Ég mætti karlinum á Laugaveginum, kastaði á hann kveðju og spurði um líðan hans. Hann svaraði: Heilsu og þrek ég þakka má þó að undan halli og fjölmargt slaknað hafi hjá hálf-níræðum karli. Bjarki Karlsson skrifar á facebook: Ég sé að Jón Yngvi…

Ég mætti karlinum á Laugaveginum, kastaði á hann kveðju og spurði um líðan hans. Hann svaraði:

Heilsu og þrek ég þakka má

þó að undan halli

og fjölmargt slaknað hafi hjá

hálf-níræðum karli.

Bjarki Karlsson skrifar á facebook: Ég sé að Jón Yngvi Jóhannsson hefur þjófstartað auglýsingaherferðinni minni fyrir Láka-rímur sem koma út í haust. Ætli maður verði ekki þá ekki að bjóða upp á svolítinn reyk af réttunum, fáeinar vísur af handahófi úr fyrstu rímu:

Eigi feitur, auðnuþur,

undirleitur horaður.

Snjáka dreitill, Snjáku bur.

Snáðinn heitir Þorlákur.

Auðkennt mjög er útlitið,

eyru bjöguð marka nið.

Augljós lögun ef að þið

álfasögur kannist við.

Hjárænn talinn, heimskur, glær,

hrösull, galinn, djöfulær,

er með hala, horn og klær;

hann ku ala lýs og flær.

Krullurefil rjúkanda

rolan hefur fjúkanda,

bráðan grefils búkvanda,

bólgið nef frá Úganda.

„Lítt er rökkur litur minn,“

Láki klökkur skýtur inn,

harmar dökka hlutinn sinn

halablökkumaðurinn.

Þetta er skemmtilega kveðið og til mikils að hlakka að fá rímurnar í hendur.

Sigtryggur Jónsson skrifar á Boðnarmjöð: Veturinn er að kveðja og eftir viku, þriðjudaginn 26. mars, hefst einmánuður, sem að fornu var 6. og seinasti vetrarmánuðurinn, en nú orðið má alveg fara að kalla hann fyrsta vormánuðinn. Í leiðinda vetrarveðri þessa dagana datt mér í hug:

Einmánuður ætíð ber,

endurreisn á geði.

Um loftin flýgur fuglaher,

í fögnuði og gleði.

Davíð Hjálmar Haraldsson yrkir:

Við Grindavík er gnótt af stýrðum vörnum;

garðar reistir, hraunið kælt í tjörnum

og vegna þess að nú gýs heldur hægar

halda menn að geymslur verði nægar.

Og þó að gígar gjósi lapi þunnu

geymist kvikan eins og þvag í tunnu.