[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Åge Hareide, þjálfari karlalandsliðsins í knattspyrnu, var spurður í þaula af ísraelskum fréttamönnum um fyrri ummæli sín um leikinn gegn Ísrael á fréttamannafundi íslenska liðsins í Búdapest í gær

Åge Hareide, þjálfari karlalandsliðsins í knattspyrnu, var spurður í þaula af ísraelskum fréttamönnum um fyrri ummæli sín um leikinn gegn Ísrael á fréttamannafundi íslenska liðsins í Búdapest í gær. Hareide svaraði að hann kæmi frá þjóð þar sem málfrelsi ríkir en sumt af því sem hann hefði sagt um leikinn og Ísraelsmenn á pólitískum nótum hefði skolast til í þýðingu og verið tekið úr samhengi.

Hareide sagði aðalmálið að frelsa gíslana, hætta stríðsátökum og koma á friði. Ísland væri að fara að spila við ísraelska fótboltamenn, ekki ísraelsku þjóðina. „Þetta eru knattspyrnumenn eins og við og ég tel ekki rétt að fara út í pólitískar umræður í kringum þennan leik,“ sagði Hareide meðal annars.

Belgíski knattspyrnumaðurinn Thibaut Courtois, markvörður Real Madríd, þurfti að fara undir hnífinn að nýju eftir að hann reif liðþófa í hægra hné á æfingu með liðinu. Courtois sleit krossband í vinstra hné í ágúst síðastliðnum og gekkst undir skurðaðgerð af þeim sökum. Hann hafði nýlega hafið æfingar að nýju með spænska stórliðinu en fór í aðra aðgerð eftir að hann reif liðþófa.

Brasilíska knattspyrnumanninum Dani Alves verður sleppt gegn tryggingu eftir að hann var í síðasta mánuði dæmdur til fjögurra og hálfs árs fangelsisvistar í Barcelona á Spáni fyrir að nauðga konu á skemmtistað þar í borg. Daily Mail greinir frá því að Alves hafi áfrýjað dómnum og verði sleppt gegn tryggingu upp á eina milljón evra, sem jafngildir 149 milljónum íslenskra króna.

Þýski knattspyrnumarkvörðurinn Manuel Neuer hefur neyðst til að draga sig úr landsliðshópi þjóðar sinnar vegna meiðsla sem hann varð fyrir á æfingu landsliðsins. Hinn 37 ára gamli Neuer verður því ekki með Þýskalandi í vináttuleikjum gegn Frakklandi og Hollandi á næstu dögum.

Japanski knattspyrnumaðurinn Takehiro Tomiyasu hefur skrifað undir nýjan samning við enska félagið Arsenal. Nýi samningurinn gildir til sumarsins 2026 með möguleika á einu ári til viðbótar. Tomiyasu er 25 ára gamall varnarmaður sem leikur oftast í stöðu hægri bakvarðar en getur leyst allar stöður í öftustu víglínu. Hann gekk til liðs við Arsenal sumarið 2021 og hefur spilað 73 leiki í öllum keppnum fyrir liðið.