Helena Björk Bjarkadóttir
Ólafur E. Jóhannsson
Hraun heldur áfram að flæða frá eldgosinu milli Hagafells og Stóra-Skógfells. Ekkert bendir til að dregið hafi úr krafti gossins síðustu daga. Mögulegt er að hraunið komist yfir varnargarða við Grindavík. Því var ákveðið síðdegis í gær að hækka garðana þar sem hraunbunki hafði safnast saman.
„Gosin undanfarið voru hentug í þeim skilningi að hraunið var þunnfljótandi og rann meðfram varnargörðunum. Nú þegar hraunflæðið er orðið minna er kólnunin orðin ráðandi og þá bunkast hraunið upp,“ sagði Hörn Hrafnsdóttir, verkfræðingur hjá Verkís, í samtali við Morgunblaðið í gær.
Ari Guðmundsson, verkfræðingur hjá Verkís, segir að unnið verði að hækkuninni allan sólarhringinn. Óljóst sé hvað verkið muni taka langan tíma. Varnargarðurinn verður hækkaður að innanverðu. „Við byrjum á þessu núna og vinnum í næturvinnu líka. Það verður bara að koma í ljós hvernig gengur. Það þarf að byrja á því að gera leið þarna að innanverðu og byrja síðan á hækkuninni,“ segir Ari.
Hraunrennslið var ekki einungis til vandræða við varnargarðana heldur flæddi einnig ofan í Melhólsnámu í gærkvöldi. Jarðvísindamenn telja að þar geti hraunið breitt úr sér.
Náman hefur verið notuð við uppbyggingu varnargarða á svæðinu. Hraunflæði ofan í námuna ætti þó ekki að hafa áhrif á áætlanir um hækkun varnargarðanna. Ari segir að þrátt fyrir það sé bagalegt að missa námuna en þörf hafi verið á henni í frekari framkvæmdum á svæðinu, við vegagerð og annað.
Hörn segir niðurstöður nýrra mælinga af yfirborði nýja hraunsins sem gerðar voru síðastliðinn miðvikudag hafa verið að berast. Ætlunin sé að nýta þær til að geta hermt eftir hraunflæðinu ofan á því hrauni sem fyrir er, en varnargarðarnir eru hannaðir með aðstoð líkana sem herma eftir hraunflæði.