— Morgunblaðið/Sigurður Bogi Sævarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kópavogsbær áformar að hefja uppboð á lóðum í Vatnsendahvarfi eftir páska. Hjördís Ýr Johnson, formaður skipulagsráðs Kópavogs, segir að í fyrstu lotu verði boðnar út lóðir undir nokkur fjölbýlishús

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Kópavogsbær áformar að hefja uppboð á lóðum í Vatnsendahvarfi eftir páska.

Hjördís Ýr Johnson, formaður skipulagsráðs Kópavogs, segir að í fyrstu lotu verði boðnar út lóðir undir nokkur fjölbýlishús. Markmiðið sé að fá trausta verktaka til verksins en hver geti fengið tiltekið hámark lóða úthlutað í þessari lotu.

„Við erum að ljúka við úthlutunarreglurnar sem verða teknar fyrir á bæjarstjórnarfundi á þriðjudaginn kemur. Lóðir á svæðinu verða boðnar út í áföngum,“ segir Hjördís Ýr. Í fyrsta áfanga verði boðnar út lóðir undir fjölbýlishús með nokkrum tugum íbúða. Samanlagt verði um 500 íbúðir í hverfinu fullbyggðu og gert ráð fyrir blandaðri byggð einbýlishúsa, raðhúsa og fjölbýlishúsa og búsetukjarna fyrir fatlað fólk.

Ljúki á þessum áratug

Áformað sé að uppbyggingunni ljúki á þessum áratug.

Deiliskipulagssvæðið er um 29 hektarar og liggur suðaustan við fyrirhugaðan Arnarnesveg á mörkum Reykjavíkur og Kópavogs, Kórahverfis og Hvarfa í Vatnsenda.

Hjördís Ýr bendir á að Vatnsendahvarf sé hæsti punktur höfuðborgarsvæðisins og þaðan sé því mikið útsýni til allra átta. Hverfið sé vel hannað með tilliti til þessa.

Hún segir uppbygginguna á margan hátt hagfellda fyrir bæinn. Með henni fáist betri nýting á núverandi innviðum svo sem gatnakerfi, veitukerfi og samfélagslegum innviðum og almannaþjónustu. Gert sé ráð fyrir svæðum fyrir leikskóla og grunnskóla fyrir fyrstu fjóra bekkina. Vatnsendaskóli taki svo við eldri nemendum. Þá verði verslunar- og þjónustusvæði og opið svæði með hundagerði.

Samkvæmt greinargerð sem unnin var með deiliskipulagi er áætlað hlutfall íbúða í fjölbýli 60-70% og hlutfall íbúða í einbýlis-, rað- og parhúsum um 30-40%.

Eldri mannvirki víkja

„Vatnsendahvarfið liggur hæst 146 m.y.s. og liggur hærra í landinu en aðliggjandi svæði. Svæðið er að mestu aflíðandi og nær óbyggt, utan fjarskiptamastra og tilheyrandi mannvirkja. Hluti eldri mannvirkja á svæðinu, s.s. gamla útvarpshúsið, hafa vikið á undanförnum misserum. Eftir stendur ein bygging sem hýsir starfsemi Mílu, gert er ráð fyrir að hún víki samhliða uppbyggingu á svæðinu.

Skipulagssvæðið er mjög berskjaldað fyrir veðri og vindum þar sem það er staðsett í mikilli hæð yfir sjávarmáli eða 146 m.y.s. Ríkjandi vindáttir eru suðaustlægar áttir,“ segir meðal annars í greinargerðinni. Miðað er við að fjölbýli verði á þremur hæðum auk kjallara en að einbýlis-, rað- og parhús verði á einni til tveimur hæðum auk kjallara.

Loks segir í greinargerðinni að byggð verði aðlöguð að landhalla. Þegar snjór liggur yfir jörð geti hluti af grænum geira nýst sem sleðabrekka.

Höf.: Baldur Arnarson