Runólfur Þórðarson fæddist í Vestmannaeyjum 30. september 1927 og ólst upp í Vesturbæ Reykjavíkur. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi 13. mars 2024.

Foreldrar hans voru Þórður Runólfsson vélfræðingur og öryggismálastjóri, f. 15. september 1899, d. 31. júlí 1994, og kona hans Sigríður J .Gísladóttir, f. 29. júlí 1904, d. 7. október 1991. Runólfur átti eina systur, Jakobínu, f. 9. september 1930, d. 13. mars 2017.

Eiginkona Runólfs var Hildur Halldórsdóttir húsmóðir og skrifstofustjóri, f. 16. nóvember 1927, d. 27. janúar 2007.

Börn þeirra: 1) Sigrún Halla ræstitæknir, f. 8. desember 1952. Barn: Hildur Elsa, f. 25. nóvember 1969, d. 9. desember 2019. 2) Þórunn Inga lífeindafræðingur, f. 31. mars 1954. Eiginmaður Alfreð Ómar Ísaksson lyfjafræðingur, f. 19. september 1952. Börn: a) Lilja Björk, f. 12. október 1974, d. 5. desember 2006. b) Inga Huld læknir, f. 10. mars 1981. Sambýlismaður Jóel Kr. Jóelsson læknir, f. 6. desember 1983. c) Nanna Karen tæknifræðingur, f. 31. júlí 1983. Eiginmaður Kristoffer Wisler Markussen tæknifræðingur, f. 20. mars 1981. d) Árni Fannar verkfræðingur, f. 5. september 1989. Sambýliskona Jóhanna Sæmundsdóttir verkfræðingur, f. 28. ágúst 1989. 3) Ásdís Hildur víóluleikari, f. 4. febrúar 1958. Barn: Runólfur Bjarki, umboðsmaður tónlistarfólks, f. 14. janúar 1998. 4) Þórður verkfræðingur, f. 22. maí 1959, d. 17. júní 2020. Börn: a) Ásdís Gígja, f. 11. nóvember 1986, b) Þórhildur Sigrún, f. 23. desember 1997, c) Runólfur, f. 16. september 2015. Runólfur átti níu langafabörn og níu langalangafabörn.

Runólfur varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1947. BS-próf í efnaverkfræði frá Illinois Tech í Chicago 1951 og MS-próf í efnaverkfræði frá University of Wisconsin í Madison 1952. Framhaldsnám í sjálfvirkni og bestun frá sama skóla 1964-1965.

Runólfur starfaði sem verkfræðingur hjá Áburðarverksmiðjunni hf. 1952-1957 og verksmiðjustjóri frá 1957 til starfsloka 1994. Hann var einnig stundakennari við Tækniskóla Íslands 1968-1984.

Runólfur var mikill áhuga- og fræðimaður um klassíska tónlist, aðallega píanótónlist, og tónlistarfólk gat alltaf leitað í hans viskubrunn. Hann byrjaði ungur að safna hljóðritunum (plötum) og átti orðið gífurlega stórt og merkilegt safn þegar hann lést. Þetta safn ánafnaði hann Listaháskóla Íslands. Runólfur var formaður Tónlistarfélags Kópavogs og skólanefndar Tónlistarskóla Kópavogs 1970-2001. Hann var í stjórn Kammermúsíkklúbbs Reykjavíkur frá 1981. Hann sat í ýmsum faglegum nefndum á vegum ríkisins. Hann var félagi í Rótarýklúbbi Reykjavíkur í áratugi. Runólfur og Hildur voru fastagestir á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands frá stofnun hennar. Þau ferðuðust mikið innanlands og utan og stunduðu sund daglega áratugum saman og hann hélt þeim sið eftir fráfall Hildar meðan heilsan leyfði.

Útför hans fer fram frá Hjallakirkju í dag, 22. mars 2024, klukkan 13.

Upp úr miðri síðustu öld vandi fámennur hópur vina sig á að hittast kvöldstund á heimili hver annars. Þetta voru gleðistundir öllum þeim er viðstaddir voru hverju sinni og margt skrafað og mikið hlustað. Einstaklingarnir í hópnum áttu tónlist að áhugamáli og aðalstarfi, voru sérhæfðir í píanóleik og mótaðir með skólagöngu langri hér og þar, starfandi fræðarar.

