Verslunarmenn í VR og í Landssambandi íslenskra verslunarmanna hafa samþykkt nýgerða kjarasamninga við Samtök atvinnulífsins og við Félag atvinnurekenda með miklum meirihluta þeirra sem þátt tóku í atkvæðagreiðslunni

Verslunarmenn í VR og í Landssambandi íslenskra verslunarmanna hafa samþykkt nýgerða kjarasamninga við Samtök atvinnulífsins og við Félag atvinnurekenda með miklum meirihluta þeirra sem þátt tóku í atkvæðagreiðslunni.

Samningur VR við SA var samþykktur með 78,56% atkvæða en nei sögðu 18,98%. Á kjörskrá voru 39.639 félagsmenn og greiddu 6.982 atkvæði. Var kjörsóknin því 17,61% að því er fram kemur á vef VR. Kjörsóknin er hlutfallslega nánast sú sama og í nýafstöðnum atkvæðagreiðslum um kjarasamningana í Eflingu (17,96%) og Starfsgreinasambandinu (17,55%).

Kjarasamningur VR við FA var samþykktur með 80,12% atkvæða en 18,35% sögðu nei. Á kjörskrá voru 1.242 félagsmenn og greiddu 327 atkvæði. Var kjörsóknin 26,33%.

Atkvæðagreiðslan var rafræn og stóð hún yfir dagana 18. til 21. mars.

Niðurstöður atkvæðagreiðslu um samninga við SA og FA lágu einnig fyrir í gær meðal félaga í LÍV. „Kjarasamningur LÍV við SA var samþykktur með 88,2% atkvæða í kosningu sem lauk á hádegi í dag, en já sögðu 643 félagsmenn í félögum innan LÍV og nei sögðu 67 eða 9,19%. Þau sem tóku ekki afstöðu voru 19 eða 2,61%. Á kjörskrá um samning LÍV og SA voru 3.576 félagsmenn í félögum innan LÍV og greiddu 729 atkvæði og var kjörsókn því 20,39%,“ sagði í frétt á vefsíðu LÍV í gær.

Kjarasamningur LÍV við FA var samþykktur með 93,75% atkvæða. Á kjörskrá um samning LÍV og FA voru 55 LÍV-félagar og greiddu 16 atkvæði og var kjörsókn því 29,09%. omfr@mbl.is