Orri Freyr Jóhannsson fæddist á Sauðárkróki 27. desember 1983. Hann lést á heimili sínu 7. mars 2024.
Móðir hans er Pála María Árnadóttir, f. 25. júlí 1964, lyfjatæknir og maki hennar er Kristján Theodórsson framkvæmdastjóri. Faðir hans er Jóhann Freyr Aðalsteinsson, f. 1. mars 1965, starfsmaður EFTA í Genf, og maki hans er Gúa Hlífarsdóttir. Systkini Orra Freys eru sammæðra Bríet Ósk Kristjánsdóttir og Theodór Kristjánsson og samfeðra Bárður Jökull Bjarkarson, Freyja María Jóhannsdóttir og Tómas Freyr Jóhannsson.
Fyrstu æviárin bjó Orri Freyr með móður sinni á Sauðárkróki en þau fluttu svo til Reykjavíkur 1986 þar sem hann bjó lengst af síðan. Á Sauðárkróki bjuggu Orri Freyr og móðir hans hjá foreldrum hennar, þeim Árna Gunnarssyni og Elísabetu Svavarsdóttur, og var Orri Freyr alla tíð tengdur þeim sterkum böndum og átti hjá þeim sitt annað heimili, einnig eftir að þau fluttu til Reykjavíkur. Hann bjó nær alla tíð í Vesturbænum og lauk þar hefðbundinni skólagöngu. Hann fór í Kvennaskólann og lauk þaðan stúdentsprófi eftir að hafa gert hlé á námi sínu um skeið.
Orri Freyr stundaði ungur fótbolta með KR og æfði lengi keilu með sama félagi. Hann var meðal efnilegustu leikmanna landsins í keilu á unglingsárum. Hann starfaði um nokkurra ára skeið sem vaktstjóri hjá Olís á Klöpp og vann síðar fjölbreytt störf hjá Íslandspósti. Orri Freyr var mikill dýravinur og náði einstakri tengingu við þau dýr sem hann umgekkst. Hann hafði gaman af ferðalögum til framandi landa og áhuga á mismunandi menningarheimum og siðum.
Orri Freyr var óþrjótandi uppspretta alls kyns fróðleiks og einstaklega vel lesinn og fróðleiksfús. Hann kynnti sér gjarnan málefnin ofan í kjölinn og var alltaf tilbúinn í umræður um stóru spurningar lífsins.
Útförin hefur farið fram í kyrrþey.
Líttu sérhvert sólarlag,
sem þitt hinsta væri það.
Því morgni eftir orðinn dag
enginn gengur vísum að.
(Bragi Valdimar Skúlason)
Á fallegu vorkvöldi barst mér sú harmafregn að Orri Freyr væri látinn. Það er ótrúlega sárt að meðtaka að ungur maður sé farinn.
Orri Freyr kom inn í fjölskyldu mína þegar Kristján bróðir minn og Pála móðir hans tóku saman þegar Orri var ungur drengur. Líflegur drengur sem var mjög fróðleiksfús og síspyrjandi. Góð viðbót við þá sístækkandi hóp systkinabarna minna. Strax varð Orri allra yndi og sérstök vinátta varð á milli hans og stjúpafa hans. Sú vinátta hélst þar til stjúpafi hans lést þegar Orri var enn á táningsaldri. Orri var ef til vill það sem sumir kalla gömul sál því hann var líka mjög hændur að móðurafa sínum og móðurömmu, þeim Árna og Elísabetu. Samband þeirra var einstakt.
Orri var líflegur drengur með sterkar skoðanir, hann stundaði keilu af miklum áhuga og vá hvað hann var efnilegur spilari. Gamli maðurinn ég hafði ekki roð við honum.
Þegar Orri varð fullorðinn tók lífið við og við hittumst sjaldnar en ég fylgdist með honum úr fjarlægð. Hann þurfti að glíma við miklar áskoranir í lífinu og það var ekki alltaf auðvelt, en hann tókst á við þær áskoranir af bestu getu.
Síðustu árin einkenndust af veikindum sem oft voru erfið, bæði fyrir Orra og þá sem næstir honum voru. Hann átti þó alltaf vísan stuðning móður sinnar, stjúpföður og systkina, en mikil væntumþykja var á milli Orra og systkina hans þeirra Bríetar og Theodórs. En veikindin tóku sinn toll og höfðu betur að lokum.
