Björgvin Gíslason tónlistarmaður fæddist í Reykjavík 4. september 1951. Hann varð bráðkvaddur 5. mars 2024.

Björgvin ólst upp í Holtunum í Reykjavík. Foreldrar hans voru Gísli Gestur Guðmundsson málarameistari, f. 18. október 1910, d. 14. apríl 1982, og Hallfríður Jóna Jónsdóttir húsmóðir, f. 11. maí 1915, d. 26. janúar 1981. Systur Björgvins eru Halla G., f. 26. september 1939, og Bryndís, f. 8. janúar 1945, d. 24. september 2022.

Eftirlifandi eiginkona hans er Guðbjörg Ólöf Ragnarsdóttir sjúkraliði, f. 15. september 1952. Börn þeirra hjóna eru: 1) Ragnar, skipulagsfræðingur og húsasmíðameistari, maki Margrét Lilja Magnúsdóttir. Dóttir Ragnars og Valdísar Halldórsdóttur er Esther Björg, börn hennar eru Valdís Gyða og Hróar Loki. Synir Ragnars og Margrétar eru Bjarmar Logi og Elí Eldur. 2) Óðinn Bolli, rennismiður og vöruhönnuður, maki Guðrún Líneik Guðjónsdóttir landfræðingur, börn þeirra eru Embla Dröfn, Bjarki Leó og Hekla. 3) Gísli Freyr, meistaranemi í rafvirkjun, maki Ólöf Inga Jónsdóttir hugbúnaðarráðgjafi, börn þeirra eru Antonía Mist, Björgvin Steinar og Darri Freyr.

Björgvin var í barna- og gagnfræðaskóla Austurbæjar og Lindargötuskólanum. Hann lærði á gítar hjá Katrínu Guðjónsdóttur og síðar á píanó í Tónskóla Sigursveins. Björgvin vann við húsasmíðar og húsamálum um skeið, hann vann einnig í Hljómplötuverslun Karnabæjar í Austurstræti. Einnig sinnti hann gítarkennslu í mörg ár. Björgvin starfaði þá um tíma í Þjóðleikhúsinu við hljóðblöndun.

Björgvin var einn fremsti gítarleikari í poppbransanum hér á landi, spilaði með hljómsveitum eins og Flamingo, Falcon, Zoo, Opus 4, Pops, Náttúru, Pelican, Paradís, Póker og Íslenskri kjötsúpu. Björgvin fór með fjölskylduna til Bandaríkjanna 1980 og lék þar m.a. í hljómsveitinni Trax og túraði með blúsaranum Clarence „Gatemouth“ Brown. Við heimkomu lék hann m.a. á eftirminnilegum tónleikum með Megasi í Austurbæjarbíói og svo með hljómsveitunum Friðryki, Frökkunum og Stefáni P., Gömlu brýnunum, Bláa fiðringnum og spilaði einnig með KK. Þá starfaði hann með Mugison, bæði á tónleikum og við upptökur. Undir það síðasta voru Björgvin og félagar að æfa lög við texta Kristjáns frá Djúpalæk. Björgvin bæði gaf út hljómplötur og lék inn á fjölda platna. Þá tók hann þátt í nokkrum söngleikjauppfærslum. Björgvin sá einnig um upptökur á plötum.

Hann verður jarðsunginn frá Háteigskirkju í dag, 22. mars 2024, kl. 13. Streymt verður frá athöfninni:

https://streyma.is/streymi/

Lífið verður tómlegra, fátæklegra, að Björgvin Gíslasyni gengnum. Hann var mestur listamanna sem ég hef kynnst um ævina og besti vinur minn um áratuga skeið. Ávallt hlýr, jafnvel þegar hann þóttist vera grömpí; það var sjaldnast raunverulegt grömp og ævinlega stutt í bros og hlýjan glampa í augunum.

