Þingfundur Lögin voru samþykkt eftir miklar umræður þar sem stjórnarandstaðan reyndi að fresta atkvæðagreiðslu.
Þingfundur Lögin voru samþykkt eftir miklar umræður þar sem stjórnarandstaðan reyndi að fresta atkvæðagreiðslu. — Morgunblaðið/Eggert
Ómar Friðriksson Agnar Már Másson Hermann Nökkvi Gunnarsson

Ómar Friðriksson

Agnar Már Másson

Hermann Nökkvi Gunnarsson

Frumvarp matvælaráðherra um breytingar á búvörulögum var samþykkt sem lög á Alþingi í gær með þeim breytingum sem meirihluti atvinnuveganefndar lagði til að gerðar yrðu á frumvarpinu. Sumar breytingar voru umdeildar, einkum þær að kjötafurðastöðvum í landbúnaði sé heimilt að sameinast og gera með sér samkomulag um verkaskiptingu og samstarf til að halda niðri kostnaði.

Auk þess er í frumvarpinu fjallað um eftirlit Samkeppniseftirlitsins með framkvæmd slíkra heimilda og um mörk samkeppnisréttar og búvörulaga. Lögin voru samþykkt með 26 atkvæðum gegn 19 eftir miklar umræður og gagnrýni þingmanna stjórnarandstöðunnar á þær breytingar sem varða undanþágur frá tilteknum ákvæðum samkeppnislaga. Tillögu Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur pírata og Guðmundar Inga Kristinssonar úr Flokki fólksins um að vísa frumvarpinu aftur til ríkisstjórnarinnar var vísað frá, einnig með 26 atkvæðum gegn 19.

Tryggja samkeppnisstöðuna

Í nýrri umsögn Bændasamtakanna um frumvarpið í gær er lýst afdráttarlausum stuðningi við að frumvarpið með þessum breytingum meirihluta atvinnuveganefndar verði að lögum. Metið hafi verið að rekstrarhagræðing við samþjöppun afurðastöðva geti numið á bilinu 0,9-1,5 milljörðum kr. auk þess að losa um fjárbindingu og minnka fjárfestingarþörf til framtíðar.

Trausti Hjálmarsson formaður Bændasamtakanna sagði við Morgunblaðið í gær að með samþykkt laganna fengju kjötafurðastöðvarnar heimild til ákveðinnar hagræðingar, að uppfylltum skilyrðum. Loksins hefði áfangasigri verið náð til hagsbóta fyrir landbúnað og neytendur á Íslandi. „Þá er boltinn hjá þeim að nýta sér það og ég vona að þeir geri það. Vegna þess að í grunninn snýst þetta alltaf um það að tryggja samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu gagnvart innflutningi,“ sagði Trausti, sem telur lögin myndu draga úr kostnaði við framleiðslu ákveðinna kjöttegunda. „Það eiga allir að hafa gott af því. Það er það sem þetta snýst um – að lækka kostnað – og ég veit ekki um neinn sem fagnar því ekki.“

Það kveður aftur á móti við annan tón í þeirri umsögn sem Samkeppniseftirlitið (SKE) sendi atvinnuveganefnd í fyrrakvöld. Þar eru breytingarnar um undanþágur kjötafurðastöðva frá samkeppnislögum harðlega gagnrýndar. Eftirlitið segir breytingatillögur nefndarinnar í reynd nýtt frumvarp og gjörbreytt frá efni upphaflegs frumvarps.

SKE segir m.a. að kjötafurðastöðvum verði heimilað að hafa með sér hvers konar samráð um verkaskiptingu, verðlagningu eða aðra þætti starfseminnar, sem sé ólögmætt í öðrum atvinnugreinum. Kjötafurðastöðvum verði heimilað að sameinast, án takmarkana, og engin dæmi séu um undanþágu af þessu tagi í nágrannalöndum. Verði hið breytta frumvarp að lögum geti „allar kjötafurðastöðvar landsins, ef þær svo kjósa, runnið saman, myndað eitt einokunarfyrirtæki og skaðað þannig með alvarlegum hætti hagsmuni bænda og neytenda“.