Síðasta minning mín um Orra var þegar við ásamt fjölskyldu hans vorum að spila spurningaspil á nýársnótt og vakti athygli mína hve fróður Orri var. Reyndar engin furða þar sem hann var víðlesinn og hafði breitt áhugasvið. Það yljar mér að eiga þessa síðustu minningu.
Nú þegar komið er að leiðarlokum er ég sannfærður um að afar hans báðir og Agga amma hans hafa tekið á móti honum í sumarlandinu.
Elsku Pála, Kristján, Bríet Ósk og Theodór, ég sendi ykkur mínar innilegustu samúðarkveðjur. Megi góðar minningar lifa í hjarta okkar allra.
Þar sem englarnir syngja sefur þú
sefur í djúpinu væra.
Við hin, sem lifum, lifum í trú
að ljósið bjarta skæra
veki þig með sól að morgni.
(Bubbi Morthens)
Þóroddur.
Ég kynntist Orra Frey þegar hann var mjög ungur. Ég og Pála mamma hans höfðum farið saman í ferðalag um Evrópu rúmu ári áður en hann kom í heiminn og þar varð til vinátta sem hefur staðið í gegnum súrt og sætt. Orri Freyr heillaði mig frá fyrstu tíð. Hann virtist ekki alltaf passa í þennan litla líkama sinn því útlit og seinna talsmáti benti til þess að hann væri nokkrum áratugum eldri. Hann notaði sjaldgæf orð sem hann vissulega lærði hjá ömmum og öfum sem hann átti mikið af. En að öðrum ólöstuðum þá voru Beta amma og Árni afi honum sem aðrir foreldrar og þar fékk hann fróðleik og orðaforða sem ekki öll börn alast upp við. Hann átti alltaf samastað hjá þeim og var það ómetanlegt fyrir hann. Þegar Orri var tæplega þriggja ára fluttu hann og mamma hans til Reykjavíkur og þar fann hann sér tvær ömmur í viðbót og einn afa. Amma mín, mamma mín og stjúpfaðir minn féllu að sjálfsögðu kylliflöt fyrir þessum flotta dreng sem átti auðvelt með að heilla fólk með góðvild sinni og blíðu. Amma var örlát á pönnukökur og hjá mömmu var skápur í eldhúsinu sem Orri kallaði boðstólaskáp. Þegar hann kom í heimsókn spurði hann hvort ekki væri eitthvað til í boðstólaskápnum. Hann fékk líka mikla og góða athygli þar.
Þegar Orri Freyr var 5 ára fór hann með mömmu sinni og mér til Mallorka. Þar áttum við góða daga og var Orri Freyr fljótur að átta sig á staðháttum. Íbúðin okkar var á annarri hæð og voru fleiri Íslendingar á sama hóteli. Íbúðirnar sneru flestar inn í sundlaugargarðinn svo við höfðum ekki áhyggjur af honum þó hann vildi fara niður á undan okkur. Eitt sinn var hann kominn niður og við sátum úti á svölum, þá kallaði hann upp til okkar: Stelpur, ég verð úti á bar. Á sundlaugarbarnum fékkst meðal annars ís sem hann fékk í þó nokkru magni í þessari ferð. Við fórum líka í dýragarð í þessari ferð og keyrðum þar um í bíl. Eitt skipti komst bíllinn ekki leiðar sinnar fyrir ljóni. Þá sagði Orri Freyr nú komumst við ekki áfram, það er ljón í veginum.
Ég bjó með þeim mæðginum í eitt ár. Það var mjög skemmtilegt og lærdómsríkt. Orri hafði skemmtilegar skoðanir á hlutunum, t.d. treysti hann mér einni til að gera við hjólið sitt, en ekki til að gera kokteilsósu sem honum líkaði. Það var ekki rétt bragð af henni.
Orri Freyr var blíður og góður, vildi öllum vel. Hann gat verið hvatvís og hann spurði um næstum allt sem honum datt í hug. Hann var fróðleiksfús. Hann var tryggur. Hann vildi að fólkinu í kringum hann liði vel.
Þegar árin liðu og Orri Freyr óx úr grasi minnkaði samneyti okkar en ég fékk alltaf knús þegar við hittumst og það var alltaf jafn gaman að hitta hann og spjalla við hann. Nú kveð ég með söknuði fallegan og ljúfan dreng sem fór allt of snemma frá okkur. Ég sendi Pálu Maríu, Kristjáni, Bríeti Ósk, Theodóri og Betu ömmu hans mínar dýpstu samúðarkveðjur. Einnig votta ég Jóhanni föður hans og hans fjölskyldu samúð mína.
Sigríður Pálsdóttir (Sirrý).