Gunnar Gunnarsson fæddist í Reykjavík 25. febrúar 1944. Hann lést á hjartadeild Landspítalans við Hringbraut 11. mars 2024.

Foreldrar Gunnars voru Gunnar Gunnarsson og Guðfinna Lárusdóttir. Systir hans er Inga Gunnarsdóttir, f. 20. júní 1941. Eiginkona: Gerður H. Helgadóttir, f. 1. maí 1948, d. 4. maí 2021. Börn þeirra eru: 1) Helgi Gunnarsson, f. 31. janúar 1973. Eiginkona hans er Brynhildur S. Björnsdóttir, og saman eiga þau dótturina Gerði Tinnu. Önnur börn Brynhildar og stjúpbörn Helga eru Ragnar Logi, Arent Orri og Steinunn Thalía. 2) Gunnar Gunnarsson, f. 8. október 1975. Eiginkona hans er Katla Hanna Steed og eiga þau Gunnar Mikael, Róbert Andra og Breka Hrafn. 3) Arna Sif Gunnarsdóttir, f. 4. mars 1988. Eiginmaður hennar er Sigfús Jónsson og saman eiga þau Ölmu Katrínu og Alexander Orra. Synir Sigfúsar og stjúpsynir Örnu eru Jón Gylfi og Eiður Logi.

Gunnar Gunnarsson hóf skólagöngu í Laugarnesskóla og þaðan lá leið hans í Iðnskólann í Reykjavík. Þar stundaði hann nám við húsasmíði og árið 1974 lauk hann meistaraprófi í iðngreininni. Gunnar starfaði sín fyrstu ár hjá föður sínum sem rak trésmíðaverkstæði þar sem þeir sáu um innréttingasmíði og uppslátt mannvirkja. Á síðari árum stofnaði hann fyrirtækið GG verk með Helga og Gunnari sonum sínum þar sem hann vann sem byggingarstjóri. Gunnar skilur eftir sig fjöldann allan af mannvirkjum á höfuðborgarsvæðinu og víðar og var fagmaður fram í fingurgóma.

Fimleikar voru hans aðaláhugamál enda var hann með eindæma hreyfigetu og orku alla tíð. Hann stundaði þá iðkun hjá Fimleikafélagi Ármanns. Hann tók alþjóðlegt dómarapróf árið 1974 og dæmdi meðal annars á Norðurlandamótum og öðrum mótum í Evrópu. Í Ármanni eignaðist hann marga góða vini og hittust þeir reglulega allt til dagsins í dag og á síðari árum stofnuðu þeir félagarnir fimleikahóp og kölluðu sig Old boys.

Gunnar var aðeins 17 ára þegar hann gekk í Flugbjörgunarsveitina og var meðal þeirra fyrstu sem æfðu og stukku fallhlífarstökk á vegum sveitarinnar og á Íslandi. Hann stökk yfir 50 fallhlífarstökk. Ein af eftirminnilegustu björgunum á hans tíma í sveitinni var í Vestmannaeyjargosinu þar sem hann vann dag og nótt við að bjarga eignum bæjarbúa.

Gunnar og Gerður byrjuðu saman ung og voru gift í yfir 50 ár. Þau voru vinamörg og fóru í ótalmargar ferðir innanlands með vinahópnum. Þau bjuggu lengst af í Hagaseli í Seljahverfi, bjuggu svo í Miðtúninu á æskuheimili Gunnars og fluttu svo að lokum í Álalind í Kópavogi.

Útför Gunnars fer fram frá Digraneskirkju í dag, 22. mars 2024, klukkan 13.

Mig langar að minnast frænda míns hans Gunnars Gunnarssonar með örfáum orðum. Eitt af því fyrsta sem kemur upp í hugann er íþróttamaðurinn, fallhlífarstökkvarinn og fimleikastjarnan. Hann var sá allra flottasti, mikið var ég stolt af honum, að eiga frænda sem stökk úr flugvél og sveif til jarðar og lenti innan hringsins á flugvellinum. Man að mamma hans hún Lilla vildi helst ekki fara út á völlinn. Hitti fyrir nokkrum árum gamla fimleikafélaga hans sem sögðu mér þeir hefðu byrjað aftur öldungarnir að æfa. Krafturinn og áræðið bilaði aldrei. Hann átti ekki langt að sækja dugnaðinn og kraftinn, Gunnar Gunnarsson faðir hans og afi báðir einstakir dugnaðarmenn og listasmiðir.

