Fasteignagjöld af tiltekinni viðmiðunareign heimila eru að meðtaltali um 392 þúsund kr. yfir landið á þessu ári og hafa hækkað um 12,7% frá síðasta ári. Þetta kemur fram í nýjum samanburði Byggðastofnunar á fasteignagjöldum og fasteignamati heimila

Fasteignagjöld af tiltekinni viðmiðunareign heimila eru að meðtaltali um 392 þúsund kr. yfir landið á þessu ári og hafa hækkað um 12,7% frá síðasta ári.

Þetta kemur fram í nýjum samanburði Byggðastofnunar á fasteignagjöldum og fasteignamati heimila.

Stofnunin fékk Húsnæðis- og mannvirkjastofnun til að reikna út fasteignamat viðmiðunareignar sem er einbýlishús 161,1 fermetri að grunnfleti, 476 rúmmetrar og 808 fermetra lóð. Byggðastofnun reiknaði síðan fasteignagjöld á alls 103 matssvæðum í 49 sveitarfélögum samkvæmt álagningarreglum ársins 2024 eins og þær eru í hverju sveitarfélagi og út frá fasteignamati.

Ef litið er á þróunina á seinustu tíu árum á 30 svæðum víðs vegar um landið sem eldri gögn ná yfir, hafa heildarfasteignagjöld hækkað um 39% frá 2014. Að meðaltali voru fasteignagjöldin af viðmiðunareigninni án sorpgjalda 314 þúsund á núvirði árið 2014 á þessum svæðum en voru komin í 437 þúsund kr. á yfirstandandi ári. Á sama tíma hækkaði fasteignamat á sömu svæðum um 87% að jafnaði.

Heildarfasteignagjöld viðmiðunareignarinnar á árinu 2024, þ.e. fasteignaskattur, lóðarleiga, fráveitugjald og vatnsgjald að sorpgjöldum frátöldum, sem ekki eru með í samanburðinum, eru hæst á landinu á Seltjarnarnesi líkt og í fyrri úttektum Byggðastofnunar. Þau eru 609 þús. kr. vestan Nesvegar og 602 þús. kr. á nyrðri hluta Seltjarnarness. Á Selfossi eru heildarfasteignagjöld viðmiðunareignarinnar 601 þús. kr og á Egilsstöðum 589 þús. kr. Mesta hlutfallshækkun fasteignamats viðmiðunareignar á einu matssvæði var á Seyðisfirði 46,4%, en þar næst á Þingeyri 39,5% og í Höfnum 38,7%.

Matið hækkaði á höfuðborgarsvæði um 104% á tíu árum

Höfuðborgarsvæðinu er skipt í sex matssvæði og voru meðalfasteignagjöld viðmiðunareignar þar 316 þúsund kr. fyrir áratug en eru komin í 375 þúsund kr. á árinu 2024, sem er 19% hækkun. Á sama tíma hækkaði fasteignamat viðmiðunareignarinnar að meðaltali á svæðinu um 104%.

„Mesta hlutfallshækkun fasteignagjalda var í Suður-Þingholtum 37% og Úlfarsárdal 31%. Í Suður-Þingholtum hækkaði fasteignamat viðmiðunareignarinnar um 77% á sama tímabili en um 129% í Úlfarsárdal. Minnsta hlutfallshækkun fasteignagjalda á höfuðborgarsvæðinu var í Hvörfum og Þingum í Kópavogi 4%, þar sem fasteignamat hækkaði um 104% […],“ segir í skýrslunni.

Útreikningarnir leiða í ljós að heildarfasteignamat íbúðareigna á landinu öllu hækkaði milli áranna 2023 til 2024 um 13,7%. Heildarmatið á viðmiðunareigninni er langhæst í Suður-Þingholtum í Reykjavík eða 161 milljón kr.

Miklu getur munað á fasteignamati eftir staðsetningu og því eru álagningarhlutföll fasteignaskatts mjög mismunandi. Lægst er hlutfallið núna í Garðabæ 0,163%, 0,165% í Kópavogi og 0,166% á Seltjarnarnesi. Fram kemur að hæsta upphæð fasteignaskatts af viðmiðunareign er á Ísafirði sem skipt er í tvö svæði, 336.496 kr. í eldri byggð og 308.842 kr. í nýrri byggð. „Á Egilsstöðum er fasteignaskattur fyrir viðmiðunareign 291.004 kr., í Suður-Þingholtum í Reykjavík 290.192 kr. og á Sauðárkróki 284.140 kr.“ Meðalupphæð lóðarleigu er hæst á Suðurnesjum 126.634. Hæsta upphæð fráveitugjalds fyrir viðmiðunareignina er á Egilsstöðum 189.918 kr. omfr@mbl.is