Róbert Spanó
Róbert Spanó
Manneskja verður ekki skilgreind eftir húðlit, kyni, þjóðerni eða uppruna.

Róbert Spanó

Til Íslands hafa komið þúsundir útlendinga á undanförnum árum. Langflestir gera sitt besta, vinna sínu vinnu, eiga sér framtíð og drauma í nýju landi, hafa vilja til þess að læra og tileinka sér þær hefðir og þá menningu sem einkennir Ísland. Ekki er því ástæða til að andmæla stefnumótun sem tekur málefnalega og af jafnvægi mið af þeim tilvikum þar sem landslög eru ekki virt. Hart verður að taka á hvers kyns hópum, innlendum sem erlendum, sem hafa það eitt að markmiði að fremja glæpi. Frumvarp dómsmálaráðherra um breytingar á lögreglulögum er gott innlegg í þá umræðu. Þá er augljóst að landslög eiga með réttu að gera ráð fyrir brottvísun útlendinga sem fremja alvarleg lögbrot, enda samrýmist slík aðgerð mannréttindareglum. Um slík tilvik hefur Mannréttindadómstóll Evrópu fjallað í fjölmörgum málum á undanförnum árum. Loks er eðlilegt að íslenskt samfélag geri kröfu um að þeir sem vilja setjast hér að sýni raunverulegan vilja í verki til þess að verða nýtir þjóðfélagsþegnar og læra tungumálið, ekki síst þegar horft er til þess að við erum afar fámenn. Áralög reynsla mín af málum af þessu tagi er sú að skortur á slíkri pólitískri stefnumótun, sem hefur það að markmiði að koma í veg fyrir einangrun og útilokun þjóðfélagshópa, leiðir aðeins til glundroða og aukinnar hörku í mannlegum samskiptum.

Með þetta í huga, og nú þegar umræðan um útlendingamál er í brennidepli, er þó ástæða til að minna á tiltekin grundvallargildi sem afar brýnt er fyrir stjórnmálamenn og alla aðra að hafa í heiðri.

Manneskja verður ekki skilgreind eftir húðlit, kyni, þjóðerni eða uppruna. Þeir sem það gera horfa fram hjá mennskunni, horfa fram hjá því að hvert og eitt okkar fæðist inn í þennan heim sem manneskjur án þess að hafa nokkuð um þessi einkenni að segja. Ákall um að brugðist sé við fjölda útlendinga hér á landi með aðgerðum sem byggjast á uppskiptingu mennskunnar, á grundvelli almennra upphrópana um að allir af tilteknum húðlit, þjóðerni eða uppruna séu eins, varasamir, hættulegir, stríðir gegn þeim grundvallargildum sem samfélag okkar og stjórnarskrá byggist á. Svo það sé skýrt, með því er ekki haldið fram að stefnumótun í málefnum útlendinga sé ekki nauðsynleg eða tímabær, eins og að framan er rakið. En markmið slíkrar stefnumótunar má ekki vera ómennskan, andúðin og fordæmingin. Jafnvægi og meðalhóf, lögmæt markmið og virðingin fyrir mannlegri reisn eru ófrávíkjanleg skilyrði allra slíkra aðgerða. Þar vegur orðræða stjórnmálamanna þyngst um þann tón sem er sleginn í umræðunni.

Við verðum að finna það sem bindur okkar saman, ekki það sem aðskilur okkur.

Höfundur er lögmaður, lagaprófessor og fyrrverandi forseti Mannréttindadómstóls Evrópu.