Fjölskyldan Ingibjörg, Ólafur og börn á Stokkhólmsárunum.
Fjölskyldan Ingibjörg, Ólafur og börn á Stokkhólmsárunum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ingibjörg Helga Helgadóttir er fædd 22. mars 1974 á fæðingarheimilinu í Reykjavík og alin upp í Kópavogi. Fyrstu þrjú skólaárin gekk Ingibjörg í Digranesskóla og svo í Hjallaskóla. Eftir það lá leiðin í Menntaskólann við Hamrahlíð þaðan sem hún lauk stúdentsprófi

Ingibjörg Helga Helgadóttir er fædd 22. mars 1974 á fæðingarheimilinu í Reykjavík og alin upp í Kópavogi.

Fyrstu þrjú skólaárin gekk Ingibjörg í Digranesskóla og svo í Hjallaskóla. Eftir það lá leiðin í Menntaskólann við Hamrahlíð þaðan sem hún lauk stúdentsprófi. Eftir það tók hún próf í læknaritun frá Fjölbrautaskólanum við Ármúla og vann við það í tvö ár á Landspítalanum áður en leiðin lá í Háskóla Íslands í hjúkrun. Ingibjörg útskrifaðist þaðan 2002. „Ég fór að vinna á bráðamóttöku Landspítalans 2002-2005, sem og leysti af úti á landi í héraði með manni mínum sem er læknir og fór svo að vinna á Kleppi 2005-2007. Þetta voru afar lærdómsrík ár.“

Veturinn 2005-2007 nam Ingibjörg, samhliða vinnu, heilbrigðis- og lífssiðfræði við heimspekideild HÍ eða þar til hún flutti til Stokkhólms með fjölskylduna, þar sem maðurinn hennar fór í framhaldsnám í taugalækningum við Karólínska sjúkrahúsið. „Við Óli erum búin að vera saman síðan fyrsta ár í menntó og gift síðan 2004.“

Fyrstu tvö árin í Stokkhólmi vann Ingibjörg við klínískar lyfjarannsóknir á MS-sjúkdómnum á Karólínska sjúkrahúsinu. „Árið 2009 varð ég svo þeirrar gæfu aðnjótandi fyrir tilstuðlan Guðmundar Árna Stefánssonar, sem var sendiherra Íslendinga í Stokkhólmi, að ég fór að vinna hjá Sjúkratryggingum Íslands. Honum sem sendiherra hafði borist til eyrna erfið aðstaða sjúklinga og aðstandenda þeirra sem þurfa að leita flókinna lækninga við stundum lífshættulegum sjúkdómum og vildi koma á betri þjónustu við þennan viðkvæma hóp. Á ári hverju þarf mikið veikt fólk að leita út fyrir landsteinana eftir lækningu og vegna góðra tengsla íslenskra lækna við Svíþjóð fara þeir oft þangað og fer það ferli oftast í gegnum Sjúkratryggingar Íslands.

Ég hoppaði þarna algjörlega út í djúpu laugina því að verkefnið var ærið og verklýsing eða verkferlar ekki til staðar. Þetta starf var allt í senn afar gefandi, fallegt og oft mjög erfitt. Ég tók á móti sjúklingum og aðstandendum þeirra á flugvellinum og fylgdi þeim á meðferðareiningar eða dvalarstaði, sat með þeim í læknaviðtölum og túlkaði ef þess þurfti. Það má segja að ég hafi haldið í hönd þeirra allan tímann meðan á dvölinni stóð allt eftir þörfum hvers og eins. Að vera veikur eða með veikan ástvin í öðru landi fjarri sínu nánasta tengslaneti, á tungumáli og í umhverfi sem þú þekkir ekkert til í er afar krefjandi verkefni og er andlegur stuðningur afar mikilvægur þjónustuþáttur. En ég lít svo á að það hafi verið mikil forréttindi að hafa getað aðstoðað allt þetta fólk á erfiðustu stundum þess í lífinu. Sumir stoppuðu stutt en svo voru aðrir sem voru hjá mér í fleiri mánuði og eins og eðli erfiðra veikinda er biðu nokkrir ósigur í sinni baráttu.“

Fyrir þetta starf var Ingibjörg sæmd fálkaorðunni 2018. „Mér finnst það mikill heiður sem og gaman að tekið væri eftir starfi mínu sem hjúkrunarfræðingur í þágu Íslendinga á erlendri grundu. Þessu starfi sinnti ég í níu ár eða þar til ég flutti aftur heim til Íslands 2018.

Við heimkomu datt ég líka í lukkupott hvað vinnu varðar. Ég réð mig hjá Heilsuvernd sem er heilbrigðisþjónustufyrirtæki og starfa þar núna sem fagstjóri trúnaðarþjónustu og móttöku. Langamma mín sagði oft við mig þegar ég var lítil að það væri gott að temja sér það að vera sporlétt og þjónustulunduð við aðra og það hef ég haft að mínu lífsmottói og ég er ekki frá því að það hafi verið mín gæfa bæði í lífi og starfi.“

Ingibjörg hefur gaman af því að stunda góða útivist með fjölskyldu og vinum. „Ég hélt úti matarbloggi sem minningarbók í Svíþjóð því að matarboðin og gestirnir voru svo margir og fólkið vildi alltaf fá uppskriftir sem ég bý alltaf bara til á staðnum og kann ekki að fara eftir uppskrift.

Ég er mikil fjölskyldukona og svo er ég víst líka góð vinkona hef ég heyrt og nýt mín best heima að elda góðan mat með húsið fullt af fólkinu mínu og vinum. Heimili okkar í Stokkhólmi var oft fullt af vinum og fjölskyldu, góðri matarlykt og góðri stemningu. Afmæliskvöldinu ætla ég einmitt að eyða á heimili mínu með góðum vinkonum í góðri matarlykt og auðvitað í grímubúningi því að þá verður stemningin alltaf betri.“

Fjölskylda

Eiginmaður Ingibjargar er Ólafur Árni Sveinsson, f. 2.11. 1973, taugalæknir á Landspítalanum og prófessor við HÍ. Þau eru búsett í Kópavogi. „Ég var svo heppin að foreldrar mínir voru að minnka við sig húsnæði þegar við fluttum heim 2018 og ég gat keypt æskuheimilið mitt og erum við að gera það upp með góðri hjálp mágs míns.“

Foreldrar Ólafs eru Sigríður Anný Gunnlaugsdóttir, f. 15.12. 1951, fasteignasali og Sveinn Magnús Sveinsson, f. 26.4. 1950, læknir, bæði búsett í Reykjavík.

Börn Ingibjargar og Ólafs eru 1) Helgi Freyr, f. 6.8. 1999, háskólanemi; 2) Anna Sigríður, f. 2.9. 2003, stúdent; 3) Sveinn Egill, f. 13.9. 2011.

Systkini Ingibjargar eru Egill, f. 5.7. 1970, búsettur í Mosfellsbæ; Ásgrímur, f. 17.5. 1972, búsettur í Mosfellsbæ, og Guðrún, f. 13.12. 1980, búsett í Kópavogi.

Foreldrar Ingibjargar eru hjónin Helgi Gunnarsson, f. 5.3. 1950, byggingartæknifræðingur, og Þorbjörg Ásgrímsdóttir, f. 10.11. 1949, hjúkrunarfræðingur. Þau eru búsett í Kópavogi.