Mark Harry Wilson og Daniel James fagna marki í Cardiff.
Mark Harry Wilson og Daniel James fagna marki í Cardiff. — AFP/Geoff Caddick
Wales og Pólland mætast í úrslitum umspils um sæti í lokakeppni Evrópumótsins 2024 á þriðjudaginn kemur, 26. mars, í Cardiff. Pólland vann stórsigur gegn Eistlandi í Varsjá í gær, 5:1, þar sem Przemyslaw Frankowski, Piotr Zielinski, Jakub Piotrowski …

Wales og Pólland mætast í úrslitum umspils um sæti í lokakeppni Evrópumótsins 2024 á þriðjudaginn kemur, 26. mars, í Cardiff.

Pólland vann stórsigur gegn Eistlandi í Varsjá í gær, 5:1, þar sem Przemyslaw Frankowski, Piotr Zielinski, Jakub Piotrowski og Sebastian Szymanski skoruðu sitt markið hver fyrir Pólland og þá varð Karol Mets leikmaður Eistlands fyrir því óláni að skora sjálfsmark. Martin Vetkal skoraði eina mark Eistlands á 78. mínútu í stöðunni 5:0.

Wales vann einnig stórsigur gegn Finnlandi, 4:1, þar sem þeir David Brooks, Neco Williams, Brennan Johnson og Daniel James skoruðu mörk Wales en Teemu Pukki minnkaði muninn fyrir Finnland í 2:1 undir lok fyrri hálfleiks.

Þá mætast Georgía og Grikkland í Tbilisi í þriðja úrslitaeinvíginu 26. mars um sæti í lokakeppninni sem fram fer í Þýskalandi í sumar.

Georgía hafði betur gegn Lúxemborg í Tbilisi, 2:0, þar sem Budu Zivzivadze skoraði tvö mörk fyrir Georgíu, hvort í sínum hálfleik.

Grikkland vann svo stórsigur gegn Kasakstan, 5:0, í Aþenu þar sem Anastasios Bakasetas, Dimitrios Pelkas, Fotis Ioannidis og Dimitrios Kourbelis skoruðu mörk Grikklands, sem leiddi 4:0 í hálfleik. Kasakstinn Erkin Tapalov skoraði svo sjálfsmark á lokamínútum leiksins.