Antony Blinken utanríkisráðherra Bandaríkjanna staðfesti í fyrrinótt að Bandaríkjastjórn væri að setja saman ályktun fyrir öryggisráð Sameinuðu þjóðanna, þar sem kallað er eftir tafarlausu hléi á átökum Ísraelsmanna og hryðjuverkasamtakanna Hamas.
Bandaríkin hafa til þessa beitt neitunarvaldi sínu gegn fyrirhuguðum ályktunum um átökin sem innihéldu orðið „tafarlaust“. Í ályktunardrögum Bandaríkjanna nú er talað um þörfina á „tafarlausu og varanlegu vopnahléi“ til þess að verja óbreytta borgara á Gasasvæðinu.
Blinken fundaði í gær í Egyptalandi með utanríkisráðherrum fimm arabaríkja og heimsækir Ísrael í dag. Sagði hann að Hamas yrði að sleppa öllum gíslum sínum til að vopnahlé gæti náðst.