Vilhjálmur Bjarnason
Vilhjálmur Bjarnason
Innlend efnahagsmál komust sjaldan á forsíðu, nema þegar gengið féll, og þegar hörmungarfréttir bárust af verði á þorskblokk, og mjöli og lýsi.

Vilhjálmur Bjarnason

Það var merkilegt að lesa Morgunblaðið í æsku minni. Heimsfréttir með mannfalli í Víetnam voru umfjöllunarefni. Þó bar svo við að það komu fréttir um það hve mikið Brimbrjóturinn í Bolungarvík hafði lengst eða sigið, ellegar staðið af sér norðvestan áhlaup. Ritstjóranum, sem jafnframt var þingmaður Norður-Ísafjarðarsýslu og síðar Vestfjarðakjördæmis, tókst með þessu að tryggja sér 70% kjörfylgi í bænum með góðu hugarþeli.

Sorglegast var þó að lesa hörmungarfréttir af mannsköðum á forsíðunni.

Innlend efnahagsmál komust sjaldan á forsíðu, nema þegar gengið féll og þegar hörmungarfréttir bárust af verði á þorskblokk, og mjöli og lýsi. Verðlækkanir á afurðum voru vísbendingar um væntanlega gengisfellingu og greiðslujafnaðarerfiðleika.

Aðdragandi efnahagserfiðleika

Aðdragandi gengisfellingar var ávallt nokkur, en fæstum sýnilegur. Það voru örfáir sérlegir áhugamenn um efnahagsmál, sem rýndu í tölur um innflutning og útflutning og gátu greint að eitthvað var á seyði.

Vissulega var öll greining þægilegri þegar það voru innflutningshömlur. Innflutningshömlur ráða engu um efnahagserfiðleika þegar til lengdar lætur. Ráðherrar og embættismenn geta ekki haldið á móti þegar eftirspurn er til staðar.

Síðustu innflutningshömlur, sem settar voru, voru aðgerðir ríkisstjórnar Ólafs Jóhannessonar haustið 1978, þegar sett var á innborgunarskylda vegna innflutnings nokkurra vöruflokka. Sennilega er sú ríkisstjórn næstversta ríkisstjórn lýðveldistímans. Erfiðleikar og rugl í efnahagsmálum hélt áfram því eftirspurn var fyrir hendi.

Það er því miður svo að sérvitringar í efnahagsmálum eru ekki hávær stétt. Sérvitringarnir gefa aðeins frá sér hljóð þegar komið er að bjargbrún. Eða að enginn vill hlusta fyrr! Þá verða efnahagsmál efnahagserfiðleikar.

Hvað er greiðslujöfnuður?

Greiðslujöfnuður og fjármagnsjöfnuður eru mikilvægustu mælikvarðar í efnahagsmálum sérhvers ríkis. Í greiðslujöfnuði birtist:

Vöruskiptajöfnuður

Þjónustujöfnuður

Greiddar tekjur og gjöld af fjárfestingum yfir landamæri (arðgreiðslur)

Fjármagnsjöfnuður sýnir:

Lánahreyfingar við útlönd

Fjárfestingahreyfingar milli landa, beinar og óbeinar

Hættulegasta stærðin hér eru erlendar skammtímahreyfingar í lánaviðskiptum, stundum kallað vaxtamunarviðskipti. Það er tilraun til að hafa áhættulausan hagnað af vaxtamun í mismunandi myntum. Háir stýrivextir hér eru gott andlag fyrir vaxtamunarviðskipti á meðan stýrivextir í meginmyntum eru töluvert lægri.

Endastaður greiðslu- og fjármagnsjafnaðar eru erlendar eignir eða skuldir.

Það er gjarna talað um gjaldeyrisvarasjóð Seðlabankans og spurt hvort forðinn sé skuldsettur? Óskuldsettur forði er merki um gott ástand á forða.

Til viðbótar við gjaldeyrisforða Seðlabankans eru gjaldeyriseignir íslenskra lífeyrissjóða og erlendar lausafjáreignir (e. cash and cash equivalent) íslenskra fyrirtækja og einstaklinga. Fyrirtæki eins og Landsvirkjun, Icelandair og nokkur sjávarútvegsfyrirtæki verða að eiga erlent lausafé til að geta staðið við skuldbindingar sínar erlendis án þess að eiga undir duttlungum stjórnmálamanna um yfirfærslur, eða að eignir eru lítt tryggðar í íslenskum fjármálafyrirtækjum.