Við vorum rétt um tvítugt þegar við kynntumst og drógumst hvor að öðrum og að Diddu, lífsförunauti hans frá því bæði voru rétt rúmlega fermd og móður sonanna þriggja sem hafa erft frá þeim mestu og bestu kostina, hver á sinn hátt. Við áttum eftir að fara víða saman, stundum í músík-tengdu stússi, oftar í einkastússi með konum okkar og vinum. Á Englandi kynnti Björgvin mig fyrir Mickey Jupp, breskum rokkara sem alla tíð hafnaði því að verða stórstjarna (sem hann hefði vel getað orðið); þeir áttu ágætt skap saman og gagnkvæm virðing og væntumþykja þeirra í milli leyndi sér ekki. Í Nepal beitti hann sér fyrir því að fyrsti viðkomustaður ferðafélaganna væri helga fljótið Bagamati þar sem haldnar eru líkbrennslur sólarhringana út. Þarna sitja margir gúrúar og aðrir andans menn, vel skreyttir og helgir að sjá – og hann sjálfur ekki síður.

Þá er sérlega eftirminnilegt að í borginni Agra á Indlandi, þar sem stendur ástarhofið stórfenglega Taj Mahal, ókum við fram á hljóðfæraverslun. Að sjálfsögðu var þar gert stopp og farið niður í kjallarann þar sem sítarar og töblur huldu hvert skot og alla veggi. Okkar meistari tókst allur á loft og ákvað að þarna væri komið tækifærið sem hann hafði leitað eftir: að kaupa sér nýjan sítar af hljóðfærasmiðnum sjálfum. Svo upphófst hljóðfærasláttur og trumbuspil, Björgvin í sjöunda himni og indversku músíkantarnir sem þar voru, og tóku fljótt undir í spilamennskunni, horfðu stóreygir á þennan brosmilda og langt að komna útlending sem fór fingrum um hljóðfærið eins og hann hefði aldrei gert annað. Hann brosti allan hringinn það sem eftir var ferðar.

Það var gaman að ferðast með Björgvin og Diddu, þau fróðleiksfús og mild við allt og alla, ekkert nema elskan og hlýjan. Það var eins hér heima: í sumarhöll þeirra undir Búrfelli var snarlega hrært í pönnukökur þegar gesti bar að garði og öllum tekið fagnandi. Sagt frá nýrri tónlist sem stöðugt streymdi fram í „fýluskúrnum“ þar sem eru bestu græjur til að taka upp músík – og hægt að leika sér í flugherminum sem leyfir mönnum að ferðast um allan heim og taka stórkostlega sénsa við að lenda á afskekktum flugvöllum í Himalajafjöllum. Allt með brosi á vör. Þar eystra leið honum best, þar vildi hann vera, þar í grenndinni kvaddi hann.

Þannig munum við þennan góða dreng sem við áttum að kærum vini drjúgan part ævinnar. Hann var eðalmenni sem við munum minnast og sakna svo lengi sem lifum. Hjartans samúðarkveðjur til Diddu, Ragnars, Óðins og Gísla og afa- og langafabarna. Skyndilegt fráfall Björgvins Gíslasonar er missir okkar allra, en þeirra mestur.

Ómar Valdimarsson,
Dagmar Agnarsdóttir.

Kær vinur og mikill listamaður hefur nú kvatt þennan heim. Hans verður sárt saknað, ekki bara af þeim sem þekktu hann, heldur öllum tónlistarunnendum og þeim sem kunna að meta snilligáfu og skapandi anda. Á engan er hallað þótt fullyrt sé að Björgvin Gíslason hafi verið einn mesti gítarsnillingur sem Ísland hefur alið.