Þetta var þroskandi og skemmtilegt. Einn vinur í þessum hópi, Runólfur Þórðarson, hafði annað bakland en bara píanóspil.

Runólfur var verkfræðingur í Áburðarverksmiðjunni í Gufunesi, menntaður í Ameríku.

Hann var félagi og hvatamaður í þessum sérhæfða hópi píanóspekúlanta. Hafsjór af fróðleik. Í brjósti hans bjó brennandi áhugi á tónlist, ekki síst píanóbókmenntunum í víðum skilningi. Hann átti stórt og dýrmætt plötusafn og bókasafn, hann hafði hlustað og kynnst mörgum meisturum sögunnar allar götur til nemenda Franz Liszts en Liszt er risinn í sögu píanóspils allra tíma. Söguna kunni Runólfur og funi fræðarans bjó í brjósti hans.

Máli sínu til stuðnings fletti hann í hugarfylgsni sínu sögulegum skýringum, sem hann hafði ávallt á hraðbergi. Runólfur Þórðarson kom víða við og lét um sig muna í tónlistarlífinu. Það nægir að nefna Tónlistarskólann í Kópavogi og störf við stjórn

Kammermúsíkklúbbsins.

Genginn er eftirminnilegur maður, vinur og félagi.

Blessuð sé minning hans.

Jónas Ingimundarson, Halldór Haraldsson,
Ólafur Vignir Albertsson, Jón Nordal.

Áburðarverksmiðja ríkisins í Gufunesi hóf framleiðslu á áburði árið 1954. Áburðarverksmiðjan var fyrsta verksmiðjan á Íslandi sem byggði starfsemi sína á þróuðum efnaiðnaði og nýtti til þess innlenda orku í meiri mæli en áður hafði þekkst í íslenskri atvinnustarfsemi. Árið 1952, en þá var uppbygging Áburðarverksmiðjunnar í fullum gangi, var Runólfur Þórðarson ráðinn til starfa hjá fyrirtækinu. Runólfur hafði þá nýlokið prófum í efnaverkfræði frá Illinois Institute of Technology í Chicago og frá University of Wisconsin í Madison í Bandaríkjunum. Runólfur tók síðar, eða árið 1957, við starfi verksmiðjustjóra og gegndi því starfi til ársins 1994. Hafði hann þá starfað hjá Áburðarverksmiðjunni í 42 ár. Ég minnist þess að Runólfur sagði mér frá því að það hafi verið spennandi fyrir ungan nýútskrifaðan efnaverfræðing að koma til starfa hjá Áburðarverksmiðjunni í upphafi starfsemi hennar og vera þar þátttakandi í mikilli nýsköpun í atvinnustarfsemi landsins.

Ég kom til starfa sem forstjóri hjá Áburðarverksmiðjunni árið 1985. Runólfur var þar minn nánasti samstarfsmaður og fékk ég njóta þekkingar hans og reynslu í samstarfi okkar. Við áttum stuttan samráðsfund klukkan níu að morgni hvers starfsdags í tíu ár. Aldrei bar skugga á okkar samstarf. Runólfur var farsæll stjórnandi. Sem verksmiðjustjóri hafði hann umtalsverð mannaforráð og naut hann virðingar og vinsemdar starfsmanna sinna. Utan starfsins hjá Áburðarverksmiðjunni snerist líf Runólfs um tónlist. Hann var alla tíð mjög virkur í tónlistarlífi, starfaði í tónlistarfélögum og klúbbum og studdi við tónlistarmenntun. Hann hlustaði mikið á tónlist og þó að hann léki ekki opinberlega á hljóðfæri átti hann sínar gæðastundir við að leika á flygilinn á heimili sínu.

Með Runólfi er genginn eftirminnilegur drengur sem gamlir samstarfsmenn minnast með hlýju. Við fráfall hans votta ég afkomendum hans samúð mína.

Hákon Björnsson.

Áburðarverksmiðjan í Gufunesi var hvort tveggja í senn, áhugaverður og mjög svo skemmtilegur vinnustaður.

Ég var svo heppinn að vera ráðinn þar í starf sölustjóra, sumarið 1963, og ári seinna, eftir brautskráningu frá Bifröst, sem aðalbókari verksmiðjunnar.

