég hef ekki hugsað um SÚM síðan nítján hundruð sjötíu og eitthvað. Þá var hópurinn einfaldlega lagður niður. Ég er voðalega lítill fortíðarsinni,“ sagði Hreinn þegar hann var nýorðinn sextugur. Þótt hann væri þá stundum að grufla í fortíðinni með nýjum ljósmynda- og textaverkum, þá væri það aldrei af fortíðarþrá. „Ég varð mjög feginn þegar þessi SÚM-tími var að baki. Það var bara stutt tímabil í minni lífsreynslu.“

Fyrir áratug var frumsýnd kvikmyndin æ ofaní æ sem sýningarstjórarnir Markús Þór Andrésson og Ragnheiður Gestsdóttir gerðu út frá ævi og listsköpun Hreins. Við frumsýningu myndarinnar var opnuð yfirlitssýning á verkum hans í Nýlistasafninu og var á dagskrá Listahátíðar í Reykjavík. Þau Markús Þór og Ragnheiður sögðu þá að list Hreins höfðaði með áhrifaríkum hætti til sammannlegra þátta.

„Þetta eru persónulegar vangaveltur um lífið og tilveruna sem allir hljóta að velta fyrir sér á lífsleiðinni. Um tengslin við umheiminn í stóru sem smáu, einstaklinginn gegn alheiminum og þessar ógnarstóru og óskiljanlegu víddir í tíma og rúmi sem umlykja okkur. Staðsetningin á þessari plánetu sem hringsnýst. Hreinn tekst á við spurningar um allt þetta á laufléttan hátt, með húmor og af gleði, og opnar á það nýja sýn í verkunum. Það er mikil gjöf til okkar sem njótum listar hans. Hreinn hefur sérstaka sýn á lífið. Hann er forvitinn um allt og alltaf opinn fyrir nýjum hugmyndum, er ótrúlega frjór.“

Fjölbreytileg og ljóðræn verk Hreins munu lifa en hann var í samtölum alltaf hógværðin uppmáluð og lagði áherslu á að okkar væri að upplifa verkin, ekki hans að koma með neinar útleggingar. „Eins og með flestallt annað sem ég geri, þá eru þetta meira og minna tilviljanir,“ sagði hann.