39 Keflvíkingurinn Remy Martin fór á kostum í undanúrslitunum.
39 Keflvíkingurinn Remy Martin fór á kostum í undanúrslitunum. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Keflavík leikur til úrslita í karla- og kvennaflokki í bikarkeppninni í körfuknattleik en úrslitin karlamegin fara fram í Laugardalshöll í dag klukkan 16, þar sem Tindastóll og Keflavík mætast. Úrslitin kvennamegin fara svo fram klukkan 19 í…

Keflavík leikur til úrslita í karla- og kvennaflokki í bikarkeppninni í körfuknattleik en úrslitin karlamegin fara fram í Laugardalshöll í dag klukkan 16, þar sem Tindastóll og Keflavík mætast. Úrslitin kvennamegin fara svo fram klukkan 19 í Laugardalshöll, þar sem Keflavík og Þór frá Akureyri mætast.

Í karlaflokki hafði Kelfavík betur gegn Stjörnunni í undanúrslitum í Laugardalshöll, 113:94, en Bandaríkjamaðurinn Remy Martin átti sannkallaðan stórleik fyrir Keflavík í leiknum, skoraði 39 stig, tók sex fráköst og gaf eina stoðsendingu. Í hinu undanúrslitaeinvíginu vann Tindastóll öruggan sigur gegn Álftanesi, 90:72, þar sem Sigtryggur Arnar Björnsson var atkvæðamestur hjá Sauðkrækingum með 22 stig, fjögur fráköst og eina stoðsendingu.

Keflavík hefur sex sinnum orðið bikarmeistari, síðast árið 2012 eftir sigur gegn Tindastóli í úrslitaleik, en Tindastóll hefur einu sinni orðið bikarmeistari, árið 2018 eftir sigur gegn KR.

Kvennamegin hafði Kelfavík betur gegn nágrönnum sínum í Njarðvík í undanúrslitunum, 86:72, í Laugardalshöll en Birna Valgerður Benónýsdóttir og Daniela Wallen voru stigahæstar hjá Keflavík með 17 stig hvor. Þá tók Wallen 15 fráköst í leiknum og gaf 9 stoðsendingar. Þór frá Akureyri vann svo nauman sigur gegn Grindavík, 79:75, þar sem Lore Devos fór á kostum hjá Þórsurum, skoraði 32 stig, tók 12 fráköst og gaf þrjár stoðsendingar.

Keflavík hefur 15 sinnum orðið bikarmeistari, síðast árið 2018 eftir sigur gegn Njarðvík, en Þór hefur einu sinni orðið bikarmeistari, árið 1975 eftir sigur gegn KR.