Valgerður Rúnarsdóttir
Valgerður Rúnarsdóttir
Dóra Ósk Halldórsdóttir doraosk@mbl.is Svört skýrsla frá Ríkisendurskoðun um ópíóíðalyfjanotkun á Íslandi hefur strax valdið því að ráðuneytið hefur skipað starfshóp til að leita lausna. Valgerður Rúnarsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga hjá SÁÁ, segir þetta góðar fréttir en vissulega verði heilbrigðisráðuneytið að hafa virka stefnu í þessum málum. „Heilbrigðisráðuneytið gerir samning við SÁÁ í gegnum sjúkratryggingar um heilbrigðisþjónustu vegna fíknisjúkdóma, þ. á m. ópíóíðafíknar. Við höfum svarað eftirspurn með viðhaldsmeðferð þó að samningurinn sé löngu sprunginn,“ segir Valgerður.

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

Svört skýrsla frá Ríkisendurskoðun um ópíóíðalyfjanotkun á Íslandi hefur strax valdið því að ráðuneytið hefur skipað starfshóp til að leita lausna. Valgerður Rúnarsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga hjá SÁÁ, segir þetta góðar fréttir en vissulega verði heilbrigðisráðuneytið að hafa virka stefnu í þessum málum. „Heilbrigðisráðuneytið gerir samning við SÁÁ í gegnum sjúkratryggingar um heilbrigðisþjónustu vegna fíknisjúkdóma, þ. á m. ópíóíðafíknar. Við höfum svarað eftirspurn með viðhaldsmeðferð þó að samningurinn sé löngu sprunginn,“ segir Valgerður.

Nú tala margir um að ópíóíðafaraldur sé að hefjast á Íslandi en þegar litið er til landa eins og Bandaríkjanna hefur ópíóíðafíkn verið stærsta eiturlyfjavandamálið. „Þar er vandi vegna verkjalyfja annars vegar, eins og hér, en hins vegar er þar gífurlegt magn af ólöglegu fentanýli. Um 292 dauðsföll í Bandaríkjunum á dag eru vegna lyfjaeitrana, mest vegna ólöglegs fentanýls,“ segir Valgerður og bætir við að þar megi hiklaust tala um ópíóíðafaraldur. „Í Bandaríkjunum fær lítill hluti þeirra sem eru haldnir lyfjafíkn viðeigandi meðferð, eða aðeins um 17%, en þar standa Íslendingar sig miklu betur.“

Fólk getur losnað úr viðjunum

Valgerður segir að fleira fólk með ópíóíðafíkn leiti sér hjálpar hjá SÁÁ og hjá Landspítalanum en á sjúkrahúsinu Vogi, en þar sé enn langstærsti hópurinn sem leitar lausna við áfengisfíkn, eða um 70% þeirra sem koma í fyrsta skipti í meðferð. Kannabis- og kókaínfíkn sé á bak við rúmlega 20-25%, amfetamín og róandi 14% og þeir sem leita sér hjálpar vegna ópíóíðafíknar séu 11% af þeim sem leita sér hjálpar í fyrsta skipti. Tölurnar breytast þó þegar endurkomuhópurinn er skoðaður, en þá eru þeir sem leita sér aðstoðar vegna ópíóíðafíknar 26%.

Þegar Valgerður er spurð hvort aukin notkun ópíóíðalyfja, sérstaklega Oxycontin og Contalgin, tengist ótímabærum dauðsföllum segir hún að neysla sterkra verkjalyfja sem vímugjafa sé ekki ósvipuð heróínneyslu; fíknin nái heljartökum á fólki. „Ég vil samt alls ekki tala um að fólk geti ekki losnað úr þessum viðjum því það getur það með viðeigandi meðferð.“ Hún bætir við að ólíkt annarri fíkn sé til sérhæfð lyfjameðferð við ópíóíðafíkn sem hafi gefist vel, þótt vissulega ráði ekki allir við fíknina.

Lyfin bæla miðtaugakerfið

„Þegar við skoðum tímabilið frá 2014 til 2022 sést að aukningin er mikil, sérstaklega hjá yngsta hópnum, 25 ára og yngri.“ Þá fengu 360 einstaklingar viðhaldsmeðferð á göngudeild Vogs í fyrra en voru 117 árið 2014. Hún segir að meðferðarfylgni sé góð og þannig hafi 76% þeirra sem voru í viðhaldsmeðferð 2020 enn verið í meðferðinni á göngudeild Vogs 2022. Hins vegar lifi ekki allir fíknina af og á síðasta ári létust 23 einstaklingar úr ópíóíðaeitrun og 26 árið 2022, skv. skýrslu Ríkisendurskoðunar. Fjölgun dauðsfalla vegna ópíóíða nemur 100% frá árinu 2017, þegar 13 einstaklingar létust. „Þessi lyf eru hættuleg, þau bæla miðtaugakerfið og valda öndunarstoppi.“

Hún segir að þörf sé á meiri meðferð og endurhæfingu og skjótara aðgengi til að bregðast við stöðunni í dag. „Vonandi verður skilningur á því í heilbrigðis- og fjármálaráðuneytinu hvað þessi þjónusta er mikilvæg.“

Höf.: Dóra Ósk Halldórsdóttir