Einu sinni sagði gömul kona þessi orð: það verður ekki spurt hvað þetta tók langan tíma heldur hver gerði þetta. Þetta á við núna sem aldrei fyrr að verkið lofar meistarann. Þannig er arfleifð Gunnars, báðir synirnir listasmiðir og fyrirtækið blómstrar og fer gott orð af öllum þeirra verkum. Minnist líka margra góðra stunda í Miðtúninu þar sem svo gott var að koma, hitta Lillu og Gunnar móðurbróður minn og svo kom Gunnar litli eins og hann var kallaður þá örsnöggt inn og heilsaði okkur á leið á æfingu eða í fallhlífarstökk. Stutt var að fara á æfingu.

Eitt var það sem ég sakna mikið en það voru þær stundir þegar tíminn eins og stóð kyrr og ekkert skipti máli nema andartakið. Margar þannig stundir átti ég í Miðtúninu og oftar en ekki sló Lilla upp stjörnu og spáði fyrir okkur og alltaf sá hún eitthvað bjart og fallegt framundan. Henni tókst líka að töfra fram veisluborð, á góðum stundum tóku þau oft lagið mamma og Gunnar bróðir hennar og sungu og slógu á létta strengi . Þannig var andrúmsloftið í Miðtúni þar sem Gunnar ólst upp með systur sinni henni Ingu. Það var líka verkstæði í Miðtúni í bílskúrnum og þar var unnið og smíðað og Gunnar hafði oft marga menn í vinnu og læri. Smári bróðir var einn af þeim sem lærðu hjá Gunnari eldri í Miðtúninu.

Gunnar yngri stofnaði svo sitt eigið fyrirtæki sem synirnir hafa nú tekið við og stjórna af röggsemi og krafti . Gunnar giftist yndislegri konu, henni Gerði, og áttu þau mjög vel saman, eignuðust þrjú börn en því miður fór hún allt of fljótt.

Þegar ég hugsa til baka þá er það sem kemur upp í hugann er ég minnist hans frænda lífsgleði, þróttur, kímni og glaðværð. Þrátt fyrir mikil áföll og sorg tókst honum alltaf að rísa upp og halda áfram og gefast ekki upp þó í móti blési. Arna Sif, Helgi og Gunnar stóðu vel saman og Gunnar naut sín vel með fjölskyldunni og barnabörnunum. Inga og hann áttu líka einstakt samband.

Haf þökk fyrir allt. Votta Örnu Sif, Helga, Gunnari, Ingu og fjölskyldu mína innilegustu samúð á erfiðri stundu.

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama;

en orðstír

deyr aldregi,

hveim er sér góðan getur.

(Úr Hávamálum)

Katrín Þorsteinsdóttir.

Kallið er komið,

komin er nú stundin,

vinaskilnaðar viðkvæm stund.

Vinirnir kveðja

vininn sinn látna,

er sefur hér hinn síðsta blund.

Margs er að minnast,

margt er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

margs er að sakna.

Guð þerri tregatárin stríð.

Í dag þegar við kveðjum kæran vin eru ofangreind orð úr sálminum eins og töluð úr okkar hjarta. Við sjáum á eftir enn einum vini úr klíkunni okkar sem hefur haldið hópinn í meira en hálfa öld eða allt frá sjötta áratug síðustu aldar en þá var grunnurinn lagður að þeim einstaka félagsskap sem hópurinn okkar er. Árleg ferðalög og samverustundir hafa skapað minningar sem ljúft er að ylja sér við nú á kveðjustund og margs er minnast og margs að sakna. Án efa verður vel tekið á móti Gunnari af þeim fimm félögum sem á undan eru gengnir inn í sumarlandið.

Gunnar var einstakur gleðigjafi og var þekktur fyrir sína léttu lund. Eiginkona hans, Gerður, kvaddi þessa jarðvist árið 2021 og var Gunnari, fjölskyldunni allri og vinum harmdauði. Þegar þeirra hjóna er minnst kemur hlátur og gleði upp í hugann. Þau eru í huga okkar sem órjúfanleg heild og varla er nafn annars nefnt nema að hitt fylgi fast á eftir, Gunni og Gerður. Þau gátu ávallt fundið spaugilegar hliðar á tilverunni, voru einstaklega samrýmd og glaðlynd hjón og var söknuðurinn því sár þegar hún féll frá fyrir aldur fram. Þau áttu svo margt eftir ógert, njóta samvista í nýja sumarbústaðnum og íbúðinni, hlúa að fjölskyldunni og barnabörnunum sem voru þeim allt.