Ég man, eins og gerst hafi í gær, hvar og hvenær ég fyrst sá og heyrði Bjögga Gísla leika opinberlega á sviði. Það var í Glaumbæ árið 1968. Ég var að spila á neðri hæðinni með hljómsveitinni Roof Tops og í pásunni skrapp ég upp á efri hæðina til að hlusta á „unglingahljómsveit“ sem þar var að koma fram í fyrsta skipti. Mig minnir að hún hafi borið nafnið Opus 4. Mér fannst þeir þrusugóðir og sérstaka athygli mína vakti grannvaxinn piltur, sem handlék gítarinn af þvílíkri snilld að mér féll allur ketill í eld. Ég starði og hlustaði hugfanginn á piltinn og hugsaði með mér: „Ef þessi drengur á ekki eftir að „meika“ það í bransanum skal ég éta hattinn minn.“ Ég átti reyndar engan hatt á þeirri stundu, en það kom ekki að sök. Strákurinn Bjöggi átti eftir að slá í gegn svo um munaði.

Við Bjöggi urðum fljótt málkunnugir, enda var talsverður samgangur á milli poppara landsins á bítla- og hippatímanum. Þetta var lítill heimur og mikil gerjun í gangi á þessum árum. Löngu síðar þróaðist kunningsskapur okkar Björgvins upp í traustan vinskap er við hófum að spila saman í danshljómsveitinni Gömlu brýnunum, sem sérhæfði sig í árshátíðum og þorrablótum þeirra tíma. Þetta var talsvert einfaldari tónlist en sú sem Björgvin hafði fengist við fram að því, en ekki var á honum að finna að honum þætti hann „taka niður fyrir sig“ með því að stíga á svið með „Brýnunum“. Hann lék á als oddi og dillaði sér með bros á vör, hvort heldur spilað var honkí tonk úr smiðju Stones eða gamli góði Hreðavatnsvalsinn. Allt lék í höndunum á honum og fékk á sig listrænan blæ í hans meðförum. Við Björgvin áttum margar eftirminnilegar samverustundir á þessum árum og eru mér sérstaklega minnisstæðar spilaferðir til Vestmannaeyja, þar á meðal á Þjóðhátíð laust eftir 1990, þar sem við spiluðum á „litla sviðinu“ sem var sérstaklega hugsað fyrir eldri þjóðhátíðargesti með bítla- og hippafortíðarþrá. Síðasta kvöldið spiluðum við til klukkan fimm um morguninn og fórum að því loknu beint í flugið heim.

Á seinni árum höfum við Björgvin, ásamt mökum og góðum hópi vina, komið reglulega saman í tengslum við leikhúsferðir og borðum þá gjarnan saman fyrir sýningu. Nú er höggvið stórt skarð í þann félagsskap eftir að okkar kæri vinur er horfinn á braut.

Við Björg sendum Diddu og sonum þeirra hjóna, ásamt öðrum ástvinum, okkar innilegustu samúðarkveðjur. Blessuð sé minning góðs félaga og mikils hæfileikamanns!

Hvíl í friði kæri vinur!

Sveinn Guðjónsson.

Það er erfitt að horfa á eftir Björgvini Gíslasyni gítarleikara. Hann er búinn að vera partur af lífi okkar sem ánetjuðumst gítarnum á áttunda áratugnum og drukkum í okkur „sándið“ hans og „fraseringarnar“. Hann er og verður risi í íslensku tónlistarlífi og minningin um brosið og glettnina lifir í huga okkar.

Ég var svo heppinn að fá að kynnast Björgvini, en okkar fyrstu kynni voru þegar hann keypti af mér Fender Stratocaster árg. '63 árið 1977. Í tengslum við þau viðskipti kom ég til hans og Diddu í Gyðufellið og man vel eftir hlýjum móttökunum. Seinna áttum við eftir að spila saman í tilraunahljómsveitinni Deild 1 1982, Svefngölsum 1983 og svo lágu leiðir okkar saman við hinar og þessar tónlistartengdar uppákomur. Það var alltaf jafn gaman að hitta Björgvin og þær eru ógleymanlegar miðnæturveiðiferðirnar okkar við Gíslholtsvatn. Það var gott að vera með Björgvini og við gátum vel þagað saman.

