Karl J. Steingrímsson fæddist 19. mars 1947. Hann lést 22. febrúar 2024.

Útför hans fór fram 19. mars 2024.

Hann Kalli okkar er látinn.

Það er svo margt sem kemur upp í hugann þegar við hugsum til hans. Kalli og Ester hafa verið svo lengi með okkur á þessari lífsgöngu.

Við Kibba höfum átt óteljandi góðar stundir saman með Kalla og Ester hér heima og að heiman.

Kalli hafði einstaka hæfileika til að ná ótrúlegu sambandi við ókunnuga hvar og hvenær sem var.

Hann fékk fólk sem hann þekkti ekki neitt til að gera ótrúlega hluti eins og að fá besta borðið í salnum eða þegar við vorum á hóteli í LA sem var þekkt fyrir að þar væri fræga fólkið. Kalli spurði þjóninn hvort einhverjir frægir væru hérna núna. Þjónninn sagði að það væru kannski ekki mjög frægir en Sean Lennon væri þarna. Biddu hann að koma og tala við okkur.

Eftir smástund mætti þjónninn með Sean Lennon að borðinu okkar og spjallaði góða stund við okkur.

Þegar maður setti upp spurnarsvip sagði Kalli, það má alveg spyrja.

Þegar ég var langdvölum í Búlgaríu sagði Kalli iðulega, við Ester sjáum um Kibbu þegar eitthvað var um að vera.

Kalli hugsaði stórt og ætlaði sér stóra hluti sem sannarlega urðu að veruleika.

Þau Ester voru brautryðjendur í fasteignaviðskiptum á Íslandi og byggðu með miklum dugnaði og eljusemi upp öflugt fyrirtæki á því sviði.

Það fór orð af Kalla að vera harður í viðskiptum en við vitum líka að hann var einnig hjálpsamur þegar þannig stóð á án þess að vera að flíka því.

Þau hafa verið ótrúlega góðir vinir í gegnum árin og við eigum eftir að sakna Kalla mikið.

Guð geymi þig elsku vinur og hafðu þökk fyrir allt.

Elsku Ester og fjölskylda, innilegar samúðarkveðjur.

Ykkar vinir,

Sindri og Kristbjörg.