Við tóku skemmtileg og afar lærdómsrík ár allt til ársloka 1970 þegar ég tók þá ákvörðun að söðla um, ef ég yrði þarna lengur væri hætta á að mig „dagaði uppi“ umvafinn glaðværu samstarfsfólki, bæði á skrifstofunni og í öðrum starfseiningum verksmiðjunnar.

Einn þessara einstaklega góðu samstarfsmanna var Runólfur Þórðarson verksmiðjustjóri. Ávallt kátur og hress, einstaklega viðræðugóður og þægilegur í öllum samskiptum, og síðast en ekki síst uppátækjasamur í skemmtiferðum okkar víða um land. Tjaldferðir þóttu þá sjálfsagðar og í einni slíkri á Snæfellsnes, og við sigldum um Breiðafjörð og út í Flatey, deildi ég tjaldi með Runólfi og Grétari Ingvasyni skrifstofustjóra. Allt gekk það auðvitað með ágætum, tjaldfélagarnir eðalmenn báðir, en mér eftirminnilegt að báðir hrutu þeir hressilega og sofnaði ég værum blundi eftir að hafa hlustað í dálitla stund á misháa dúra og molla hrotutónstigans.

Ég vissi ekki þá um yfirgripsmikla þekkingu Runólfs á klassískri tónlist, sem við hlustendur Ríkisútvarpsins fengum síðar að kynnast um árabil í afar vönduðum útvarpsþáttum hans á gömlu góðu Rás 1. Fór ekki á milli mála að Runólfur lagði mikla vinnu í þessa þætti sína, þannig að hlustendur fræddust við hverja kynningu hans á tónverki, höfundum og flytjendum – m.ö.o. vönduð dagskrárgerð.

Ég minnist þess ekki að Runólfur hafi rætt mikið um tónlistarmál á skrifstofu Áburðarverksmiðjunnar, heldur ekki að hann hafi verið liðtækur íþróttamaður á unglingsárunum. Hann og Steingrímur Hermannsson voru góðir vinir, og hitti ég Steingrím stundum þegar hann kom í Áburðarverksmiðjuna, en þar sat hann í stjórn um tíma, ásamt mörgum öðrum mætum mönnum.

Í viðtali í Vikunni 1980 er viðtal við Steingrím þar sem hann segir frá árunum sem hann átti heima, sem barn og unglingur, í Ráðherrabústaðnum við Tjörnina. Þar segir hann m.a.: „1934 fluttum við í Ráðherrabústaðinn og bjuggum þar í átta ár. Á þeim tíma stofnaði ég ásamt fleirum félagsskap sem við kölluðum Röska drengi. Félagsmenn voru aðallega vesturbæingar eins og t.d. Clausen-bræður, Runólfur Þórðarson og Þorbjörn Karlsson, Matthías Johannessen, svo fáir séu nefndir. Við lögðum mikla áherslu á iðkun íþrótta og tókum hlauptíma á gamla vekjaraklukku. Raunar voru það ekki Clausen-bræður sem unnu flest stuttu hlaupin þá, heldur þeir Runólfur og Þorbjörn!“

Þetta heyrði ég Runólf aldrei minnast á, enda ekki til í þeim góða dreng raupsemi né sjálfumgleði.

Við fráfall hans votta ég dætrum hans og fjölskyldunni allri mína dýpstu samúð, minnist Runólfs sem einstaklega góðs vinnufélaga og mikils drenglundarmanns. Minning hans og annarra frumherja fyrstu ára Áburðarverksmiðjunnar lifir.

Óli H. Þórðarson.

Tónlistarskóli Kópavogs kveður í dag Runólf Þórðarson, verkfræðing og fyrrverandi stjórnarformann skólans til þriggja áratuga. Runólfur stóð í stafni ásamt þáverandi skólastjórnendum, Fjölni Stefánssyni og Kristni Gestssyni, á miklu vaxtarskeiði skólans á árunum 1970-2001. Meðfram uppbyggingu á faglegu starfi voru húsnæðismál jafnan erfið viðfangsefni og bjó skólinn við þröngan kost á sínum bernskuárum. Á tuttugu ára afmæli skólans árið 1983 samþykkti bæjarstjórn að framtíðaraðsetur tónlistarskólans yrði á vesturhluta miðbæjarsvæðisins og varð sá ásetningur að veruleika um síðir þegar ráðist var í hönnun og byggingu menningarmiðstöðvar. Tónlistarfélagið, sem þá var rekstraraðili skólans, gerðist aðili að stofnsamningi um Tónlistarhús Kópavogs ásamt Kópavogsbæ árið 1997 og fluttist tónlistarskólinn í hið nýja og glæsilega húsnæði tveimur árum síðar. Runólfur var fulltrúi skólans í undirbúningi húsbyggingarinnar allt til loka þess stóra verkefnis og lét af starfi sem formaður stjórnar árið 2001.

