Köln Leikmenn íslenska landsliðsins fagna eftir sigurinn gegn Austurríki í lokaleik sínum á Evrópumótinu í Þýskalandi í Köln í janúar á þessu ári.
Köln Leikmenn íslenska landsliðsins fagna eftir sigurinn gegn Austurríki í lokaleik sínum á Evrópumótinu í Þýskalandi í Köln í janúar á þessu ári. — AFP/Ina Fassbender
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Íslenska karlalandsliðið í handknattleik dróst í 3. riðil undankeppni Evrópumótsins 2026 en dregið var í riðla í Kaupmannahöfn í gær. Lokakeppnin fer fram í Danmörku, Noregi og Svíþjóð dagana 15. janúar til 1

EM 2026

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Íslenska karlalandsliðið í handknattleik dróst í 3. riðil undankeppni Evrópumótsins 2026 en dregið var í riðla í Kaupmannahöfn í gær. Lokakeppnin fer fram í Danmörku, Noregi og Svíþjóð dagana 15. janúar til 1. febrúar.

Ísland var í efsta styrkleikaflokki þegar dregið var í riðlana en mótherjar Íslands í undankeppninni verða Grikkland úr öðrum styrkleikaflokki, Bosnía úr þriðja styrkleikaflokki og loks Georgía úr fjórða styrkleikaflokki.

Tvö efstu lið riðilsins tryggja sér sæti í lokakeppninni og þá fara einnig fjögur lið með bestan árangur í þriðja sæti riðlakeppninnar áfram í lokakeppnina.

Íslenska liðið freistar þess að tryggja sér sæti í lokakeppni EM í 14. sinn og í 14. sinn í röð. Liðið hefur tekið þátt í öllum Evrópumótum frá árinu 2000 þegar mótið fór fram í Króatíu og Ísland hafnaði í 11. sæti mótsins.

Bestum árangri náði íslenska liðið á EM 2010 í Austurríki þegar liðið hafnaði í þriðja sæti eftir sigur gegn Póllandi í bronsleiknum í Vínarborg.

Þá hefur Ísland einu sinni hafnað í fjórða sæti á EM, árið 2002 í Svíþjóð, og einu sinni í fimmta sæti, árið 2014 í Danmörku.

Íslenska liðið hafnaði í 10. sæti á síðasta Evrópumóti sem fram fór í Þýskalandi í janúar á þessu ári þar sem liðið vann þrjá leiki á mótinu, gerði eitt jafntefli og tapaði þremur leikjum.

Aldrei mætt Georgíu áður

Grikkland hefur einu sinni tekið þátt í lokakeppni EM, í Þýskalandi í ár, en þar hafnaði liðið í 23. sæti mótsins. Grikkir töpuðu öllum þremur leikjum sínum í riðlakeppninni, gegn Portúgal, Danmörku og Tékklandi.

Ísland og Grikkland mættust í tveimur vináttulandsleikjum í Aþenu í Grikklandi á dögunum þar sem Ísland vann tvo sannfærandi sigra, 33:22 og 32:25.

Bosnía hefur þrívegis tekið þátt í lokakeppni EM, árin 2020, 2022 og nú síðast í Þýskalandi í janúar þar sem liðið hafnaði í 24. sæti.

Bosnía bíður ennþá eftir sínum fyrsta sigri í lokakeppni EM en liðið tapaði öllum þremur leikjum sínum í riðlakeppninni í Þýskalandi gegn Svíþjóð, Hollandi og Georgíu.

Ísland og Georgía hafa aldrei mæst áður í A-landsleik áður en Georgía tók þátt í lokakeppni EM í fyrsta sinn í Þýskalandi í janúar, líkt og Grikkland, og hafnaði í 18. sæti á mótinu.

Liðið tapaði fyrir Hollandi og Svíþjóð en vann svo þriggja marka sigur gegn Bosníu í lokaleik riðlakeppninnar, 22:19.

1. umferð undankeppninnar verður leikin dagana 6. og 7. nóvember 2024, 2. umferðin dagana 9. og 10. nóvember, 3. umferðin 12. og 13. mars árið 2025, 4. umferðin 15. og 16. mars, 5. umferðin 7. og 8. maí og 6. umferðin 11. maí.

Króatía, undir stjórn Dags Sigurðssonar, dróst í 5. riðil ásamt Tékklandi, Belgíu og Lúxemborg, og Þýskaland, undir stjórn Alfreðs Gíslasonar, dróst í 7. riðil ásamt Austurríki, Sviss og Tyrklandi.

Danmörk, Noregur og Svíþjóð sitja öll hjá í undankeppninni sem heimaþjóðir og þá sitja Frakkar einnig hjá sem ríkjandi Evrópumeistarar.

Leikið verður í Herning í Danmörku í lokakeppninni, í Osló í Noregi og loks Kristianstad og Malmö í Svíþjóð.