Lífið líður áfram og það komu kaflar þar sem við vorum ekki mikið í sambandi en vorið 2019 birtist á tröppunum hjá mér maður. Það var Ragnar sonur hans og hann sagði „ég er með dálítið sem þú átt að fá,“ snaraðist út í bíl og lagði á eldhúsborðið hjá mér Fenderinn góða. „Pabbi vill að þú fáir þennan gítar.“ Ég sat algjörlega orðlaus, máttlaus og kvíðahnúturinn varð að körfubolta í brjóstinu á mér. Ég gat ekki tekið við gítarnum, en sama hvað ég reyndi, greiðslu, annan gítar, eitthvað, ákvörðuninni varð ekki haggað. Björgvin sagði: „Þú skrifaðir nafnið þitt inn í gítarinn og ég er búinn að skrifa mitt líka.“

Eftir að hafa horft á gítarinn í næstum tvö ár fann ég lausn sem ég gat sætt mig við. Ég fengi að nota gítarinn meðan ég gæti, en eftir okkar dag færi hann á uppboð hjá mannúðarsamtökum. Ég vildi ekki hagnast á þessu frekar en Björgvin og við undirrituðum samkomulag þess efnis sem Didda og Hildur vottuðu.

„Þessi gítar spilar sjálfur,“ sagði Björgvin og það er rétt hjá honum því ég er búinn að upplifa miklar ánægjustundir með hann í fanginu eftir að ég tók hann í sátt.

Undanfarin ár styrktust tengslin við Björgvin og Diddu og ótrúlega gott að koma til þeirra í Grímsnesið. Í síðasta skiptið sem við komum vorum við að grínast með gítarleik og áhrifavalda og ég sagði Björgvini að hann hefði verið ídolið mitt. „Já,“ sagði hann, „og svo stalstu sólóunum mínum og settir á Ísbjarnarblúsinn,“ og svo hló hann svakalega, og ég líka. Hárrétt hjá honum þótt ég hafi ekki pælt í því, en það er greinilegt hver var áhrifavaldur minn.

Í lífinu var heiðarleikinn allsráðandi og ef eitthvað var á skjön við lífsgildi hans vildi hann alls ekki taka þátt í því og það hefur örugglega ekki alltaf verið auðvelt. Það tekur á að vera prinsippmaður.

Nú er komið að kveðjustund og ég mun minnast Björgvins í innilegu þakklæti fyrir allt það góða sem hann stóð fyrir. Hann var frábær listamaður en líka einstakur maður sem snerti hjartastrengi svo margra á hlýjan hátt.

Blessuð sé minning Björgvins Gíslasonar gítarleikara og Guð styrki Diddu og fjölskylduna í þessari miklu sorg.

Sigurgeir og Hildur.

Árið 2010 héldum við, fimm gamlir skátafélagar ásamt mökum, í ferð til Indlands, Nepal og Tíbet. Með í hópinn slógust sómahjónin Björgvin Gíslason og Guðbjörg Ragnarsdóttir, Bjöggi og Didda. Þau urðu um leið eins og þau ættu í okkur hvert bein og var afskaplega mikill akkur fyrir okkur að fá þau með.