Runólfur var unnandi klassískrar tónlistar. Hann var píanóleikari sjálfur og hafði óbilandi áhuga á píanóleik og píanóleikurum. Gríðarstórt plötusafn hans, sem skartaði fjölmörgum fágætum hljóðritunum, er vafalaust eitt það áhugaverðasta hér á landi. Runólfur tók virkan þátt í starfsemi Kammermúsíkklúbbsins og hann og eiginkona hans heitin, Hildur Halldórsdóttir, voru alla tíð ötul í að sækja tónleika og styðja við framgang lifandi tónlistariðkunar. Þannig tilheyra þau sannarlega hópi máttarstólpa íslensks tónlistarlífs.

Fyrir hönd skólans kveð ég öflugan velgjörðarmann með virðingu og þakklæti. Fjölskyldunni allri sendum við innilegar samúðarkveðjur. Blessuð sé minning Runólfs Þórðarsonar.

Kveðja frá Tónlistarskóla Kópavogs,

Árni Harðarson skólastjóri.

Kynni mín af heiðursmanninum Runólfi Þórðarsyni hófust þegar ég tók sæti í stjórn Kammermúsíkklúbbsins snemma á tíunda áratug síðustu aldar en þar voru fyrir, auk hans, Þórarinn Guðnason læknir, Jakob Benediktsson, forstöðumaður Orðabókar Háskólans, Einar B. Pálsson verkfræðingur og síðast en ekki síst Guðmundur W. Vilhjálmsson lögfræðingur, sem var annar upphafsmanna að tónleikahaldi klúbbsins og stýrði því frá upphafi, árið 1957, til 2013.

Ég komst fljótt að því hvílík forréttindi það voru fyrir mig að kynnast þessum mönnum sem voru allir af kynslóðinni á undan mér og er Runólfur sá síðasti þeirra til að kveðja þennan heim.

Þetta voru allt einstakir öðlingar sem höfðu skipulagt starf stjórnarinnar þannig að hver og einn gekk fumlaust að sínu verki. Stjórnarfundir voru vel undirbúnir og skamma stund tók að afgreiða dagskrármál og annað sem þurfti að ræða. Þá tóku við óformlegar umræður um tónlist, flytjendur og allt mögulegt annað, hvort sem það tengdist tónlist eða ekki. Þessir menn bjuggu yfir víðtækri þekkingu og voru ósparir á að miðla henni áfram og höfðu frá mörgu að segja. Kímnigáfan var rík í fari þeirra og voru þeir fundvísir á skoplega þætti í bland við fróðleikinn sem gátu vakið nokkuð stórkarlalegan hlátur þegar best lét.

Runólfur var einkar vel að sér um píanótónlist og píanóleikara allt frá dögum Beethovens og var hollráður við val á efni til flutnings því oftar en ekki lagði stjórnin fram óskir til flytjenda um efnisval.

Hann var ekki maður sem bar tilfinningar sínar á torg og gat virst hrjúfur á yfirborðinu við fyrstu kynni, en í brjósti hans sló stórt og hlýtt hjarta og í starfi sínu í Áburðarverksmiðjunni reyndist hann einstaklega vel ýmsum starfsmönnum sem áttu erfitt með að fóta sig í lífinu.

Ekki er hægt að minnast Runólfs án þess að nefna Hildi eiginkonu hans, sem féll frá fyrir 17 árum. Hún studdi mann sinn í öllu með einstakri ljúfmennsku og við Maggý erum full þakklætis fyrir vináttu þessara öndvegishjóna og umhyggju þeirra í okkar garð.

Stjórn Kammermúsíkklúbbsins minnist Runólfs með þökk fyrir úthald og elju í þágu tónlistarinnar og við sendum fjölskyldu hans okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Helgi Hafliðason.