Gunnar var dugnaðarforkur, lærður húsasmíðameistari og rak öflugt byggingafyrirtæki með sonum sínum, var virkur félagi í Flugbjörgunarsveitinni á árum áður þar sem hann var einn af þeim fyrstu sem stunduðu fallhlífarstökk á vegum sveitarinnar. Hann stundaði fimleika frá unga aldri og allt þar til hann varð fyrir áfalli og lamaðist að hluta, skömmu áður en Gerður féll frá. Þessi ár án umhyggju hennar hafa án efa verið honum erfið því hann var ekki vanur að láta aðra hugsa um sig en æðruleysi einkenndi hann í veikindunum og spaugið var aldrei langt undan.

Við leiðarlok vottum við börnum hans, tengdabörnum og fjölskyldunni allri okkar dýpstu samúð. Þeirra er söknuðurinn mestur.

Við kveðjum góðan vin með virðingu og þökk og vitum að ljúfar minningar sem streyma í gegnum hugann munu ylja fjölskyldunni og okkur öllum sem hann þekktum um ókomin ár og veita styrk.

Blessuð sé minning Gunnars Gunnarssonar.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

(Valdimar Briem)

Erla og Garðar, Arna og Sveinbjörn (Svenni), Snæfríður (Snæja), Kolbrún (Kolla), Elsa og Haraldur (Harrý).

Kær vinur minn, Gunnar Gunnarsson, er fallinn frá. Hann lést eftir erfiða sjúkdómslegu á hjartadeild Landspítalans. Við Gunnar kynntumst fyrst í Gagnfræðaskóla verknáms þar sem við vorum að þreifa fyrir okkur um framtíðina. Í verknáminu kynntumst við nokkrum úr vinahópnum sem síðar fjölgaði upp í 16 manna hóp. Þessi hópur hefur haldið vinskapinn síðan þá, en nú er farið að fækka í honum. Við hittumst nokkrum sinnum á ári og fórum þ. á m. í eina góða helgarferð, þar sem Gunni var ávallt hrókur alls fagnaðar. Þetta voru eftirminnilegar ferðir.

Þegar við Gunni vorum í verknáminu byrjuðum við í fimleikum hjá Fimleikadeild Ármanns í íþróttahúsi Jóns Þorseinssonar við Lindargötu. Um svipað leyti vorum við farnir að skreppa á skíði upp í Jósepsdal, þar sem Ármenningar voru með skíðaskála. Við fórum niður á BSÍ og tókum Suðurlandsrútuna sem stoppaði fyrir framan Jósepsdal. Síðan var gengið frá veginum upp í Jósepsdal að skálanum. Eitt skiptið þegar við vorum á leiðinni í bæinn í rútunni, hittum við Árna Edvins. Hann fór að spjalla við okkur og spurði hvort við hefðum ekki áhuga á að ganga í Flugbjörgunarsveitina. Það varð úr að við Gunni, Svenni og Geiri vorum teknir í sveitina. Þar kynntumst við hinum ýmsu störfum. Agnar Kofoed-Hansen flugmálastjóri hvatti Flugbjörgunarsveitina til að stofna fallhlífasveit. Það var gert og við Gunni gengum í hana.

En svo kom að því að Gunni hitti hina einu sönnu ást. Gerður Helgadóttir kom inn í líf Gunna Gunn, eins og hann var oft kallaður, en þau voru eins og sköpuð fyrir hvort annað. Síðan komu börnin hvert á fætur öðru, þ.e. Helgi, Gunnar og Arna Sif.

Varðandi fimleikana þá gengu þeir út á að vera með fimleikasýningar vítt og breitt um landið. En nú varð breyting á. Farið var að keppa í fimleikum og þar með í fimleikastiganum. Þá var þörf á dómurum. Við Gunni vorum fengnir í dómarastörfin ásamt fleirum. Í framhaldi af því voru dómarar sendir með keppendum á erlend mót. Auk þess voru þeir sendir á vegum FSÍ á dómaranámskeið, bæði hérlendis og erlendis til að viðhalda réttindunum.

Við Gunni höfum lengi fylgst að í gegnum tíðina bæði í gegnum íþróttirnar og félagslífið. Það voru forréttindi að kynnast Gunna og síðar Gerði sem féll frá fyrir þremur árum. Þegar Gunni veiktist og hætti að geta stundað fimleikana, þá kom hann með eftir sem áður á bjórkvöld sem var einu sinni í mánuði eftir æfingu.

Sárt er að horfa á eftir Gunna, en við yljum okkur við góðar minningar um góðan dreng og hugsum til þess að nú eru þau hjónin komin saman aftur.

Við Ollý ásamt félögum úr fimleikadeild Ármanns vottum börnum hans og fjölskyldum þeirra okkar dýpstu samúð.

Hermann Isebarn og Ólafía (Ollý).