Mér fannst Bjöggi alltaf glaðlyndur og brosandi, þrátt fyrir ýmis óþægindi sem við urðum fyrir á ferðalaginu, eins og mikinn hita eða óþolandi kulda á stundum. Hann var trúr köllun sinni; mátti ekki sjá hljóðfæri án þess að þurfa að prufa. Mér er sérstaklega minnisstæð heimsókn okkar í hljóðfæraverslun í Nýju-Delí þar sem hann vildi skoða sítar. Hann sagði sölumanninum að hann kynni ekkert á svona hljóðfæri en vildi svona heyra „soundið“. Hann pikkaði í nokkra en leist best á einn gripinn. Kaupmaðurinn kallaði til indverskan sítarsnilling til þess að leyfa okkur að njóta þess besta úr hljóðfærinu. Fljótlega greip þá Bjöggi annan sítar og hóf að spila á hann með þeim innfædda. Þarna upphófst meiri háttar jam-session fyrir okkur og fljótlega bættust fleiri hljóðfæraleikarar verslunarinnar í hópinn til að taka þátt. Það mátti vart á milli sjá hvor var flottari á sítarinn, Bjöggi eða sá indverski, alla vega fannst mér Bjöggi lifa sig meira inn í músíkina. Sem betur fer hafði ég sett upptöku í gang og nýt þess alltaf jafn mikið að horfa og upplifa stemninguna.

Svona var Björgvin, hógværðin uppmáluð en alltaf til í tuskið. Hann hafði til að bera afskaplega hlýja og þægilega nærveru, glettnin skein af honum og þegar maður hugsar til hans sér maður alltaf fyrir sér brosið. Við hittumst ekki oft eftir þessa ferð, en í hvert skipti var viðmótið jafn elskulegt, eins og við værum æskuvinir. Við sáumst síðast nú í lok febrúar en þá sagðist hann vilja hlífa náttúrunni, vera hættur að ferðast til útlanda, vildi bara fara í bústaðinn þeirra Diddu.

Minningin um ljúfan dreng mun lifa í hugum okkar Hildar og við þökkum fyrir samveruna.

Sendum Diddu og sonum innilegar samúðarkveðjur.

Sigurður R. Guðjónsson.

Ég kynntist Björgvini Gíslasyni á árinu 1970. Ég var sextán ára, hann átján. Við fundum fljótt að við áttum okkur sameiginlegt áhugamál sem var að kynna okkur klassíska indverska tónlist.

Við lásum okkur til, töluðum langtímum saman og hlustuðum mikið.

Okkur tókst síðan að útvega okkur hljóðfæri, sítar og tablatrommur.

Við tóku strangar æfingar og samæfingar og gekk svo í um eitt ár, en þá, Björgvin, bauðst þú mér í hljómsveit þína, Náttúru.

Það var bæði spennandi og lærdómsríkt að starfa með þér, Jóa G., Shady, Sigga Árna og Óla Garðars.

Fljótlega – þegar við vorum eiginlega í miðju kafi að byggja upp okkar eigið prógramm – vorum við fengin til þess að æfa til flutnings stórt sviðsverk sem Leifur Þórarinsson tónskáld var með í smíðum fyrir Leikfélag Reykjavíkur. Leifur varð strax samstarfsmaður okkar, skrifaði t.d. forspil og meðspil fyrir bæði strengi og blásara fyrir lögin okkar, sem reyndar flest komu úr smiðju Jóa G.

Ekki varð af flutningi þessa verks Leifs og ég var ekki lengi í hljómsveitinni, var með í eitthvað sjö mánuði áður en ég sneri mér að öðru á erlendri grund, en þessir mánuðir hafa ætíð verið mér mikils virði og dæmi um góðan vinskap.

Þrátt fyrir að við höfum ávallt starfað í ólíkri músík höfum við verið í góðu persónulegu sambandi, sem aldrei hefur rofnað.

Kæri vinur, ég kveð þig með miklum söknuði. Ég mun alltaf minnast bross þíns, sem var svo djúpstætt og hlaðið krafti og ánægju í spilamennskunni. Útgeislun þín á sviðinu smitaði alla og ekki bara gítarista.

Síðast þegar ég var hjá þér í heimsókn skrifaði ég niður hjá mér nótur allra undirstrengjanna í sítarnum þínum, sem ég síðan notaði í verki fyrir sinfóníuhljómsveit eftir ferð mína til Indlands.

Þannig hafa samtöl okkar og fundir einatt verið skapandi.

Diddu, drengjunum og stórfjölskyldunni sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Áskell Másson.