Þannig er stór eða lítill gjaldeyrisforði ekki eins sterk vísbending um gengisfellingu.

Það eru nefnilega til áhrifamiklir íslenskir stjórnmálamenn sem telja að bankainnistæður fyrirtækja eigi að vera utan innstæðutrygginga hér á landi. Þeir gera sér ekki grein fyrir mikilvægi þess að koma í veg fyrir greiðslufall lána.

Hvað segir dr. Benjamín Eiríksson um gengisfellingu?

Fyrstu vitrænu skrif um Íslensk efnahagsmál á síðustu öld eru í riti dr. Benjamíns Eiríkssonar í ritinu „Orsakir erfiðleikanna í atvinnu og gjaldeyrismálum“ frá 1938.

„Aðalröksemdirnar gegn lækkun krónunnar hafa verið, að ég held, að ríkisskuldirnar hækkuðu þar með (í íslenskum krónum), enn fremur erlendar skuldir banka, bæjarfélaga, fyrirtækja og kaupsýslumanna og annarra, að kaupgeta almennings myndi minnka, en það væri ekki æskilegt, bæði með tilliti til lífskjara almennings og þeirra framleiðslugreina, sem framleiða fyrir innlendan markað (þessi röksemd kom þó fyrst fram miklu síðar en hinar), enn fremur að framleiðslan til útflutnings þurfi sjálf innflutnings með og sá innflutningur myndi stíga í verði.“

Og svo kemur dr. Benjamín með röksemdirnar með gengislækkuninni:

„Aðalröksemdirnar með gengislækkuninni voru þær, að framleiðendur þeir sem framleiða fyrir erlendan markað, þyrftu að fá meira greitt fyrir afurðir sínar, framleiðsla þeirra myndi að öðru jöfnu aukast, fjármagnið streyma í þær atvinnugreinar og atvinnulífið blómgast á ný vegna þýðingar þessara atvinnuvega fyrir þjóðarbúskapinn, enn fremur að við þar með slyppum við gjaldeyrisvandræðin, sem óhjákvæmilega hlytu að skapast, og óróa og árekstra þá, sem innflutningshöftin hafa í för með sér.“

Útskýringar á gengislækkun verða ekki betur settar fram. Eðlilegt gengi, sem svarar til framleiðni, leiðir til þess að innflutningshöft eru óþörf.

Síðar í riti sínu útskýrir dr. Benjamín á hvern veg Landsbanki Íslands hafi brugðist öðru hlutverki sínu, seðlabankahlutverkinu, með því að styðja við óraunhæfar ráðstafanir ríkisstjórna í efnahagsmálum.

Ferðaþjónusta og viðskiptahalli

Það er verðugt viðfangsefni að rannsaka áhrif Loftleiða hf. á viðskiptajöfnuð á árunum milli 1960 til 1979 þegar reynt var að færa efnahagsstjórn í vitrænt horf.

Þess í stað lætur skrifari nægja að birta mynd af viðskiptajöfnuði í hlutfalli við landsframleiðslu á þessari öld. Myndin sýnir jákvæða fylgni eftir að ofurvöxtur hljóp í ferðaþjónustu.

Hagstæður viðskiptajöfnuður kemur heim og saman við gjaldeyrisforða Seðlabanka Íslands og erlendar eignir lífeyrissjóða.

Fleira kemur til, eins og stöðugleikaframlag föllnu bankanna. Áhrif stöðugleikaframlagsins á innlenda eftirspurn eftir erlendri þjónustu og fjármagnstilfærslum til útlanda eru vanmetin í ræðu og riti.

Víst er að hagrýnar ættu að einbeita sér að greiðslujöfnuði fremur en að segja til um hvað hollt er og gott að kaupa.

Að versla í firðinum

Aldrei hafði verið betra að versla í firðinum en þetta haust. Þegar Ingólfur Arnarson klappaði mönnum á öxlina, þá klappaði Túliníus Jensen mönnum á kinnina. Þegar Ingólfur Arnarson sagði elsku vinur við menn, þá sagði Túliníus Jensen ástin mín við menn. Þegar Ingólfur Arnarson faðmaði menn að sér, þá var það Túliníus Jensen sem kysti menn. Hið kristilega hugarþel i viðskiptum hafði yfirstigið öll siðsamleg takmörk. Enginn orðaði skuld.“

Svona er umgengni þegar gengi er rétt skráð og greiðslujöfnuður er í lagi.

Höfundur var alþingismaður og lektor í fjármálum.

Höf.: Vilhjálmur Bjarnason