Guðmundur Þórarinn Tulinius fæddist á Akureyri 19. ágúst 1943. Hann lést í Berlín 23. janúar 2024.

Foreldrar hans voru Carl Daníel Tulinius, f. 12. mars 1905 á Akureyri, d. 25. nóvember 1968, og kona hans Halla Tulinius (f. Guðmundsdóttir) húsmóðir, f. 17. október 1914 að Næfranesi í Dýrafirði, d. 21. september 1999.

Þann 19. maí 1972 kvæntist hann Elke Wilhelmine Hansen, f. 8. október 1942 í fríríkinu Danzig (nú Gedansk), d. 22. júní 2017. Foreldrar hennar voru Johannes Hansen, skipaverkfræðingur og prófessor við Tækniháskólann í Danzig, síðar prófessor við Tækniháskólann í Hannover og Háskólann í Hamborg, f. 9. maí 1902 í Hamborg, d. 1980, og kona hans Annemarie Hansen (f. Arkenau) húsmóðir, f. 4. nóvember 1917 í Fedderwarden/Wilhelmshaven, d. 1995. Börn Guðmundar og Elke eru: 1) Markús, f. 5. júní 1973, maki Antje Kitzmann-Tulinius, f. 19. ágúst 1976, börn þeirra eru Paul Jóhan, f. 2012, og Anna Carla, f. 2013. Þau búa í Münsterdorf í Norður-Þýskalandi. 2) Tómas, f. 5. júní 1973, maki Kristina Tulinius (f. Beyer), f. 2. september 1982. Börn þeirra eru Arne Fritz, f. 2013, Edda Finn, f. 2014, og Gylva Elke, f. 2019. Þau búa í Berlín. 3) Kristófer, f. 6. maí 1976, ókvæntur, býr í Leipzig.

Guðmundur lagði stund á skipaverkfræði fyrst við Tækniháskólann í Hannover og síðan við Háskólann í Hamborg og lauk diplómaprófi 1972. Að námi loknu starfaði Guðmundur við Institut für Schiffbau í Hamborg. Árið 1976 hóf hann störf við Slippstöð Akureyrar og árið 1980 lá leið fjölskyldunnar til Port Harcourt í Nígeríu. Árið 1983 var haldið á ný til Þýskalands og næstu árin starfaði Guðmundur sem skipaverkfræðingur og framkvæmdastjóri í Hamborg og Rostock-Warnemünde. Til Íslands kom hann aftur árið 2003 og starfaði fyrst sem framkvæmdastjóri Slippstöðvarinnar og síðar sem kennari í stærðfræði við Menntaskólann á Egilsstöðum. Guðmundur lauk námi sem leiðsögumaður og seinna meir lagði hann stund á heimskautarétt í lögfræði við Háskólann á Akureyri. Frá 2003 til 2013 áttu þau hjón tvö heimili, í Wedel hjá Hamborg og á Akureyri, en frá 2013 bjuggu þau alfarið á Akureyri.

Jarðarförin fer fram í Höfðakapellu, Akureyri.

Guðmundur var hár vexti, einstaklega iðjusamur og ákveðinn til allra verka og átti gott með að kynnast fólki. Hann var sérstaklega jákvæður og áhugasamur um hagi fólks, vel máli farinn, hafði góða rödd sem vakti eftirtekt viðstaddra. Hann var vinsæll leiðsögumaður með víðtæka þekkingu á málefnum lands og þjóðar. Hann lék golf og var hrókur alls fagnaðar í hópi kylfinga í Wedel.

Við kynntumst honum í Hamborg 1970 og áttum samleið með honum í stjórn Íslendingafélagsins. Þau hjónin Guðmundur og Elke voru góð heim að sækja og við minnumst ánægjulegra stunda í hópi vina og vandamanna á gamlárskvöldi eða við vínsmökkun langt fram á morgun! Fyrir allmörgum árum buðu Elke og Guðmundur okkur í dagsferð í fögru veðri til Öskju. Þetta var í júlí og Herðubreið birtist okkur tignarleg þegar við áðum í Herðubreiðarlindum. Síðasti spölurinn að Öskjuvatni reyndist þó torfær og það fór að snjóa svo að við urðum frá að hverfa. Til baka ókum við Möðrudal og nutum góðra veitinga þar. Sumarið 2012 hittum við Elke og Guðmund af tilviljun í Kerlingarfjöllum. Það var sannkallaður fagnaðarfundur. Þau voru þar á ferð með tengdaforeldrum Markúsar. Þetta var í síðasta sinn sem við hittum Elke.

Síðastliðin þrjú ár bjó Guðmundur í Berlín. Við hittum hann síðast í jólaboði 2021 í Hamborg, sem Guðfinna Pétursdóttir (Guffa) og maður hennar Rüdiger buðu til. Meðal gesta var þarna Stella Gísladóttir Thomsen, gömul vinkona frá Hamborgarárunum. Rifjuðum við þá upp gömul kynni okkar í stjórn Íslendingafélagsins. Nú er Guðmundur genginn á vit feðra sinna eftir erfið veikindi.

Í dag, 22. mars, verður hann lagður til hinstu hvílu við hlið konu sinnar. Blessuð sé minning þeirra.

Margrét og Sverrir Schopka.