Samúð,

samkennd

og kærleikur

… er það sem við þurfum

(Bubbi Morthens)

Bjöggi Gísla kom okkur stöðugt á óvart. Hann fékk tvö líf að gjöf, þurfti ekki öll níu. Hann var töframaður, okkar fyrsta og ein mesta gítarhetja. Hann náði ótrúlegri leikni og kunnáttu á aðalhljóðfæri sitt, gítarinn. Bjöggi er rokk- og poppsaga Íslands í hnotskurn og það er ekki lítið. Hann þekkti alla og allir þekktu hann. Hvar sem hann kom hitti hann fyrir aðdáendur sína, unga jafnt sem gamla, og ef einhver tónlistarmaður var goðsögn í lifanda lífi þá var það Bjöggi Gísla. Hann var í senn leitandi, skapandi, gefandi, hlýr og sannur og það var einmitt örlæti hans sem listamanns og persónu sem hreif áheyrendur því hann átti mjög auðvelt með að kanna og miðla af innsta kjarna tónlistarinnar, sem er samkennd og kærleikur. Oftast með slatta af húmor og leikhúsi. Hann gerði ekki mannamun því Bjöggi var jafnaðarmaður og mikill mannvinur og vinur vina sinna en um leið óvirkur einfari en ekki skaplaus. Samkennd hans kom skýrt fram þegar hann nýtti listamannalaun sín til að leika ókeypis fyrir tónlistarunnendur víða um landið. Hann naut sín best á sviðinu þar sem hann sletti úr gítarnum glettni og oft ólýsanlegum töfrum. Hann var sannur spunameistari og blúsari, það muna menn t.d. úr Tjarnarbúð forðum þegar hann lék með Náttúru. Menn verða seint mettir af slíkum snilldartilburðum og innlifun.

Það eru mikil forréttindi fyrir mig og fjölskyldu mína að hafa fengið að kynnast Bjögga. Það var unum að læra af honum, vinna með honum og njóta ótal samverustunda með honum og Diddu um árabil bæði í Meðalholtinu og síðustu árin í sumarbústaðnum undir Búrfellinu. Tilvera okkar hefði verið mun litlausari án þeirra. Á tímabili mættum við Kristján Jóhann sonur minn í Meðalholtið á föstudagseftirmiðdögum, drukkum te, borðuðum pönnsurnar hennar Diddu og ræddum um heimspekilega og þjóðfélagslega hluti um leið og Bjöggi sýndi okkur feðgum hvernig á að spila á sítar. Loftið var magnað þó það fyllti einungis sítarómar og mildur ilmur af reykelsi. Líklega hefur sítarleikur hans mildað guðinn Vishnu, sem í staðinn veitti honum eitt aukalíf sem hann nýtti til hins ýtrasta. Þann 25. febrúar sl. hringdi Bjöggi og var þá að halda upp á eins árs framhaldslíf sitt. Didda hafði bjargað lífi hans með snarræði þá árinu áður. Hann var að semja lag í tilefni þessara merku tímamóta og ég fengi að heyra það þegar tilbúið. Hann kvaddi okkur því miður nokkrum dögum síðar. Eitt lag, einn tónn skiptir ekki miklu máli í heildarópusunum hans Bjögga. Tónlist hans og framlag til tónlistarsögu Íslands er ómetanlegt. Við minnumst hans sem góðs og hlýs drengs, stundum óþekks, sem var stöðugt vinnandi og skapandi, að minnsta kosti þegar hann var ekki að „fljúga“ í kjallaranum í Meðalholtinu (með flughermi, sko). Líf sumra er galdri líkast.

Við Elinóra og Kristján Jóhann sendum Diddu og fjölskyldu innilegar samúðarkveðjur með þakklæti fyrir allt. Namaste!

Júlíus Valsson.

