Ávarp Þorsteinn Már Baldvinsson stjórnarformaður SVN.
Ávarp Þorsteinn Már Baldvinsson stjórnarformaður SVN. — Morgunblaðið/Hákon Pálsson
„Það er ekki ljóst hvaða hagsmuni Samkeppniseftirlitið á Íslandi er að verja.“ Þetta sagði Þorsteinn Már Baldvinsson stjórnarformaður Síldarvinnslunnar á aðalfundi félagsins í gær þar sem hann gagnrýndi Samkeppniseftirlitið (SKE) harðlega

„Það er ekki ljóst hvaða hagsmuni Samkeppniseftirlitið á Íslandi er að verja.“

Þetta sagði Þorsteinn Már Baldvinsson stjórnarformaður Síldarvinnslunnar á aðalfundi félagsins í gær þar sem hann gagnrýndi Samkeppniseftirlitið (SKE) harðlega. SKE tilkynnti í byrjun febrúar að eftirlitið hefði tekið til skoðunar kaup Síldarvinnslunnar á helmingshlut í sölufyrirtækinu Ice Fresh Seafood af Samherja.

Þorsteinn Már sagði í ávarpi sínu á fundinum að fjárfestingin í Ice Fresh Seafood hefði engin áhrif á íslenskan markað eða samkeppni hér innanlands, enda seldi fyrirtækið allar afurðir á erlendan markað.

„Hvaða hagsmuni er Samkeppniseftirlitið þá að verja með sinni athugun? Er stofnunin að standa vörð um hagsmuni kaupenda sjávarafurða í Evrópu og Asíu? Eru það stórar verslunarkeðjur í Frakklandi?“ spurði Þorsteinn Már. Hann sýndi fundargestum í kjölfarið veltu nokkurra af þeim verslunarkeðjum sem Ice Fresh Seafood er í viðskiptum við. Ice Fresh Seafood nær hvergi 0,05% af veltu þessara fyrirtækja.

„Undanfarin ár hef ég ítrekað bent á að umræðan um stærð íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja er á villigötum. Staðreyndin er sú að íslenskur sjávarútvegur í heild sinni er agnarsmár í samanburði við þau risavöxnu erlendu sjávarútvegsfyrirtæki sem við erum í samkeppni við á erlendum mörkuðum,“ sagði hann jafnframt.

Þá sagði Þorsteinn Már að SKE væri í mörgum tilvikum að gera íslenskum fyrirtækjum, sem starfa á erlendum mörkuðum í samkeppni við risavaxna keppinauta, erfitt fyrir. gislifreyr@mbl.is