Björn B. Björnsson
Björn B. Björnsson
Vilja einhver íslensk fyrirtæki virkilega láta tengja sig við brot á alþjóðalögum og þjóðarmorð í Palestínu? Ég á erfitt með að trúa því.

Björn B. Björnsson

Færsluhirðirinn Rapyd er ísraelskt fyrirtæki með útibú á Íslandi og hefur verið í fréttum að undanförnu vegna yfirlýsts stuðnings þess við stríð Ísraels á Gasa.

Þá hafa fjölmiðlar í Ísrael flutt fréttir af beinni þátttöku Rapyd í stríðinu því fyrirtækið hefur sett á stofn sérstaka stríðsstofu eða „war room“ til að aðstoða ísraelska herinn. Rapyd stærir sig af þeim íslensku hugbúnaðarlausnum sem fyrirtækið eignaðist þegar það keypti Valitor en þær lausnir eru í dag notaðar í stríði Ísraels gegn íbúum Gasa.

Vegna þessa hafa neytendur á Íslandi viljað sneiða hjá viðskiptum við Rapyd sem hefur brugðist við sniðgöngunni með því að fjarlægja merki sitt af posum – að eigin sögn til að fela fyrir neytendum að þeir séu að skipta við Rapyd. Þetta eru augljóslega ekki góðir viðskiptahættir, en duga kannski ekki einir og sér til að fyrirtæki hætti viðskiptum við Rapyd.

Hér eru þrjár góðar ástæður fyrir því að stjórnendur og eigendur fyrirtækja ættu að hætta viðskiptum við Rapyd.

1. Vilji viðskiptavina

Samkvæmt nýrri könnun Maskínu vilja 57% Íslendinga síður eða alls ekki skipta við fyrirtæki sem nota Rapyd. Þetta er sláandi niðurstaða sem varla á sér hliðstæðu í íslenskri viðskiptasögu. 37% segja að það skipti þau engu máli hver færsluhirðir fyrirtækisins er og 6% vilja frekar eiga viðskipti við fyrirtæki sem eru með færsluhirðingu hjá Rapyd.

Í könnuninni kemur fram að ekki er mikill munur á afstöðu fólks eftir aldri eða búsetu en andstaðan við Rapyd er minnst í yngsta hópnum, 18-29 ára, þar sem tæp 50% vilja forðast Rapyd.

Andstaðan við Rapyd eykst með menntun því rúmlega 40% þeirra sem eru með grunnskólapróf vilja forðast Rapyd og rúm 50% þeirra sem eru með framhaldsskólapróf en nærri 70% þeirra sem eru með háskólapróf vilja síður eða ekki skipta við fyrirtæki sem nota Rapyd. Niðurstaðan er svipuð í öllum tekjuhópum.

Ég veit ekki hvaða ábyrgir stjórnendur fyrirtækja geta leitt þessa afgerandi niðurstöðu hjá sér – en víst er að hluthafar þeirra fyrirtækja munu kunna þeim litlar þakkir fyrir.

Sniðganga er friðsöm og áhrifarík leið til að láta til sín taka. Á síðunni hirdir.is færir fólk inn upplýsingar um hvaða greiðslumiðlun fyrirtæki nota til þess að geta forðast fyrirtæki sem skipta við Rapyd og á facebook-síðunni Sniðganga fyrir Palestínu skiptist fólk á upplýsingum um þessi fyrirtæki.

2. Alþjóðalög og þjóðarmorð

Í síðustu viku réð norska ríkisstjórnin þarlendum fyrirtækjum alfarið frá því að eiga í viðskiptum við fyrirtæki sem starfa í landránsbyggðum Ísraela á Vesturbakkanum. Þær séu brot á alþjóðalögum og þar á meðal alþjóðlegum mannréttindalögum. Sams konar viðvaranir hafa fleiri evrópskar ríkisstjórnir gefið út. Þessi aðvörun á ekki síður við íslensk fyrirtæki sem ganga gegn þessum sömu alþjóðalögum.

Rapyd er ísraelskt fyrirtæki sem starfar á landránsbyggðunum á Vesturbakkanum og tekur auk þess beinan þátt í stríðinu á Gasa. Stríði sem Alþjóðadómstóllinn í Haag hefur þegar sagt að sé líklega þjóðarmorð – en enn er beðið eftir endanlegri niðurstöðu dómstólsins.

Vilja einhver íslensk fyrirtæki virkilega láta tengja sig við brot á alþjóðalögum og þjóðarmorð í Palestínu? Ég á erfitt með að trúa því.

3. Samviska og samfélagsábyrgð

Það er fyrst og fremst samviska meirihluta Íslendinga sem veldur því að fólk vill ekki skipta við Rapyd. Eigendur og stjórnendur fyrirtækja hafa líka samvisku eins og sést á þeim fjölda fyrirtækja sem þegar hafa skipt um færsluhirði. Mörg fyrirtæki eru með fallega stefnu um samfélagsábyrgð og virðingu fyrir öllu fólki. Hér og nú reynir á hvort það séu bara innantóm orð.

Við skulum ekki gleyma því að nokkur fjöldi fólks frá Palestínu hefur fengið hæli á Íslandi og er núna hluti af samfélagi okkar. Það nær engri átt að fyrirtæki bjóði því fólki að greiða í gegnum Rapyd sem vinnur með ísraelska hernum að því að drepa vini þeirra og ættingja. Nóg hafa þau mátt þola.

Þegar sagan er skrifuð eru það þau sem styðja eða stuðla að ofbeldi með því að gera ekkert sem fá harðasta dóminn þótt það sé oftast auðveldasta leiðin – að gera ekki neitt.

Fyrir langflest fyrirtæki er sáraeinfalt að skipta um færsluhirði. Það nægir að hringja eitt símtal í keppinauta Rapyd sem sjá þá um málið og skiptin ganga í gegn samdægurs.

Í tilvikum sumra fyrirtækja með flókinn fjármálarekstur getur málið verið tímafrekara – en það er engin afsökun fyrir því að gera ekkert.

Okkur ber öllum siðferðileg skylda til að standa gegn kúgun og manndrápum.

Höfundur er kvikmyndagerðarmaður.

Höf.: Björn B. Björnsson