Orri Páll Ormarsson
Það var klárlega sjónvarpsaugnablik ársins þegar Einar Þorsteinsson borgarstjóri kynnti úrslit hinnar frómu og slitgóðu tónlistarkeppni Músíktilrauna í Hörpu um liðna helgi. Hann hafði varla sleppt orðinu, „sigurvegari Músíktilrauna 2024 er … Vampíra“, þegar vampírurnar hlupu ein af annarri þráðbeint í fangið á honum. Líkt og hann væri uppáhaldsfrændi þeirra að koma heim úr þriggja ára heimsreisu. Allt endaði það með æðisgengnum sigurhring, þar sem borgarstjórinn var í reynd limaður inn í þetta bráðefnilega svartmálmband. Það vantaði bara að einhver henti í ziggizaggi, ziggizaggi, hey, hey, hey! Vel fer á þessu enda Einar tónelskur maður sem syngur í kór og er tengdasonur trommarans úr Utangarðsmönnum. Sjálfur var ég orðinn svo víraður af spennu og ósvikinni gleði heima í stofu að mér leið eins og strákarnir okkar hefðu verið að leggja Svía á stórmóti í handbolta – með sigurmarki á lokasekúndunum.
Tveimur sólarhringum síðar stillti Baldvin Þór Bergsson vampírunum upp í Kastljósinu og spurði þær spjörunum úr. Erfitt getur reynst að greina orðaskil þegar menn rymja sinn svartmálm og fyrir vikið spurði Baldvin um hvað textarnir fjölluðu. „Náttúru og kulda,“ svaraði söngvarinn. Nema hvað? Öðlingar, Vampíra.