Ég vaknaði við syngjandi svartþröst fyrir utan gluggann minn. Hann söng svo fallega, línurnar minntu á fallegt sóló í þínum anda og þennan morgun gat ég ekki annað en sest niður og skrifað til þín.

Þegar ég hugsa til þín hugsa ég um ferðalögin sem ég er svo þakklát fyrir að hafa fengið að fara í með þér. Nokkur eru ógleymanleg! Við ferðuðumst saman um landið, spiluðum geggjað gigg á Akureyri, festumst á Hammond-hátíð vegna eldgoss, veiddum og spiluðum til skiptis á Seyðisfirði svo eitthvað sé nefnt. Svo eru það tónleikarnir á Langaholti í gegnum tíðina sem ég hlakkaði alltaf til.

Þú kynntir mig fyrir fullt af lögum og ég mun alltaf hugsa til þín þegar ég syng lög eins og Little wing eða Cant find my way home, Gimme shelter og Blackbird. Þú treystir mér til að syngja og spila lögin þín Doll in a dream og Afa á nokkrum tónleikum og það er mér afar kært. Ég varð svo stolt af sjálfri mér þegar þú varst það. Þegar þú leyfðir dóttur minni að upplifa líka að fá að spila með þér, hvattir hana áfram og hrósaðir fann ég enn meira þakklæti fyrir að hafa kynnst þér.

Það var líka svo gaman að heyra þig rifja upp ferðalögin sem fjölskyldur okkar fóru í saman. Þú hlóst svo mikið þegar þú sagðir frá og lékst allt með tilþrifum. Ein sagan var af því þegar veiði og viskí tóku yfir tjaldtúrinn og hlátrasköllin eftir því. Krakkarnir sofnaðir inni í tjaldi og fullorðna fólkið vakti allt of lengi að þinni sögn. Mér líður eins og ég muni eftir þessu ferðalagi þó svo að ég hafi aðeins verið þriggja ára, frásagnir þínar voru alltaf svo fullar af lífi.

Nú ert þú farinn í annars konar ferðalag. Farinn án nokkurs fyrirvara og alltof snemma. Ég er samt viss um að þú ert staddur í einhverju súperpartíi með öðrum álíka snillingum. Eða í lygnri á, í fallegri náttúru með stöngina þína. Ég er líka viss um að við hittumst aftur. Þangað til segi ég góða ferð elsku Bjöggi. Ég á eftir að sakna þín mikið.

Þín vinkona,

Margrét G. Thoroddsen.

Björgvin fór strengina fimari fingrum en flestir samferðamenn. Oft með eldspýtu eða strá í munni þegar einbeitingin var sem mest. Og brosið var á sínum stað, rétt eins og á Ronaldinho þegar hann skoraði og lagði fyrir sex mörk á Bernabeu og var klappaður upp! Og allt gat Björgvin spilað; frá hráu Stones-rokki yfir í indverskt ragú, og hefði sómt sér vel á Steely Dan-ópusi, samanber spretthart sóló hans í Pókerlagi Jóa Helga sumarið 1977, Driving in the City. Björgvin settist heldur ekki í helgan stein með árunum heldur hélt áfram að leita fyrir sér í músíkinni á eigin plötum og annarra. Þau eru mörg glettin og stríð gítarsólóin hans Björgvins. Ég hitti strengleikarann ljúfa fyrir utan Bónus í Skipholti á Þorlák og ræddum við Steve Winwood, ódæðisverkin í Úkraínu og á Gasa, svo og hérlenda stjórn, í drjúgt korter á tröppum þar. Þegar við kvöddumst sagði Björgvin: Gaman að sjá þig á gulum skóm, þú ert svo oft í gulum skóm!

Sólin vakir við ós og lón

jökull vakir við silfurskál.

Hafið kveður kjurt um nón

sólin kveður á rauðum skóm.

Eiginkonu Björgvins og sonum votta ég samúð.

Far vel Björgvin Gíslason.

Jóhann Areliuz.