Sameiningar með skilyrðum

Þórarinn Ingi Pétursson formaður atvinnuveganefndar sagði við þingumræðurnar í gær að neytendur væru hafðir í fyrirrúmi í þessum breytingum. Ekki mætti gleyma því að samkeppni væri á matvörumarkaði. „Hún kemur að utan,“ sagði hann.

Þórarinn vék að gagnrýni SKE við þingumræðurnar í gær og sagðist m.a. gera alvarlegar athugasemdir við þá fullyrðingu Samkeppniseftirlitsins að afurðastöðvunum yrði heimilað að sameinast án allra takmarkana. Þetta væri einfaldlega rangt. Ef afurðastöðvarnar hygðust nýta sér heimild til sameiningar yrði það aðeins gert að fullnægðum ákveðnum skilyrðum sem tiltekin séu í frumvarpinu. Félög þyrftu í slíkum tilfellum að teljast frumframleiðendafélög.

Þórarinn vísaði því líka á bug að slíkar undanþágur sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu þekktust hvergi í nágrannalöndum. Benti hann á að í Noregi væru sérsniðnar undanþágur fyrir norskan landbúnað og þar giltu samrunareglur þar sem mætti beita misnotkun á markaðsráðandi stöðu en það væri langt í frá að slíkt væri gert hér á landi.

Við umræðurnar voru Jóhann Páll Jóhannsson þingmaður Samfylkingarinnar, Gísli Rafn Ólafsson þingmaður Pírata og Hanna Katrín Friðriksson þingmaður Viðreisnar meðal þeirra þingmanna stjórnarandstöðunnar sem óskuðu eftir frestun. En svo varð ekki.

Jóhann Páll, sem á sæti í atvinnuveganefnd, sagðist ítrekað en árangurslaust hafa kallað eftir því að málið færi aftur inn í nefndina vegna breytinganna sem búið var að gera á því, kallað yrði eftir umsögnum á nýjan leik til að tryggja frekara samráð og eins breiða sátt og hægt væri til að liðka fyrir frekari hagræðingu í greininni í þágu neytenda og bænda. Samfylkingin væri sammála markmiðunum sem sett voru í upphafi þegar frumvarpið var lagt fram.

Breytingarnar fela m.a. í sér undanþágu afurðastöðva í kjötiðnaði frá samkeppnislögum og gerir þeim auðveldara fyrir að sameinast. „Sem þýðir það að við verðum komin með Kjötafurðir hf.; væntanlega eitt fyrirtæki sem sér um allt og hefur þar af leiðandi orðið einokunarstöðu á Íslandi og getur hækkað verðið gagnvart okkur neytendum án þess að við getum nokkuð að gert og það sama gildir um það hvað er borgað til bænda því það verður bara ein afurðastöð eftir,“ sagði Gísli Rafn í ræðustól Alþingis.

Vöruðu við samþykkt

Breytingarnar sem gerðar voru á frumvarpinu milli annarrar og þriðju umræðu voru einnig harðlega gagnrýndar í sameiginlegri yfirlýsingu VR, Neytendasamtakanna, Samtaka verslunar og þjónustu og Félags atvinnurekenda í gær, sem vöruðu eindregið við samþykkt þess. Það gerði ASÍ einnig.

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra gerði grein fyrir atkvæði sínu við afgreiðslu frumvarpsins í gær og benti á að þegar samkeppnislögin voru sett um 1990 hefði svipuð löggjöf verið sett í öðrum norrænum löndum. Í öllum þeim löndum nema á Íslandi hefðu afurðastöðvar og samstarf framleiðenda verið undanþegið þeim lögum. 2004 hefði samkeppnisstaða íslenskra bænda verið leiðrétt þegar undanþága var gefin vegna mjólkuriðnaðar. „Nú 20 árum síðar erum við að klára verkefnið að láta íslenska bændur eiga möguleika á að sitja við sama borð og kollegar þeirra á Norðurlöndum og í Evrópu. Ég fagna þessari niðurstöðu gríðarlega,“ sagði Sigurður.

Höf.: Ómar Friðriksson, Agnar Már Másson