Kænugarður Sprengjusérfræðingur safnar hér saman brotum úr rússneskri eldflaug í Kænugarði í gær. Sautján særðust í eldflaugahríð Rússa.
Kænugarður Sprengjusérfræðingur safnar hér saman brotum úr rússneskri eldflaug í Kænugarði í gær. Sautján særðust í eldflaugahríð Rússa. — AFP/Sergei Supinsky
Rússar gerðu stóra eldflaugaárás á Kænugarð í fyrrinótt, þá fyrstu frá því í byrjun febrúar. Langdrægar sprengjuþotur Rússa skutu 29 stýriflaugum og tveimur Iskander-eldflaugum á Kænugarð, en flugher Úkraínu sagðist hafa skotið niður öll flugskeyti Rússa

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Rússar gerðu stóra eldflaugaárás á Kænugarð í fyrrinótt, þá fyrstu frá því í byrjun febrúar. Langdrægar sprengjuþotur Rússa skutu 29 stýriflaugum og tveimur Iskander-eldflaugum á Kænugarð, en flugher Úkraínu sagðist hafa skotið niður öll flugskeyti Rússa.

Brak úr eldflaugunum náði hins vegar að valda nokkrum skaða á húsnæði. Að minnsta kosti 17 manns særðust í árásunum, þar af 13 í borginni sjálfri og fjórir í nærsveitum hennar. Minnst tveir voru fluttir á sjúkrahús, þar af ein ellefu ára gömul stúlka.

Volodimír Selenskí Úkraínuforseti skoraði á vesturveldin að senda fleiri loftvarnakerfi til Úkraínu í kjölfar árásanna. Sagði Selenskí að hryðjuverk Rússa héldu áfram á hverjum degi og hverri nóttu, en að hægt væri að binda enda á þau með alþjóðlegri samstöðu.

„Rússnesku hryðjuverkamennirnir eiga ekki eldflaugar sem komast í gegnum Patriot-kerfið og önnur loftvarnakerfi sem eru leiðandi á heimsvísu,“ sagði Selenskí á samfélagsmiðlum.

Lögðu undir sig annað þorp

Rússneska varnarmálaráðuneytið sagði í gær að herir Rússa hefðu náð að leggja undir sig þorpið Tonenke, en það er um 10 kílómetrum frá Avdívka, sem féll í hendur Rússa í síðasta mánuði. Þetta er annað þorpið sem Rússar segjast hafa náð í nágrenni Avdívka í þessari viku, en þeir sögðust hafa náð þorpinu Orlívka fyrr í vikunni.

Breska varnarmálaráðuneytið sagði í stöðumati sínu í gær að Rússar væru nú að einbeita sér að þorpunum í norðvesturhluta Donetsk-héraðs, og nefndi bæði Orlívka og Tonenke sem átakasvæði auk þorpanna Pervomaiske og Nevelske.

Sögðu Bretar einnig í mati sínu að hægst hefði á framrás Rússa eftir að þeir hertóku Avdívka, og að ein ástæða þess væri líklega sú hversu mikið mannfall þeir biðu í orrustunni um Avdívka. Sagði ráðuneytið að ástandið væri óstöðugt og að skortur á mannafla og skotfærum gerði nú Úkraínuher erfitt fyrir að halda stöðum sínum.

Höf.: Stefán Gunnar Sveinsson