Arinbjörn Rögnvaldsson
arir@mbl.is
Fyrsta græna húsið, eins og það er skilgreint, á Íslandi mun rísa á Frakkastíg 1. Fasteignaþróunarfélagið Iða ehf. reisir húsið en félagið bar sigur úr býtum í samkeppni Reykjavíkurborgar um „grænt húsnæði framtíðar,“ sem hefur það að markmiði að minnka kolefnispor húsnæðis hér á landi um 50% ásamt því að leggja áherslu á að endurnýta auðlindir í uppbyggingunni eins og kostur er.
Húsnæði framtíðarinnar
„Við komum verkefninu af stað, settum saman teymi með dönsku arkitektastofunni Lendager og tillagan okkar varð hlutskörpust á þessum reit og við erum að fara að byggja núna,“ segir Björt Ólafsdóttir, fv. ráðherra og nú framkvæmdastjóri og einn eigenda Iðu, í samtali við Morgunblaðið.
Björt segir aðspurð að félagið hafi verið stofnað í þeim tilgangi að koma að uppbyggingu á grænu húsnæði og fjölbýlishúsið sem rís á Frakkastíg 1 verður fyrsta byggingin sem félagið reisir með þeim hætti.
„Við vinnum eftir þeirri hugmyndafræði og erum að reyna að koma af stað nýsköpun í mannvirkjagerð með því að endurnýta auðlindir og færa það í hringrásarkerfið, segir Björt, spurð nánar um hugmyndafræðina.
Ábyrgur fyrir 30-40% losunar
Að hennar sögn hefur byggingariðnaðurinn setið eftir í framþróun á hringrásarkerfinu og þótt of línulegur þegar kemur að nýtingu auðlinda á byggingarstigi, notkun og þegar húsum er fargað. Mannvirkjageirinn er að hennar sögn ábyrgur fyrir um 30-40% losunar kolefnis á heimsvísu og á Íslandi og af því eru borgir ábyrgar fyrir 90%.
„Á framkvæmdartíma húsa verður til mikil úrgangur af mannvirkjagerðinni og það er ein meginstoðin hjá okkur er að huga að því hvernig auðlindir verði endurnýttar í byggingum og byggja hús sem eru með minna kolefnisspor og álag á náttúru og umhverfið en ella,“ útskýrir hún.
Kostnaðarbókhald um kolefni
Á Frakkastíg er fyrst og fremst verið að hanna hús sem virkar í íslenskum aðstæðum, þ.e. getur þolað vind, jarðskjálfta og regn, en hönnunarferlið er öðruvísi en vanalega.
„Við erum með sömu fasta, þ.e. deiliskipulag sem á að fara eftir, ásamt framkvæmdar- og kostnaðaráætlun sem þarf að ganga upp fyrir fjárfesta og fjármögnunaraðila. Í hönnunarferlinu er haldið kostnaðarbókhald um kolefni hússins og það bókhald þarf að ganga upp við fyrrnefndar breytur. Mismunandi leiðir í byggingarhlutum eru mátaðar við fyrirliggjandi skipulag og metið hvaða leið hentar í kolefnisbókhaldinu miðað við hefðbundið kostnaðarbókhald,“ útskýrir Björt að lokum.
Græn mannvirkjagerð
Leitast við að endurnýta auðlindir með nýsköpun frá byggingu, notkun og þegar mannvirkin eru rifin.
Byggingariðnaðurinn er ábyrgur fyrir 30-40% kolefnislosunar, af því eiga borgir 90%.
Kolefnisbókhald þarf að stemma við kostnaðarbókhald fyrir fjárfesta og fjármögnunaraðila.